20 nóv Frelsi eykur fjölbreytni og er hvetjandi fyrir samfélagið
Unga fólkið sem nú er að kjósa fulltrúa sína til sætis á hinu háa Alþingi, jafnvel í fyrsta skipti, kann kannski að undrast það afhverju við í Viðreisn viljum halda í heiðri frelsi í sinni víðustu mynd. Frelsi einstaklinga til að fá að vera í friði frá stjórnvöldum með sín mál, frelsi til athafna, lífsskoðana og viðskipta. Það þykir sennilega sjálfsagt mál núorðið en hefur ekki alltaf verið svo. Fyrir okkur sem eldri erum rifjast upp margt forvitnilegt sem fallið hafði í gleymsku þegar við spáum í frelsishugtakinu. En frelsi, svona almennt, er mjög af hinu jákvæða, um það geta kannski flestir orðið sammála, aldnir sem ungir.
Þeir sem orðnir eru miðaldra muna þá tíð er hundahald var með öllu óheimilt í Reykjavík. Var það meðal annars skýrt með þeim rökum að hundahaldi fylgdi mikill sóðaskapur og var þá sennilega vísað til hundaskítsins sem óneitanlega var hvimleiður. Hundaeigendum í dag, sem fara jafnan í göngutúra með besta vininum þykir þetta sennilega haldlítil rök þegar þeir munda lítinn grænan plastpoka og málið er úr sögunni.
Þegar Varnarliðið hóf útsendingar í sjónvarpi á Viðreisnarárunum svonefndu, með miklu afþreyingarefni, var stöðin fljótlega bönnuð af íslenskum stjórnvöldum. Þetta var gert til að vernda íslenska tungu og þó margir hafi saknað skemmtiefnisins var ekki gerður mikill ágreiningur um þetta. Það þótti sjálfsagt að skerða heldur frelsið en að tefla íslenskunni í voða. Á svipuðum tíma var ákveðið að á Íslandi skyldi starfa ein sjónvarpsstöð í eigu ríkisins. Sjónvarpsrekstur á örmarkaðinum Íslandi var strembinn og ýmislegt þar sem kyndugt þætti eða skoplegt í dag. Það voru engar útsendingar á fimmtudögum, því það var frídagur starfsmanna sjónvarpsins. Það var heldur enginn rekstur í júlí. Þá var einfaldlega skellt í lás í einn mánuð og voru þá starfsmenn sendir í sumarfrí. Það var lítill vilji til að senda út í lit, það þótti óráðsía rétt eins og þegar bændur mótmæltu komu landsímans á bernskuárum fullveldisins.
Um miðjan níunda áratuginn á síðustu öld, gerðu ýmsir athafnamenn sér þann leik að kanna hvort mögulegt væri að stofna rekstur um einkarekið útvarp í fyrstu og síðar sjónvarp. Þingmenn tóku ekkert sérstaklega vel í þessi áform. Þaðan af síður þeir sem með stjórnvald á þessu sviði fóru. Þegar útvarpsútsendingar hófust loks í tilraunaskyni úr litlum sendi í Breiðholti, var harðskeytt lögreglusveit send á vettvang til að skella í lás. Einokun ríkisins á þessu sviði skyldi varin af ákveðni. Einkennilega harkaleg viðbrögð gegn áformum um sjónvarpsrekstur sneri mörgum á sveif með stofnendum Stöðvar 2, sem fór svo í loftið árið 1986 með glæsibrag, þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Frelsið sigraði í þessum átökum en það var ekkert sjálfgefið, til þess þurftu þeir er studdu atvinnufrelsi og höfnuðu einokun á fjarskiptamarkaði að taka höndum saman.
Það borgar sig að hafa þingmenn við Austurvöll sem skilja mikilvægi frelsis alls staðar þar sem því verður við komið. Þessu hafa verið gerð skýr skil í stefnuskrá Viðreisnar og munu þingmenn okkar standa vörð um þetta grundvallaratriði og láta frelsið njóta vafans þegar að því er sótt.