06 okt Tuttugu og sex milljarða sparnaður
Ný skýrsla segir að 372 milljarða þurfi til þess að koma innviðum landsins í gott og eðlilegt horf. Það eru ekki neinir smáaurar og eins gott að standa vel að verki. Með nýjum vinnubrögðum mætti spara allt að 26 milljörðum í beinhörðum peningum við þessi verkefni.
Félag ráðgjafarverkfræðinga og Samtök iðnaðarins kynntu tímamótaskýrslu á fundi í Hörpu í gær. Þar er fjallað um innviði, ástand og framtíðarhorfur. Skýrslan sýnir svart á hvítu að margt er óunnið og brýnt að taka til hendinni á mörgum sviðum. Þakka ber framtakið og faglega nálgun.
Mat skýrsluhöfunda er að ef koma eigi öllum innviðum í góða stöðu, þ.e. í ástand þar sem staðan er metin góð og eðlilegt viðhald þurfi til þess halda þeirri stöðu, þurfi samtals 372 milljarða.
Gömul saga og ný
Það blasir við að til þess að ná þessu marki þarf tíma, fé, framsýni og skipulag. Ganga þarf þannig til verks að öll þau verkefni sem ráðist er í skili hámarks árangri, hvort sem litið er til nytsemi, arðsemi, gæða, verðs, verktíma eða forgangsröðunar.
Þrátt fyrir allt renna að jafnaði miklir fjármunir til opinberra fjárfestingarverkefna á ári hverju. Nýja skýrslan sýnir svo ekki verður um villst að gera verður enn betur á komandi árum. Dæmi um slíkar fjárfestingar eru vegir, brýr, virkjanir, dreifikerfi, flugvellir, byggingar af ýmsu tagi, skólar og heilbrigðisstofnanir.
Það er gömul saga og ný að allt of mörg slík verkefni rísa ekki undir þeim kröfum sem til þeirra hafa verið gerðar og þau uppfylla ekki þær þarfir sem að var stefnt. Nægir að nefna að kostnaður fer úr böndum, framkvæmdatími verður miklu lengri en til stóð og oft veita þau ekki þann ávinning sem að var stefnt.
Skýringar á þessu eru örugglega margvíslegar og margar þeirra samverkandi. Má nefna að þættir eins og pólitískt undirbúningsferli, þarfagreining, ferli, forsendur og skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að ráðist sé í verkefni eru ófullnægjandi. Þá má nefna slælega stjórn og eftirlit þegar verkefni er á framkvæmdastigi. Stundum er greinilegur skortur á hæfni og þekkingu, skýrar reglur eru ekki fyrir hendi og óhófleg bjartsýni tekur völdin auk fjölda þátta sem koma við sögu þegar ráðist er í verkefni á vegum hins opinbera og almannafé er til ráðstöfunar.
Ný nálgun nauðsynleg
Því fer víðs fjarri að vandamál af því tagi sem hér hafa verið rakin séu bundin við Ísland. Þau er víða að finna. Það er líka fjarri því að íslensk stjórnvöld og þeir sem koma að opinberum fjárfestingarverkefnum geri ekki margt vel og að ekki sé víða að finna regluverk og ferla. Það er hins vegar hægt að gera miklu betur og það er eftir miklu að slægjast ef vel tekst til um úrbætur á þessu sviði, ekki síst í undirbúningsferli verkefna. Það sýnir reynsla annarra þjóða glöggt.
Á síðasta þingi lagði greinarhöfundur, ásamt öðrum þingmönnum Viðreisnar, fram tillögu til þingsályktunar til þess að bregðast við þessum vanda. Þar er lagt til að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þegar um umfangsmikil og kostnaðarsöm opinber fjárfestingarverkefni er að ræða sé trygging gæða, hagkvæmni og skilvirkni slíkra verkefna ávallt höfð að leiðarljósi allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út áætlaðan líftíma þeirra.
Góðar fyrirmyndir
Mörg lönd hafa tekið þessi mál föstum tökum og greinilegur árangur komið í ljós. Hér má sérstaklega nefna Noreg, einkum regluverk norska fjármálaráðuneytisins Ordning for kvalitetssikring av store statlige investeringer og samstarfsverkefnið Concept sem rekið er af NTNU (Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet). Um 16 ár eru frá því að Norðmenn hófu sína vinnu. Þar benda rannsóknir til þess að af 40 meiri háttar fjárfestingarverkefnum, sem ráðist hefur verið í og aðferðafræðinni verið beitt, hafi 80% verkefna staðist ytri ramma kostnaðar- og tímaáætlana. Enn fremur hafi þessum verkefnum verið skilað með um 7% lægri meðaltilkostnaði en áætlað var. Norðmenn meta það svo að hið nýja fyrirkomulag hafi valdið algjörum viðsnúningi þar í landi og nú sé ekki lengur meginregla að verkefni fari úr böndum.
Félag ráðgjafarverkfræðinga og Samtök iðnaðarins hafa einmitt leitað í smiðju til Norðmanna um fyrirmynd að sinni skýrslu. Það ættu stjórnvöld einnig að gera. Takist að ná þeim árangri sem orðið hefur í Noregi má ætla að beinn fjárhagslegur sparnaður gæti numið 26 milljörðum af þeim 372 sem hin nýja skýrsla telur þörf fyrir. Það eru heldur engir smáaurar, auk alls annars ávinnings sem fylgja aðferðafræði Norðmanna.
Menntun og rannsóknum á sviði verkefnastjórnunar og verkefnastjórnsýslu hefur vaxið mjög fiskur um hrygg á alþjóðavísu. Hérlendis á nám á háskólastigi í verkefnastjórnun sér frekar stutta sögu en slíkt nám er nú í boði við Háskólann í Reykjavík til MPM-gráðu (Master of Project Management) og við Háskóla Íslands til MS-gráðu. Mikilvægt er að efla rannsóknir og miðla reynslu og þekkingu á sviðinu til hagsbóta fyrir samfélagið allt.
Það þarf að byrja strax
Mikilvægt er að líta á þetta sem viðvarandi ferli úrbóta og lærdóms sem leiðir hægt og bítandi til árangurs. Þetta er alls ekki átaksverkefni sem hægt er að ljúka á skömmum tíma. Þess vegna þarf að hefjast handa án tafar.
Þingsályktunin var ekki flókin:
„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að útfæra og leggja fram frumvörp og undirbúa reglugerðir sem hafa það að markmiði að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra. Ráðherra skipi fimm manna starfshóp til þess að stofna til formlegs samstarfsvettvangs stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags um gerð rammaáætlana til þriggja ára í senn til þess að byggja upp þekkingu og færni og efla rannsóknir á sviði gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Ráðherra leggi fram og kynni Alþingi tillögur sínar eigi síðar en 1. mars 2018.“
Mikilvægt er að taka þessi mál föstum tökum. Án vafa mun arður samfélagsins af þeirri vinnu og fjármunum sem verður varið til úrbóta á þessu sviði skila sér margfalt til baka með betri árangri og hagkvæmari verkefnum.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar í suðvesturkjördæmi. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 6. október 2017.