07 mar Það er nákvæmlega ekkert að frétta. Eða hvað?
Þó nokkur tími er liðinn síðan bæjarstjóri skrifaði undir viljayfirlýsingu þess efnis að nýtt húsnæði Tækniskólans skyldi rísa á hafnarsvæðinu við hliðina á Hafró. Um þetta mál náðist þverpólitísk samstaða og ljóst að koma Tækniskólans yrði lyftistöng fyrir allt iðn og tækninám í landinu og ekki síður lyftistöng fyrir Hafnarfjörð. Um þetta eru flestir sammála.
En allt kostar þetta peninga og ljóst að hlutur Hafnarfjarðar verður talinn í milljörðum. Málið hefur verið rætt í bæjarráði og bæjarstjórn reglulega og í stuttu máli er ekkert að frétta. Það er slæmt að ákvarðanir í málinu taki jafn langan tíma og raun ber vitni.
Það sem snýr að Hafnarfirði er skuldbinding um lóð og fjármuni. Það er því undarlegt að í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar til ársins 2027 er ekki gert ráð fyrir einni krónu í þetta risaverkefni. Annað hvort er þetta dæmi um mjög slæma fjárhagsáætlanagerð eða þá að meirihlutinn ætli sér ekki að standa við sinn hluta.
Þá er gott að spyrja sig hvort maður eigi að treysta fögrum fyrirheitum eða samþykktum fjárhagsáætlunum. Sjálfur greiddi ég atkvæði gegn fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar í desember síðastliðnum m.a. vegna þess að ekki væri gert ráð fyrir neinum útgjöldum vegna þessa máls.
Þetta eru stór skilaboð til ríkis og Tækniskólans. Er að undra að ekkert sé að frétta í málinu?
Jón Ingi Hákonarson,
oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar