02 maí Valfrelsi fyrir börnin
Á Íslandi skerum við okkur úr hvað viðkemur fjölbreytni í skólastarfi. Ef við berum okkur saman við hinar Norðurlandaþjóðirnar er hlutfall sjálfstætt starfandi skóla langlægst hér á landi. Árið 2020 voru nemendur sjálfstætt starfandi skóla einungis 2,4% nemenda í grunnskólum á landsvísu en ef litið er til Danmerkur telja nemendur sjálfstætt starfandi skóla 20% grunnskólanemenda. Sjálfstætt starfandi skólar eru mikilvægir þegar kemur að fjölbreytni kennslu- og námshátta og eiga það sameiginlegt að vera stofnaðir með bjartsýni og löngun til að gera nærsamfélagið betra. Hið opinbera þarf að búa til rými fyrir fjölbreytta kosti fyrir börn með því að styðja þétt við bakið á sjálfstætt starfandi skólum.
Sjálfstætt starfandi skólar starfa eftir aðalnámskrá en að auki nýta þessir skólar vel það svigrúm sem stendur til boða. Sveigjanleikinn felst bæði í áherslu á þau fög sem kennd eru en ekki síður í þeim kennsluaðferðum sem skólarnir notast við. Þessir skólar eru því um margt mjög ólíkir hefðbundnum skólum sem eru á vegum borgarinnar. Börn eru jafn ólík og þau eru mörg, því höfða ólíkar kennsluaðferðir til ólíkra barna og er því mikilvægt að þau geti notið sín í því námsumhverfi sem þeim hentar.
Landakotsskóli er dæmi um sjálfstætt starfandi skóla sem hefur farið vel með þann sveigjanleika sem rekstrarformið býður upp á. Skólinn kennir eftir leiðsagnarmati, í skólanum er alþjóðleg deild sem kennir eftir alþjóðlegri námskrá og er mikil áhersla lögð á tungumálanám en nemendur læra frönsku til jafns við ensku strax í fimm ára bekk. Skólinn ver fleiri kennslustundum í list- og verkgreinar en aðalnámskrá gerir kröfur um og hefur skólinn reynst gott athvarf fyrir nemendur sem finna sig ekki í skólum á vegum borgarinnar.
Gefum börnum tækifæri
Ef við lítum til þeirra valkosta sem reykvísk börn hafa þegar kemur að menntun á grunnskólastigi stendur þeim annars vegar til boða að sækja skóla rekinn af borginni og hins vegar sjálfstætt starfandi skóla. Borgin greiðir með hverju barni sem sækir sjálfstætt starfandi skóla, en lætur einungis 75% af því fjármagni sem hún borgar með hverju barni í sínum skólum fylgja því. Þessi 25% þurfa skólarnir því sjálfir að brúa og er það gert með þar til gerðum skólagjöldum sem við þekkjum ekki í skólum reknum af borginni. Það er ógerlegt að hafa skólagjöldin það há að þau nái að dekka þessi 25% og er því gríðarleg krafa um hagkvæmari rekstur þar sem skólagjöld dekka a.m.k. 15% kostnaðar.
Við í Viðreisn ætlum að gæta sanngirni þegar kemur að valkostum og tækifærum barna. Börn eiga að njóta valkosta. Liður í því yrði að greiða 100% með hverju barni gegn því að skólinn gangist við því að rukka ekki skólagjöld. 100% fjármagn þyrfti að miða að stærð skólans enda líta sveitarfélög til þess við fjármögnun eigin skóla. Þannig skapast tækifæri fyrir öll börn að sækja nám eftir hentugleika óháð fjölskylduaðstæðum. Barn á að geta sótt skóla rekna af borginni eða sjálfstætt starfandi skóla eftir því hvar barninu líður best og er fjármagn sem fylgir barni liður í því. Við viljum að fjölskyldur og börn hafi meira val.