03 mar Úrelt menntun eða framtíðarsýn?
Þær eru fjölmargar áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að því að leggja fram menntastefnu heillar þjóðar. Ein þeirra er stafræna umbyltingin sem á sér stað úti um allan heim. Við lifum á tímum þar sem umbreytingum vegna stafrænnar tækni fleygir fram á ógnarhraða. Við komumst ekki hjá að mæta þeim umbreytingum og taka þátt í þeim, enda umlykur stafræn þróun nú þegar allt samfélag okkar, hvort sem er í leik eða starfi.
Til þess að vera fær um að athafna okkur í nýju umhverfi gegnir menntun á þessu sviði mjög mikilvægu hlutverki. Hvers kyns menntun sem eykur færni í umhverfi stafrænnar tækni gerir okkur hæfari til að takast á við breytt umhverfi.
Tímabær sókn
Nýverið kynnti menntamálaráðherra nýja tíma í starfs- og tækninámi í samvinnu við Samtök íslenskra sveitarfélaga og Samtök iðnaðarins. Afar brýnt og löngu tímabært er að blása til sóknar á þessu sviði. Menntun í stafrænu tæknilæsi á leik- og grunnskólastigi er gríðarlega mikilvægur grunnur fyrir alla tæknimenntun, en ekki síður menntun almennt. Störf munu umbreytast hröðum skrefum og krafan vaxa ört um menntað starfsfólk í stafrænni tækni til að halda uppi samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
Til framtíðar litið er óábyrgt að gera ráð fyrir öðru en að nemendur nútímans muni starfa í stafrænu umhverfi og þá er nánast sama hvar stigið er niður fæti í starfsvali. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að námsumhverfi dagsins í dag byggi á þeim veruleika. Menntastefna til framtíðar þarf að taka mið af því.