Skortur á frelsi og fjármagni í borginni

Grein birtist upphaflega á Babl.is

Ég heiti Geir Finnsson og er 26 ára Breiðhyltingur. Sjálfur hef ég spáð í stjórnmál frá því ég var mjög ungur, enda ótrúlega spennandi viðfangsefni hverjir hafi áhrif á samfélagið okkar hverju sinni og með hvaða hætti. Framan af var enginn flokkur sem ég gat samsvarað mig við, þar til fyrir nokkrum árum þegar fréttir fóru að berast af því að í bígerð væri frjálslyndur og neytendavænn stjórnmálaflokkur. Það var þá sem ég hafði samband við forsprakka hópsins og ákvað að slást í hópinn. Skömmu síðar var ég orðinn einn af innstu koppum í búri að móta stefnu flokksins og byggja upp ungliðastarfið.

Úr varð stjórnmálaflokkurinn Viðreisn sem ég er afskaplega stoltur af. Flokkurinn hefur þegar markað spor sín á Alþingi en nú er kominn tími fyrir hann að setja mark sitt á sveitarstjórnarkosningar.

Frá stofnun Viðreisnar hefur margt gerst, en í gegnum súrt og sætt hef ég alltaf verið hæstánægður með að hafa þennan flokk sem valkost. Það er nefnilega mikilvægt að fleiri raddir heyrist innan stjórnmála, í stað þess að gömlu öflin reyni áfram að vera málsvarar allra. Um leið og flokkurinn, sem maður hefur beðið eftir, er mættur á sjónarsviðið þá er ekki annað í boði en að berjast með kjafti og klóm til að tryggja hann í sessi.

Ég áttaði mig nefnilega á því að aðeins þannig verður fulltrúi neytenda, frelsis og öðruvísi vinnubragða við stjórnvölinn. Þar liggur sérstaða Viðreisnar. Enginn hópur hefur verið verkinu tryggari en unga fólkið í flokknum, enda áttum við hvað ríkastan þátt í mótun hans. Viðreisn er frábær vettvangur fyrir okkur til að láta áherslur okkar skína í gegn með nýjum vinnubrögðum.

Með grunnstefnu Viðreisnar að leiðarljósi ætlum við alla leið inn í borgina. Sjálfur verð ég í framboði á lista Viðreisnar í Reykjavík, en rétt eins og aðrir ungliðar er ég ekki mættur til þess að berjast einvörðungu fyrir málefnum sem eiga að ná til unga fólksins framar öðrum. Staðreyndin er nefnilega sú að öll stefnumál varða okkur unga fólkið. Áherslur okkar á gegnsæi, öfluga velferð, jafnrétti og ábyrgan rekstur eru einfaldlega mál sem ná til allra. Það er líka ekki vanþörf á, en lamandi miðstýringu er að finna nánast alls staðar í borginni. Eins og staðan er núna er borgin ekki eftirsóknarverður vinnustaður, sér í lagi þegar mannekla einkennir leik- og grunnskólana því að engan langar raunverulega að starfa í því umhverfi sem boðið er upp á. Borgaryfirvöld hafa vissulega gert ýmislegt gott, en oftar en ekki hafa göfug markmið því miður verið hálfkláruð, þá einna helst þegar allt kerfið er flækt utan í mismunandi stjórnunarlög. Þessu til viðbótar er ekki nægilegu fjármagni varið í mikilvæg verk og fólk skortir frelsi til þess að gera það sem bráðvantar hverju sinni

Í borginni, líkt og annars staðar, er auðvelt að sitja hjá og bíða eftir því að annar gangi í verkin og leysi vandamálin. En hér dugar ekki að vera þolinmóður. Viðreisn hefur sýnt það í verki að við mætum til leiks með fullmótaðar tillögur og erum óhrædd við að taka af skarið, taka ákvarðanir og horfa til lengri tíma. Þess vegna býð ég mig fram undir merkjum Viðreisnar.