03 maí „Snýst um að konur ráði sér sjálfar“
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, hvetur þingmenn til að gæta hófs þegar kemur að orðavali í umræðunni um svokallað þungunarrofsfrumvarp. Frumvarpið var tekið til umræðu í gær og er óhætt að segja að hart hafi verið tekist á um það.
„Málið verðskuldar vandaða umfjöllun og hófstillta umræðu og ég hvet háttvirta þingmenn sem taka þátt í umræðunni til að gæta hófs í orðavali sínu um þau mál,“ sagði Jón Steindór í umræðum um störf þingsins í morgun.
Fyrir honum snýst málið um yfirráða- og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. „Það er grundvallaratriði í málinu og sá sjónarhóll sem við eigum að horfa á málið út frá,“ segir hann.