Leikur Íslands í Seðlabankanum

Von­brigði lands­manna þegar vext­ir voru ekki lækkaðir í kjöl­far kjara­samn­ing­anna voru mik­il. Til­finn­ing­arn­ar eru hliðstæðar því þegar ís­lenska landsliðið tap­ar þýðing­ar­mikl­um leik. Eins og við höf­um öll tapað.

Rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur lagði til 80 millj­arða svo hægt væri að ná samn­ing­um en hef­ur ekki enn svarað hvert á að sækja þessa millj­arða. Þess vegna bíður Seðlabank­inn með vaxta­lækk­un.

Vaxta­kostnaður heim­ila jókst í fyrra um 39 millj­arða. Því er heil­brigt að for­ystu­menn verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar bendi á að stöðug­leiki og fyr­ir­sjá­an­leiki er risa­vaxið hags­muna­mál fyr­ir fólkið í land­inu. Finn­björn Her­manns­son for­seti ASÍ seg­ir ná­granna okk­ar á Norður­lönd­un­um búa við þenn­an stöðug­leika en Íslend­inga búa við jójó-hag­kerfi. Þetta muni ekki breyt­ast fyrr en fólk get­ur reitt sig á stöðugan gjald­miðil. Í huga for­seta ASÍ er krón­an stóra vanda­málið.

Stöðug­leiki ná­granna okk­ar skil­ar því að þegar fólk kaup­ir íbúð get­ur það treyst því að vext­ir hald­ist svipaðir og af­borg­an­ir líka. Þar eru ekki þess­ar jójó-sveifl­ur sem fylgja örgjald­miðli okk­ar. Við heyr­um gjarn­an þá sögu­skýr­ingu að þess­ar sveifl­ur séu kost­ur. En heim­il­is­bók­hald alls venju­legs fólks seg­ir aðra sögu.

Frænd­ur okk­ar í Fær­eyj­um sem tengd­ust evru í gegn­um danska krónu eru ró­leg­ir þegar vaxta­ákv­arðanir eru kynnt­ar. Seðlabanka­stjóri er eng­inn sér­stak­ur kvíðavald­ur fólks í Fær­eyj­um. Spennu­stig ís­lensku þjóðar­inn­ar er tölu­vert annað þegar blaðamanna­fund­ir Seðlabank­ans hefjast.

Æsispenn­andi blaðamanna­fund­irn­ir hafa hins veg­ar ekki áhrif á alla hér á landi. Um 250 ís­lensk fyr­ir­tæki hafa yf­ir­gefið krón­una eins og fram kom í svari viðskiptaráðherra við fyr­ir­spurn minni á Alþingi. Þegar vaxta­ákv­arðanir eru kynnt­ar get­ur þessi hluti at­vinnu­lífs­ins bless­un­ar­lega ein­beitt sér að öðru. Þess­um fyr­ir­tækj­um bjóðast betri láns­kjör en heim­il­in og hinn hluti at­vinnu­lífs­ins njóta. Stór hluti þjóðarfram­leiðslunn­ar hef­ur yf­ir­gefið krón­una, heil 42% skv. svör­um viðskiptaráðherra við fyr­ir­spurn minni.

Næst­um öll­um kostnaði af vaxta­hækk­un­um er þess vegna velt yfir á heim­ili með hús­næðislán, ekki síst ungt fólk og barna­fjöl­skyld­ur. Þau taka reikn­ing­inn. Get­ur verið að ríkið borgi stór­an hluta af kjara­samn­ing­um vinnu­markaðar­ins ein­mitt vegna þess hversu dýr þessi óstöðug­leiki er fyr­ir al­menn­ing? Er rík­is­stjórn­in að bæta fólki fyr­ir jójó-hag­kerfið?

Það á að hlusta þegar for­ystu­menn í verka­lýðshreyf­ing­unni vilja ræða kostnaðinn af krón­unni fyr­ir fólkið í land­inu. Og þegar þeir benda á það skakka hags­muna­mat að velja krón­una áfram fyr­ir heim­il­in þegar stór hluti at­vinnu­lífs­ins hef­ur skilj­an­lega valið að fara annað. Stjórn­mála­flokk­ar verða svo að svara hvaða rétt­læti er fólgið í því að fólkið í land­inu fái ekki líka að velja.