11 okt Minni pólitík, meiri fagmennska
Sveitarfélög reka margvísleg fyrirtæki til að tryggja nauðsynlega innviði. Í Reykjavík eru nokkur slík, t.d. Orkuveitan ásamt dótturfélögum, Félagsbústaðir og Faxaflóahafnir. Mikilvægt er að í rekstri þessara fyrirtækja látum við góða stjórnunarhætti leiða okkur áfram.
Góðir stjórnunarhættir innleiddir
Almenn eigandastefna borgarinnar var samþykkt 2022 og unnin í þverpólitískri sátt. Að koma á þeirri stefnu var hvorki einfalt né auðvelt en afar lærdómsríkt og mikilvægt. Eigandastefna hljómar kannski ekki sem mest spennandi pólitík í heimi en rekstur fyrirtækja í opinberri eigu er gríðarlega viðamikið viðfangsefni og mikilvægt að það sé gert rétt, því annars fer allt mjög fljótt á hliðina.
Mín trú er að með slíkri stefnu tryggjum við gagnsæja, faglega og skilvirka stjórnun fyrirtækja borgarinnar þannig að það ríki almennt traust á stjórnun og starfsemi. Þar er sérstaklega fjallað um upplýsingagjöf milli eiganda og fyrirtækis um rekstur og stefnumörkun ásamt ábyrgðarskilum milli eigenda, stjórnar og stjórnenda. Eigandastefnan er ekki úr lausu lofti gripin heldur tekur mið af leiðbeiningum OECD um stjórnunarhætti fyrirtækja í opinberri eigu ásamt leiðbeiningum Viðskiptaráðs.
Hlutverk, umboð og upplýsingaskylda
Almenn eigandastefna borgarinnar rammar markmið eiganda inn með skýrum hætti. Þar eru nokkrir þættir sérstaklega dregnir fram, s.s. að Reykjavíkurborg er formlega skilgreind sem virkur eigandi og hlutverk, umboð og ábyrgð eiganda er skilgreint og afmörkuð gagnvart borgarráði og borgarstjórn, þar á meðal valdheimildir og mörk þeirra og upplýsingagjöf. Tekið er á forsendum fyrir eignarhaldi Reykjavíkurborgar í fyrirtækjum sem eru sérstaklega skilgreindar og háðar mati af hálfu eiganda.
Annað sem tekið er á er að tryggður er skýrleiki á umboði stjórna fyrirtækjanna og að meginstefnumörkun fyrirtækjanna sé háð samþykki eigenda. Þá eru einnig skýrar kröfur gerðar til skipulags og stjórnunarhátta, sem tryggir gegnsæi og áreiðanleika, ásamt fagmennsku og skilvirkni í störfum stjórna og stjórnenda, s.s. afmörkun á hlutverki, umboði, ábyrgð og stjórnarháttum.
Risaskref var tekið og regla sett um jafnvægi í samsetningu stjórna, þ.e. háðra stjórnarmeðlima og óháðra sem koma utan frá og eru hvorki kjörnir fulltrúar né starfsmenn. Þetta var hvorki einfalt né auðvelt verk en afar farsælt og mikilvægt.
En hver ákveður þá hvað?
En hvert er þá stefnumótandi hlutverk sveitarfélaganna í rekstrinum, svo ekki sé talað um þegar taka þarf tillit til samkeppnissjónarmiða? Er búið að taka ákvörðunarvaldið frá sveitarstjórnum? Svo sannarlega er það pólitísk ákvörðun að taka stefnumótandi ákvarðanir eins og rakið er hér að ofan í tengslum við eigandastefnu borgarinnar. Það er alveg ljóst að fyrirtæki í 100% opinberri eigu eiga alltaf að vinna eftir þeim formlega ramma sem þeim er settur og geta ekki farið af stað út fyrir sinn ramma nema í formlegu samtali við eiganda. Það er tryggt með góðum stjórnarháttum og eigandastefnum sem þessum fyrirtækjunum er gert að fylgja. Leiðbeiningar OECD frá 2024 og álit Umboðsmanns Alþingis frá 2021 draga fram mikilvægi þess að sveitarfélög skapi skýra umgjörð í kringum fyrirtæki í sinni eigu.
Verkefnin sem sveitarfélögin standa frammi fyrir í dag
Á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem nú stendur yfir er þetta einmitt rætt. Miðað við leiðbeiningar OECD og álit Umboðsmanns Alþingis sem vísað er í hér fyrir ofan er ljóst að sveitarfélög þurfa að rýna vel rök fyrir opinberu eignarhaldi í fyrirtækjum. Þau þurfa að ákveða skýra umgjörð og taka þátt sem upplýstur og virkur eigandi, án þess þó að fara yfir mörk góðra stjórnunarhátta. Endurskoða þarf samþykktir fyrirtækja í eigu sveitarfélaga og samsetningu stjórna. Gera eigandastefnu sem tryggir viðeigandi umgjörð, umboð, upplýsingamiðlun og gegnsæi. Þetta er ekki einfalt verk og alls ekki eru öll sammála.
Látum ekki pólitík blinda okkur
Stóra verkefnið er tryggja umgjörðina, minnka pólitík í stjórnum fyrirtækja í opinberri eigu og auka fagmennsku. Opinberi eigandinn þarf að vera virkur og sýna ábyrgð. Pólitík á ekki heima við stjórnborðið – hún á heima á eigendavettvangi þar sem stóra stefnumótunin fer fram.