Varnir og vinir í NATO

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar

Þegar NATO var stofnað fyr­ir 75 árum og Ísland ákvað að ganga í banda­lagið og ger­ast einn af stofnaðilum þess var það um­deild ákvörðun. Mark­mið NATO var skýrt. Það var stofnað til höfuðs Sov­ét­ríkj­un­um, til varn­ar lýðræðinu í Evr­ópu. Við skipuðum okk­ur í sveit með vest­ræn­um lýðræðis­ríkj­um í stað þess að halla okk­ur að Sov­ét­ríkj­un­um. Bless­un­ar­lega.

Þegar ég hóf fer­il minn á þingi fyr­ir rétt tæp­um 25 árum var banda­lagið 50 ára. Með falli múrs­ins og inn­göngu þjóða í NATO, sem áður til­heyrðu Var­sjár­banda­lag­inu, var und­ir­strikað að hug­sjón­ir um vest­rænt lýðræði og markaðshag­kerfi höfðu sigrað. Gömlu Aust­ur-Evr­ópuþjóðirn­ar höfðu þá leitað til NATO, ekki síst á grund­velli 5. grein­ar stofn­sátt­mál­ans. Hún seg­ir til um að ef ráðist verður á eitt ríki NATO þýðir það árás á þau öll. Með þessu vildu þau einnig fjar­lægja sig með af­ger­andi hætti frá Rússlandi og þeim stjórn­ar­hátt­um sem þar voru viðhafðir.

Í til­efni af hálfr­ar ald­ar af­mæl­inu full­yrtu ýms­ir í umræðunni gjarn­an að með lok­um kalda stríðsins hefði til­gang­ur NATO brostið og hags­mun­ir og sýn aðild­ar­ríkj­anna á ógn­ir orðið ólík­ar. Oft­ar en ekki hljómuðu þess­ar radd­ir frá sömu upp­sprettu og höfðu í gegn­um tíðina séð NATO allt til foráttu – og jafn­vel ekki náð sér að fullu eft­ir fall komm­ún­ism­ans. Tregi og eft­ir­sjá liðinna tíma þess­ara hópa á 50 ára af­mæl­inu virt­ist móta að ein­hverju leyti af­stöðuna gagn­vart NATO. Það sama gilti í raun á 60 ára og 70 ára af­mæl­inu. Nú eru aðstæður með allt öðrum hætti og þess­ar radd­ir hafa flest­ar hægt um sig.

Árið 2019 á 70 ára af­mæli NATO sagði ég á fundi hjá Varðbergi, sam­tök­um um vest­ræna sam­vinnu og alþjóðamál, að heim­ur­inn væri breytt­ur og ógn­ir marg­vís­leg­ar. Hætt­urn­ar væru þarna, jafn­vel veru­leg­ar en kannski ekki alltaf jafn aug­ljós­ar og á árum áður.

Þrem­ur árum síðar réðust Rúss­ar inn í Úkraínu, heims­mynd­in breytt­ist og hætt­urn­ar urðu flestu lýðræðis­lega þenkj­andi fólki ljós­ar. Meg­in­til­gang­ur NATO, til varn­ar lýðræði og frelsi í Evr­ópu, varð skýr­ari og mik­il­væg­ari en ára­tug­ina á und­an.

Gildi alþjóðasam­starfs

Höf­um hug­fast að afstaða Íslands til sam­vinnu og sam­starfs við önn­ur ríki mun ráða miklu um þjóðar­hag. Það gild­ir ekki síst um varn­ir og ör­yggi lands­ins.

Sér­hvert skref sem við Íslend­ing­ar höf­um tekið í alþjóðasam­vinnu, hvort sem það er í gegn­um EFTA, EES eða NATO, hef­ur styrkt okk­ur sem þjóð og eflt efna­hags­lega vel­ferð lands­manna. Öryggi okk­ar og aðild að banda­lag­inu hef­ur reynst okk­ur giftu­drjúg. Svo ekki sé minnst á hversu verðmæta­sköp­un í sinni víðustu mynd í gegn­um ör­yggi og frið, er ómet­an­leg.

Sag­an sýn­ir að með aðild okk­ar að Atlants­hafs­banda­lag­inu lögðum við grunn að því að efla efna­hags­legt sjálf­stæði lands­ins. Meðal ann­ars þegar við Íslend­ing­ar stóðum í mikl­um útistöðum við Breta vegna fisk­veiðilög­sög­unn­ar. Reyndu and­stæðing­ar NATO hér heima fyr­ir af fremsta megni að gera aðild okk­ar tor­tryggi­lega og magna upp reiði gagn­vart banda­lag­inu vegna fram­komu Breta í okk­ar garð.

Seta okk­ar við borðið, full þátt­taka og kynn­ing á sjón­ar­miðum okk­ar reynd­ist okk­ur ómet­an­leg og leiddi til þess að við náðum samn­ing­um um full yf­ir­ráð yfir auðlind­um okk­ar. Á okk­ur var hlustað – sætið við borðið reynd­ist ís­lensku þjóðinni happa­drjúgt.

Breytt­ar aðstæður og end­ur­mat

Don­ald Trump fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seti og vænt­an­leg­ur for­setafram­bjóðandi hef­ur haft uppi hót­an­ir um að koma banda­lagsþjóðum ekki til hjálp­ar skv. 5. grein sátt­mál­ans ef þær upp­fylla ekki greiðslur sín­ar til NATO. Þetta er ógn við sam­starfið og hef­ur kallað á umræðu um end­ur­mat inn­an varn­ar­banda­lags­ins.

Þegar Rúss­ar réðust inn í Úkraínu ákváðu bæði Sví­ar og Finn­ar að ger­ast meðlim­ir í NATO. Til að tryggja ör­yggi sitt. Dan­ir fóru í þjóðar­at­kvæðagreiðslu og samþykktu að af­nema fyr­ir­vara sína inn­an ESB hvað viðkem­ur sam­eig­in­leg­um vörn­um og ör­yggi. Í Nor­egi hef­ur verið umræða um það hvort all­ar þess­ar breyt­ing­ar þrýsti enn frek­ar á umræðu um aðild að ESB, þegar ná­granna­lönd­in eru kom­in með „tvö­falda“ aðild. NATO og ESB.

NATO er varn­ar­banda­lag meðan ESB er í gróf­um drátt­um banda­lag um efna­hag og stjórn­mál. Eft­ir inn­rás Rússa í Úkraínu hef­ur vægi ESB á sviði ör­ygg­is­mála auk­ist og breyst. Er þetta meira samofið en áður eins og Mat­hilde Fastn­ing, pistla­höf­und­ur hægri hug­veit­unn­ar Ci­vita í Nor­egi, hef­ur bent á. Og hún spyr hvort NATO-aðild­in dugi Norðmönn­um.

Hún dreg­ur fram að hlut­verk NATO sé svæðis­bundn­ar varn­ir, byggðar á 5. grein stofn­sátt­mál­ans, og að banda­lagið ráði yfir her­gögn­um og herafla. Hlut­verk ESB hafi þró­ast í að tak­ast á við aðra þætti þeirr­ar ógn­ar­mynd­ar sem við blasi. Eins og netógn­ir, vernd­un innviða og upp­lýs­inga­óreiðu. Því til viðbót­ar sjái ESB um þjálf­un úkraínskra her­manna auk annarra aðgerða eins og söfn­un töl­fræðiupp­lýs­inga. Sam­vinna ESB og NATO sé orðin yf­ir­grips­mik­il enda séu 23 af 27 ríkj­um ESB í NATO. Fyrr­nefnd­ur pistla­höf­und­ur bend­ir jafn­framt á að ráðherr­ar ESB-ríkja ræði meira ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál sín á milli en áður. Ráðherr­ar ESB funda oft­ar en gert er hjá NATO. Þriðju ríki eins og Ísland og Nor­eg­ur eiga ekki aðgang að þeim óform­legu ráðherra­fund­um Evr­ópu­sam­bands­ins.

Hvað okk­ur Íslend­inga varðar þurf­um við að end­ur­meta stöðu okk­ar þegar kem­ur að ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Viðreisn var eini flokk­ur­inn sem lagði strax fram þings­álykt­un­ar­til­lögu í þá veru eft­ir inn­rás Rússa í Úkraínu árið 2022. Þar lögðum við meðal ann­ars áherslu á að styrkja enn frek­ar tví­hliða varn­ar­sam­starf Íslands og Banda­ríkj­anna en varn­ar­samn­ing­ur­inn milli ríkj­anna frá 1951 og aðild­in að NATO eru horn­stein­ar í vörn­um lands­ins.

Samn­ing­ur­inn tek­ur hins veg­ar ekki til­lit til breyttra aðstæðna í Evr­ópu, nýrra ógna eða auk­inn­ar áherslu á norður­slóðir. Þegar kem­ur að ör­yggi lands­ins má ekki leika vafi á hvað þarf til svo að varn­ir séu skýr­ar og ör­yggi tryggt.

Í mín­um huga þarf ör­ygg­is­ins vegna að halda áfram að rækta far­sælt sam­band við Banda­rík­in. Óviss­an með Don­ald Trump sem Banda­ríkja­for­seta er vissu­lega mik­il, jafn­vel ógn við vest­ræn lýðræðisöfl. Það er stór breyta. Þess þá held­ur vil ég hvetja þá ein­stak­linga sem mæra hann dag­lega hér heima og jafn­vel láta líta út fyr­ir að vera í þokka­leg­um tengsl­um við hann, til að tala máli Íslands og tryggja áfram ör­yggi lands­ins. Í sam­starfi við Banda­rík­in.

Það breyt­ir hins veg­ar ekki því að við Íslend­ing­ar þurf­um að móta okk­ar eig­in varn­ar­stefnu. Sá hluti þjóðarör­ygg­is­stefn­unn­ar er frek­ar þunn­ur þrett­ándi og ekki í takti við breytt­ar áhersl­ur í heims­mál­un­um. Og við eig­um ekki að vera blaut á bak við eyr­un þegar kem­ur að Pútín og hans fé­lög­um. Svart­sýn­ustu radd­irn­ar gagn­vart Rússlandi hafa sýnt að þær höfðu því miður rétt fyr­ir sér.

Mér er minn­is­stæð sam­eig­in­leg þing­mannaráðstefna Evr­ópu­ríkja í Par­ís sem hald­in var dag­inn eft­ir inn­rás Rússa í Úkraínu. Eðli­lega breytt­ist dag­skrá­in og ekk­ert annað var rætt. Eft­ir­minni­leg­ustu ræðurn­ar voru þegar allt að því grát­klökk­ir en líka nokkuð reiðir þing­menn Eystra­salts­ríkj­anna og Pól­lands sögðu að þeir hefðu varað NATO og Evr­ópu­rík­in við hætt­unni á yf­ir­gangi Rússa, en rík­in skellt skolla­eyr­un­um við þeim viðvör­un­um. Þrátt fyr­ir Georgíu 2008 og Krímskaga 2014.

Við höf­um ekki efni á því að taka þess­um hlut­um með létt­væg­um hætti. Við get­um held­ur ekki leyft gömlu úr­tölurödd­un­um gagn­vart NATO og vest­rænni varn­ar­sam­vinnu að draga úr ábyrgð okk­ar Íslend­inga á að hlúa bet­ur að ör­yggi og vörn­um lands­ins. Í sam­starfi við okk­ar helstu vinaþjóðir. Aust­an hafs sem vest­an.

Hluti af end­ur­mati á vörn­um okk­ar og ör­yggi felst í því að skoða hvort staða okk­ar geti orðið sterk­ari inn­an beggja banda­laga, NATO og ESB. Þverg­irðings­hátt­ur þeirra sem neita að ræða þetta af yf­ir­veg­un má ekki koma í veg fyr­ir að við kort­leggj­um all­ar þær leiðir sem geta tryggt bet­ur ör­ygg­is­hags­muni Íslands.

Far­sæl ákvörðun, virk­ir þátt­tak­end­ur

Ákvörðun um aðild að NATO ligg­ur fyr­ir, nú til 75 ára og hef­ur verið til far­sæld­ar fyr­ir þjóðina. Við höf­um tek­ist á herðar alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar sem í dag væri bein­lín­is vara­samt út frá þjóðarör­yggi að hverfa frá. Frek­ar þurf­um við að end­ur­meta varn­ir okk­ar og ör­yggi út frá þeim ógn­um sem nú blasa við.

Við mun­um til að mynda ekki geta tryggt ör­yggi á norður­slóðum án aðkomu NATO og þeirr­ar sérþekk­ing­ar og stuðnings sem við fáum þaðan, eins og reynd­ar í fleiri mál­um. Aðild­in að NATO er því jafn­mikið ör­ygg­is­mál, um­hverf­is­mál, lýðræðismál og full­veld­is­mál fyr­ir þjóðina í dag og hún var á sín­um tíma. Áskor­an­irn­ar eru bara ann­ars eðlis.

Vera okk­ar í NATO hef­ur sýnt að við eig­um ekki að ótt­ast alþjóðasam­starf, frek­ar eig­um við að vera virk­ir þátt­tak­end­ur. Í varn­ar­sam­starf­inu höf­um við einnig haldið á loft sjón­ar­miðum sem okk­ur Íslend­ing­um eru oft of­ar­lega í huga og léð mik­il­væg­um mál­um rödd okk­ar, hvort sem það er á sviði mannúðar eða jafn­rétt­is.

Við eig­um að gera okk­ar til að hafa áhrif á ákv­arðanir sem tekn­ar eru, og þora að taka skýra af­stöðu þegar okk­ur finnst banda­lagið feta rang­an veg eða jafn­vel taka rang­ar ákv­arðanir. En fyrst og síðast eig­um við af fullri ein­lægni og ein­urð að halda áfram þátt­töku okk­ar í far­sælu varn­ar­sam­starfi til 75 ára. Þannig verj­um við best dýr­mætt frelsið og lýðræði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024