Horfum fram á veginn

„Hvers vegna eru Evrópumálin ofarlega hjá Viðreisn?“ er spurning sem ég fæ reglulega að heyra. Fyrsta svar er iðulega okkar ónýta króna. Næsta svar hljómar svona:

Vegakerfi Íslands er í molum. Fjármagn til vegagerðar er mjög af skornum skammti og ljóst að vegakerfið er á mörgum stöðum, landshlutum, að grotna niður. Stóraukið álag á vegakerfið, með fjölgun íbúa og stórauknum ferðamannafjölda kallar á grettistak í vegagerð. Útrýmingu einbreiðra brúa, ekki bara á hringveginum. Vegakerfið er í raun ein stór slysagildra. Hin íslenska lausn hefur verið að plástra hér og þar en allir sjá að á núverandi fjárlögum eru alvöru samgöngubætur ekki í augnsýn.

Með inngöngu í Evrópusambandið opnast möguleiki að lyfta því grettistaki sem þarf að eiga sér stað í vegamálum hér á landi. Styrkir úr Evrópusambandinu geta numið milljörðum. Byggðasjóðir sambandsins veita styrki m.a. til vegagerðar. Hér að neðan má sjá tölur um aðildargreiðslur nokkurra landa til Evrópusambandsins sem og fjármagn úr Evrópusambandinu til sömu landa, en þessar upplýsingar eru fengnar af heimasíðu Evrópusambandsins. Með því að horfa lauslega á þessar tölur sést að gríðarlegur ávinningur er af aðild að sambandinu.

Útgjöld ESB í Rúmeníu – € 6.5 milljarðar
Útgjöld ESB í Rúmeníu sem hlutfall af vergum landstekjum Rúmeníu (GNI) – 4.15%
Framlag Rúmeníu til ESB – € 1.3 milljarðar
Framlag Rúmeníu til ESB sem hlutfall af vergum landstekjum Rúmeníu (GNI) – 0.84%

Útgjöld ESB á Spáni – € 13.7 milljarðar
Útgjöld ESB á Spáni sem hlutfall af vergum landstekjum Spánar (GNI) – 1.27%
Framlag Spánar til ESB – € 8.7 milljarðar
Framlag Spánar til ESB sem hlutfall af vergum landstekjum Spánar (GNI) – 0.81%

Ég var á ferðalagi um Spán nýverið og tók eftir miklum breytingum á vegakerfi. Mér var sagt að það væri vegna styrkja úr Evrópusambandinu. Spánn hefði fengið styrki úr sambandinu nú í nokkur ár til uppbyggingar á vegakerfi landsins. Ég skoðaði það aðeins, eins og sjá má.

Framkvæmdafé og framlög á tímabilinu 2007 til 2013.
Heildarfjárfesting EUR 292,694,195.
Evrópusambandsframlag EUR 190,251,227

Hvað getur þetta þýtt fyrir okkur Íslendinga? Eins og sjá má yrði þetta meiriháttar innspýting í framkvæmdafé í vegagerð, jarðgangagerð og brúargerð. Um 70% fjármagns gæti komið frá Evrópusambandinu. Sundabraut gæti komið til framkvæmda, svo dæmi séu tekin.

Austfirðingar gætu í alvöru farið að hugsa um almennilegar samgöngur milli þéttbýlisstaða í fjórðungnum, hin svokölluðu Samgöng gætu t.d. verið í augsýn. Vestfirðingar gætu séð fram á vegabætur. Mögulegt væri fyrir okkur að gera Hringveginn okkar færan í báðar áttir og útrýma einbreiðum brúm, svo einhver dæmi séu tekin. Er þetta ekki í alvöru eitthvað til að íhuga og kjósa um? Viljum við ekki sjá alvöru úrbætur í samgöngumálum hér á landi? Atkvæði til Viðreisnar í komandi kosningum er atkvæði í þá átt.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi.

Heimildir
https://europa.eu/european-union/about-eu/countries/member-countries/latvia_en
https://europa.eu/european-union/about-eu/countries/member-countries/romania_en
https://europa.eu/european-union/about-eu/countries/member-countries/spain_en
http://ec.europa.eu/budget/mycountry/ES/index_en.cfm#projects
http://ec.europa.eu/regional_policy/index.cfm/en/projects/spain/bypassing-the-city-of-malaga

Grein birtist fyrst á austurfrett.is 20. október 2017