02 sep Nýjar leiðir til að auka framboð húsnæðis
Fasteignaverð hefur hækkað langt umfram greiðslugetu margra, sérstaklega ungs fólks sem vill festa rætur í borginni. Það kallar á ný viðbrögð, nýjar leiðir og skýrari stefnu. Reykjavíkurborg þarf að taka virkari þátt í að móta húsnæðismarkaðinn og stuðla að framboði þeirra íbúða sem mest eftirspurn er eftir.
Undanfarinn áratug höfum við séð miklar breytingar eiga sér stað í Reykjavík og borgarbúum fjölga langt umfram bjartsýnustu spár. Við höfum séð kynslóðaskipti verða í gamalgrónum hverfum, eins og t.d. Vesturbæ og Laugardal. Þangað streymir ungt fjölskyldufólk sem vill búa miðsvæðis. Það sem áður var úthverfadraumur er í dag draumur um borgarlíf, þar sem stutt er í vinnu, skóla, þjónustu og fjölbreytta ferðamáta.
Því höfum við í Viðreisn í Reykjavík lagt áherslu á að fjölga valkostum í húsnæðismálum með því að byggja upp þétta, umhverfisvæna og nútímalega borg. Þannig höfum við staðið heilshugar að baki þéttingu byggðar, betri og fjölbreyttari samgöngum og uppbyggingu nýrra hverfa, enda er það skynsamlegt, vistvænt og hagkvæmt.
En nú er staðan sú að húsnæðismarkaðurinn í Reykjavík mætir ekki raunverulegri þörf. Framboð og eftirspurn tala ekki saman. Það er offramboð af dýrum lúxusíbúðum en skortur á litlum og meðalstórum íbúðum. Við því þarf að bregðast hratt.
Hvað getur borgin gert sem hefur áhrif á framboðshliðina?
Staðan á fjármagnsmarkaði er öllum óhagstæð. Vextir eru háir og fjármögnun afar dýr, bæði fyrir kaupendur og byggingaraðila. Þessi staða hefur leitt til kólnunar á fasteignamarkaði. Miklu máli skiptir að úr því leysist með skýrum markmiðum ríkisstjórnarinnar að tryggja verðstöðugleika og ná niður vöxtum. Verkefni Reykjavíkurborgar til að vinna að sama marki verða að felast í stærri skrefum til að efla húsnæðisframboð.
Við í Viðreisn munum á borgarstjórnarfundi í dag leggja fram tillögu um að farnar verði nýjar leiðir við uppbyggingu á Ártúnshöfðanum með það að markmiði að mæta betur eftirspurn eftir húsnæði í borginni. Við leggjum til nýtt fyrirkomulag þar sem ákveðnir reitir verði fyrir fram grófhannaðir hvað varðar útlit og íbúðastærð í samræmi við raunverulega eftirspurn. Ef borgin setur skýrar línur um stærð og gerð íbúða, með vel undirbúnum húsnæðisreitum, þá verður uppbyggingin bæði markvissari og hagkvæmari.
Við leggjum til að þetta verði tilraunaverkefni. Það mætti svo nýta síðar í stærri verkefni, eins og við hönnun og skipulag Keldnalands. Þar er mikið land undir framtíðar búsetu.
Með þessari nálgun getum við stórbætt húsnæðisástandið á sama tíma og við höfum áhrif á þróun fasteignaverðs, minnkað verðbólguþrýsting sem leiðir til lægri vaxta og aukið lífsgæði fjölda borgarbúa.
Reykjavíkurborg á drjúgan hluta lands við Ártúnshöfða sem er nú að fara í uppbyggingu. Borgin þarf að stíga fastar inn á húsnæðismálin. Með því að bjóða fram forhannaða reiti til uppbyggingar væri það verulegt innstig í mótun verðlags, jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn, á verðbólgu og lífsgæði okkar allra.