11 jan Garðbæingar ásælast útivistarsvæði undir iðnaðarhverfi – Óæskilegt í Garðabæ en nógu gott fyrir Kópavog?
Garðbæingar vinna nú að því hörðum höndum að losa sig við „óæskilegan iðnað“ úr íbúabyggðum og hafa gert atlögu að því að koma honum fyrir ofan í íbúabyggð í Kópavogi. Atlagan krefst þó breytinga á gildandi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og áratuga löngu samkomulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um hinn s.k. „Græna trefil“. Græni trefillinn liggur við vaxtarmörk byggðarinnar, við Austurkór í Kópavogi. Iðnaðarsvæðið sem Garðbæingar ásælast afmarkast af Austurkór, Tröllakór og athafnasvæði hestamanna við Kjóavelli.
Í sjónvarpsfréttum er haft eftir bæjarstjóra Garðabæjar að um sé að ræða „snyrtilega og nútímalega atvinnustarfsemi“ sem er í hróplegri mótsögn við tillögu um iðngarð eins og kemur fram í gögnum málsins. Í reynd er um að ræða samstarfsnet fyrirtækja á 16 ha svæði þar sem skipst er á orku og hráefnum og úrgangur eins fyrirtækis getur nýst sem auðlind annars.
Græni trefillinn og Græni stígurinn
Eitt af markmiðum í svæðisskipulagi er að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi greiðan aðgang að sameiginlegum útivistarsvæðum í næsta nágrenni við byggðina. „Græni trefillinn“ er skilgreindur í samþykktu svæðisskipulagi sem sameiginlegt og samfellt útivistarsvæði við efri jaðar byggðarinnar. Trefillinn teygir sig frá Esjuhlíðum í norðri til Helgafells í suðri. Þar er aðstaða til fjölbreyttrar útivistar svo sem athafnasvæði hestamanna og golfvellir sem og fjölbreytt náttúra, ræktaður skógur og náttúrulegt kjarr. Í treflinum skal skógrækt stunduð í sátt við sérkenni landslags og náttúrufars, til skjóls og yndisauka, til bættra útivistarskilyrða, til að hefta ösku- og jarðvegsfok og bindingar kolefnis og svifryks frá umferð eins og kemur orðrétt fram í svæðisskipulaginu.
„Græni stígurinn“, sem reyndar er ekki orðinn að veruleika, er svo hugsaður sem samfelldur göngu- og hjólastígur sem tengir öll sveitarfélögin saman og liggur eftir treflinum endilöngum. Í svæðisskipulaginu segir að stefnt sé að frekari stefnumörkun, samræmdum aðgerðum og rekstri útivistaraðstöðu í Græna treflinum og á Græna stígnum. Borið hefur á misskilningi í umræðunni en þessu má ekki rugla saman. Græni trefillinn er ekki stígurinn og öfugt.
Í umsögn skipulagsstjóra Kópavogsbæjar frá 15. desember s.l. segir að áform um að Rjúpnahlíð verði ekki lengur hluti af Græna treflinum heldur uppbyggingarsvæði fyrir nýtt athafnasvæði, sé mikil breyting. Ný byggð í stað Græna trefilsins kalli á allt annað umhverfi, annars konar ásýnd, mögulega skugga og mengun og gera megi ráð fyrir aukinni umferð í efri byggðum Kópavogs. Þar er jafnframt kallað eftir mati á áhrifum þessara breytinga en það liggur ekki fyrir. Skipulagsstjórinn segir einnig að tillagan muni hafa mikil áhrif á íbúabyggð, bæði við Austurkór og víðar.
Breyting á svæðisskipulagi
Samkomulagið um Græna trefilinn er hluti af skipulagsáætlun og svæðisskipulagi sjö sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem gildir til 2040. Breyting á aðalskipulagi Garðabæjar kallar á breytingar á þessu sameiginlega svæðisskipulagi. Skipulagsáætluninni er síðan fylgt eftir af svæðisskipulagsnefnd sem skipuð er 2 fulltrúum frá hverju aðildarsveitarfélagi.
Svæðisskipulagið gengur út frá því að höfuðborgarsvæðið sé eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður, með m.a. sameiginlegt útivistarsvæði, útmörk og náttúru. Að baki skipulagsins liggur mikil þverpólitísk samvinna og með samkomulaginu skuldbinda sveitarfélögin sig til að virða skipulagið.
Óski eitt sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu breytinga á svæðisskipulaginu, eins og Garðbæingar hafa óskað, krefst það samþykkis allra sjö. Hvert og eitt sveitarfélag hefur því í raun neitunarvald. Á fundi svæðisskipulagsnefndar þann 14. október s.l. samþykkti svæðisskipulagsnefndin beiðni Garðbæinga um breytingu sem gerir þeim kleift að ganga freklega á útivistarsvæði ofan við Austurkór og koma þar fyrir iðnaðarsvæði. Um er að ræða lýsingu á verkefninu sem er fyrsta stig þessa ferils.
Það olli mér miklum vonbrigði að fulltrúar Kópavogs í nefndinni, frá Vinum Kópavogs og Sjálfstæðisflokks, samþykktu lýsinguna án athugasemda eða skýringa. Í framhaldi var erindið sent aðildarsveitarfélögunum til afgreiðslu. Skipulagsráð Kópavogsbæjar tók erindið fyrir á fundi þann 19. desember s.l. Afgreiðslu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsdeildar.
Að lokum
Ég get ekki sætt mig við að sérhagsmunagæsla Garðabæinga leiði til þess að þeir fái að brjóta nýtt land á grónu og sammæltu náttúru- og útivistarsvæði undir iðnað. Ég lýsti á fundi skipulagsráðs og lýsi enn yfir andstöðu við þá kröfu Garðbæinga. Til að setja málið í samhengi hefur Kópavogsbæ vantað iðnaðarlóðir um árabil og því í raun verið í nákvæmlega sömu stöðu og Garðabær. Þrátt fyrir það hefur ekki hvarflað að nokkrum manni að ganga á útivistarsvæði íbúa. Við virðum samkomulagið í þágu íbúanna. Ég hvet svæðisskipulagsnefnd til þess að láta vinna greiningu á framtíðarþörf atvinnu- og iðnaðarhúsnæðis fyrir höfuðborgarsvæðið allt og í framhaldi af því væri upplagt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sammæltust um hvar slíkan iðnað skuli staðsetja.