29 apr Óvinir íslensks landbúnaðar
Við sem erum hlynnt inngöngu Íslands í Evrópusambandið, fylgjandi niðurfellingu tolla og aukinni samkeppni á matvörumarkaði höfum lengi þurft að sitja undir því að óprúttnir aðilar reyna að mála okkur upp sem óvini bændastéttarinnar og landbúnaðar á Íslandi. Mér þykir sú retórík andstæðinga Evrópusambandsins orðin ákaflega þreytt, ekki síst þar sem fátt er jafn fjarri sanni.
Evrópusambandið býr að yfirgripsmiklu styrkjakerfi, ekki síst á sviði landbúnaðar, en stór hluti af fjármagni sambandsins fer í landbúnaðartengda styrki. Evrópusambandið styrkir svokallaðan heimskautalandbúnað sérstaklega, en það er allur landbúnaður á svæðum norðan við 62° breiddargráðu, en þess má einmitt geta að Vestmannaeyjar eru á 63° breiddargráðu og því allt Ísland á heimskautalandbúnaðarsvæði.
Þeir stjórnmálamenn sem eru á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið vilja neita íslenskum bændum um aðgang að þessu styrkjakerfi.
Niðurfelling tolla og aukin samkeppni á matvörumarkaði með auknum innflutningi landbúnaðarafurða er neytendum til hagsbóta, um það verður ekki deilt. Ég skil hins vegar vel að sumum kunni að finnast það hljóma fjandsamlegt gagnvart íslenskum bændum, enda ýmsir reynt að mála það þannig upp vegna þess að þeir, einhverra hluta vegna, sjá hag sinn í því að ala á ótta við bæði frjálsa samkeppni og Evrópusamstarf. Raunin er allt önnur.
Gæðavörur þola samkeppni og íslenskar landbúnaðarafurðir eru þar í efsta flokki. Þrátt fyrir það er ýmislegt sem hægt er að bæta, en frjáls samkeppni hvetur framleiðendur einmitt til þess að leggja aukinn metnað í sína framleiðslu og auka gæði sinnar vöru. Hún hvetur til nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi, öllum til hagsbóta. Við sem viljum frjálsan innflutning á landbúnaðarafurðum höfum trú á íslenskum landbúnaði, treystum íslenskum bændum til þess að standa af sér samkeppni og gott betur en það.
Stjórnmálamenn sem eru á móti frjálsum innflutningi á landbúnaðarafurðum og aukinni samkeppni á matvörumarkaði afhjúpa einfaldlega með því eigin efasemdir um gæði íslenskra landbúnaðarafurða. Þeir eru hræddir við erlenda samkeppni vegna þess að þeir hafa ekki trú á íslenskum landbúnaði. Þeir eru því ekki eingöngu óvinir íslenskra neytenda, þeir eru óvinir íslenskra bænda og þeir eru óvinir íslensks landbúnaðar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2020