09 jan Tímamót á afmælisári
Garðabær er 50 ára og hefur sjaldan litið jafn vel út. Samfélagið okkar er þó eldra en þau kaupstaðarréttindi sem veitt voru í byrjun árs 1976. Saga Garðabæjar er ekki einungis saga skipulagsáætlana og byggðaþróunar, heldur saga fólksins sem hér hefur byggt líf sitt, alið upp börn, stofnað fyrirtæki og tekið þátt í frjálsum félagasamtökum – og þannig mótað þetta samfélag.
Garðabær hefur á þessum áratugum orðið að bæ sem samanstendur af sterkum hverfum með góðu aðgengi að náttúru og útivist. Skólar bæjarins búa yfir öflugu kennara- og starfsfólki sem skapar verðmætt skólasamfélag þar sem börn og ungmenni öðlast þekkingu og færni – allt frá leikskólum til grunnskóla, framhaldsskóla og tónlistarskóla. Íþróttafélögin í bænum sinna mikilvægu hlutverki fyrir unga Garðbæinga, kynna þeim íþróttir, hjálpa þeim að takast á við eigin metnað og efla tengslanet sitt. Þau skapa einnig farveg fyrir afreksfólk sem vill ná enn lengra. Ótalin eru svo öll þau frjálsu félagasamtök sem starfa í bænum, halda okkur virk og skapa um leið ómetanleg tækifæri til félagslegra tengsla.
En afmæli eru ekki aðeins tilefni til að minnast liðinna ára og árangurs. Þau eru líka tilefni til að spyrja hvert við viljum stefna og hvað við viljum verða. Þess vegna er það sérstaklega viðeigandi að sveitarstjórnarkosningar fari fram á afmælisárinu og bæjarbúar kjósi ellefu bæjarfulltrúa til að bera ábyrgð á næstu fjórum árum í sögu Garðabæjar.
Garðabær er bær í vexti og við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að byggja upp ný hverfi á næstu áratugum og tryggja um leið þá þjónustu sem samfélagið gerir kröfu um. Það kallar á skýra framtíðarsýn og ábyrgar ákvarðanir. Hér þarf að hafa gildi á borð við framsækni, frjálslyndi og sjálfbærni að leiðarljósi. Verkefnið er að tryggja að Garðabær haldi áfram að vera bær fyrir börn, ungt fólk, eldri kynslóðir og öll þau sem vilja skapa sér hér tækifæri og byggja sér líf.
Garðabær er ekki fullklárað verk – hann er samfélag í stöðugri mótun og það er einmitt styrkur okkar. Ég óska öllum Garðbæingum velfarnaðar á þessu merka afmælisári og vona að við höldum áfram að móta samfélagið okkar saman, með samtali og virkri þátttöku sem flestra.