Nýjar leiðir til að auka framboð húsnæðis

Fast­eigna­verð hef­ur hækkað langt um­fram greiðslu­getu margra, sér­stak­lega ungs fólks sem vill festa ræt­ur í borg­inni. Það kall­ar á ný viðbrögð, nýj­ar leiðir og skýr­ari stefnu. Reykja­vík­ur­borg þarf að taka virk­ari þátt í að móta hús­næðismarkaðinn og stuðla að fram­boði þeirra íbúða sem mest eft­ir­spurn er eft­ir.

Und­an­far­inn ára­tug höf­um við séð mikl­ar breyt­ing­ar eiga sér stað í Reykja­vík og borg­ar­bú­um fjölga langt um­fram bjart­sýn­ustu spár. Við höf­um séð kyn­slóðaskipti verða í gam­al­grón­um hverf­um, eins og t.d. Vest­ur­bæ og Laug­ar­dal. Þangað streym­ir ungt fjöl­skyldu­fólk sem vill búa miðsvæðis. Það sem áður var út­hverfa­draum­ur er í dag draum­ur um borg­ar­líf, þar sem stutt er í vinnu, skóla, þjón­ustu og fjöl­breytta ferðamáta.

Því höf­um við í Viðreisn í Reykja­vík lagt áherslu á að fjölga val­kost­um í hús­næðismál­um með því að byggja upp þétta, um­hverf­i­s­væna og nú­tíma­lega borg. Þannig höf­um við staðið heils­hug­ar að baki þétt­ingu byggðar, betri og fjöl­breytt­ari sam­göng­um og upp­bygg­ingu nýrra hverfa, enda er það skyn­sam­legt, vist­vænt og hag­kvæmt.

En nú er staðan sú að hús­næðismarkaður­inn í Reykja­vík mæt­ir ekki raun­veru­legri þörf. Fram­boð og eft­ir­spurn tala ekki sam­an. Það er of­fram­boð af dýr­um lúxus­í­búðum en skort­ur á litl­um og meðal­stór­um íbúðum. Við því þarf að bregðast hratt.

Hvað get­ur borg­in gert sem hef­ur áhrif á fram­boðshliðina?

Staðan á fjár­magns­markaði er öll­um óhag­stæð. Vext­ir eru háir og fjár­mögn­un afar dýr, bæði fyr­ir kaup­end­ur og bygg­ing­araðila. Þessi staða hef­ur leitt til kóln­un­ar á fast­eigna­markaði. Miklu máli skipt­ir að úr því leys­ist með skýr­um mark­miðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar að tryggja verðstöðug­leika og ná niður vöxt­um. Verk­efni Reykja­vík­ur­borg­ar til að vinna að sama marki verða að fel­ast í stærri skref­um til að efla hús­næðis­fram­boð.

Við í Viðreisn mun­um á borg­ar­stjórn­ar­fundi í dag leggja fram til­lögu um að farn­ar verði nýj­ar leiðir við upp­bygg­ingu á Ártúns­höfðanum með það að mark­miði að mæta bet­ur eft­ir­spurn eft­ir hús­næði í borg­inni. Við leggj­um til nýtt fyr­ir­komu­lag þar sem ákveðnir reit­ir verði fyr­ir fram gróf­hannaðir hvað varðar út­lit og íbúðastærð í sam­ræmi við raun­veru­lega eft­ir­spurn. Ef borg­in set­ur skýr­ar lín­ur um stærð og gerð íbúða, með vel und­ir­bún­um hús­næðis­reit­um, þá verður upp­bygg­ing­in bæði mark­viss­ari og hag­kvæm­ari.

Við leggj­um til að þetta verði til­rauna­verk­efni. Það mætti svo nýta síðar í stærri verk­efni, eins og við hönn­un og skipu­lag Keldna­lands. Þar er mikið land und­ir framtíðar bú­setu.

Með þess­ari nálg­un get­um við stór­bætt hús­næðis­ástandið á sama tíma og við höf­um áhrif á þróun fast­eigna­verðs, minnkað verðbólguþrýst­ing sem leiðir til lægri vaxta og aukið lífs­gæði fjölda borg­ar­búa.

Reykja­vík­ur­borg á drjúg­an hluta lands við Ártúns­höfða sem er nú að fara í upp­bygg­ingu. Borg­in þarf að stíga fast­ar inn á hús­næðismál­in. Með því að bjóða fram for­hannaða reiti til upp­bygg­ing­ar væri það veru­legt inn­stig í mót­un verðlags, já­kvæð áhrif á fast­eigna­markaðinn, á verðbólgu og lífs­gæði okk­ar allra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2025