Erlendir fjárfestar munu fjármagna fluglest

Erlendir fjárfestar munu fjármagna fyrirhugaða hraðlest á milli miðborgar Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, að sögn Runólfs Ágústssonar, framkvæmdastjóra Fluglestinnar-þróunarfélags ehf., sem kynnti verkefnið á opnum fundi Viðreisnar í gær. Að sögn Runólfs hefur félagið ekki farið fram á opinber fjárlög og stendur það ekki til.

Fjárfestar hafa þegar lagt um 300 milljón króna til undirbúnings verkefnisins. Takist samkomulag við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um legu lestarlínunnar og samþættingu við fyrirhugaða borgarlínu er gert ráð fyrir þriggja ára rannsóknar- og undirbúningsfasa, sem mun kosta um einn og hálfan milljarð króna. Að honum loknum tekur við fjögurra til fimm ára framkvæmdartímabil. Fyrstu farþegarnir gætu því farið með lestinni milli árið 2025.

„Við höfum rætt við stóra banka og sjóði. Þær viðræður hafa verið afskaplega jákvæðar,“ segir Runólfur, sem gerir ekki ráð fyrir því að ríkið leggi til krónu í verkefnið. „Einhverjir muna kannski síðasta sumar eftir viðtali í Viðskiptablaðinu við aðstoðarforstjóra Evrópska fjárfestingarbankans sem skilgreindi einfaldlega í opinberu viðtali að þetta væri það verkefni sem þeir hefðu mestan áhuga á á Íslandi út frá þeirra stefnu, bæði í fjárfestingu í innviðum, umhverfismálum og öðru slíku. Við hins vegar þurfum að ljúka samkomulagi við sveitarfélögin áður en við getum farið til þessara aðila og fjármagnað næsta áfanga. Það er það sem við erum að gera núna,“ segir Runólfur, og vísar þar til viðræðna við sveitarfélög á Höfuðborgarsvæðinu um legu fluglestarinnar.

Hár meðalhraði

Gert er ráð fyrir meðalhraða upp á 180 km/klst og hámarkshraða upp á 250 km/klst. Þá miða áætlanir við að fjórar lestareiningar verði í rekstri með flutningsgetu upp á 2.400 farþega á klukkustund í báðar áttir.

Til að ná þessum mikla hraða í þéttbýli er gert ráð fyrir að lestin verði að mestu grafin í göng undir byggð, í leið sem mun að öllum líkindum liggja í boga undir Lækjargötu í Hafnarfirði, Vífilstaði, Smáralind, Kringluna og niður til BSÍ. Gert er ráð fyrir 1-2 stoppum á leiðinni, en endanleg staðsetning þeirra liggur ekki fyrir.

Danskt verktakafyrirtæki meðal stærstu hluthafa

Athygli vekur að stærsti einstaki hluthafi Fluglestarinnar-þróunarfélags ehf., er danska verktakafyrirtækið Per Aarsleff AS, með 23,5% hluta. Um er að ræða eitt af stærstu verktakafyrirtækjum Danmerkur með veltu upp á um 165 milljarða íslenskra króna. „Þeir eru með um 600 manna deild sem er bara að vinna að lestum. Það var mikill akkur fyrir okkur að ná þeim inn í félagið og fá þá fagþekkingu sem þar er,“ sagði Runólfur um þennan stóra hluthafa, sem hefur komið að lagningu lestarteina víða á Norðurlöndunum og í Norður-Þýskalandi. Aðrir stórir hluthafar eru Landsbankinn, Kadeco og Efla.

30 ára risaverkefni

Áætlað er að kostnaður erlendu fjárfestanna við verkefnið nemi 780 milljónum evra, eða um 92 milljörðum króna. Að sög Runólfs er gert ráð fyrir að innri arðsemi verkefnisins verði á bilinu 15-17%, sem sé vel yfir þeim mörkum sem erlendir fjárfestar geri til sambærilegra verkefna. Í áætlunum væri horft til þess að byrjað væri að borga af lánum á þriðja ári rekstrar, fram að þeim tíma yrðu aðeins borgaðir vextir. Lánið yrði síðan greitt niður á 30 árum.

Athygli vekur að Runólfur telur aðkomu ríkisins helst felast í því að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um lestarsamgöngur, en Ísland fékk undanþágu frá innleiðingu tilskipunarinnar á sínum tíma. Vinna við slíka lagasetningu sé þegar hafin hjá innanríkisráðuneytinu.

Þá var Runólfur inntur eftir afstöðu til flutnings innanlandsflugs til Keflavíkur. Taldi Runólfur það engu skipta fyrir verkefnið hvort innanlandsflug væri í Keflavík eða í Vatnsmýrinni.

Upptöku af fundinum má sjá hér: https://www.facebook.com/vidreisn/videos/1283875908356538/