19 feb Helvítisgjáin í Garðabænum!
Garðabær mælist í nýrri ánægjukönnun hæst allra sveitarfélaga í ánægju með búsetu með einkunnina 4.3 af 5 mögulegum.
Einn skugga ber þó á þessa annars glæsilegu niðurstöðu. Skugga sem tekur frá okkur í Viðreisn þá miklu gleði og stolt sem að alla jafna ætti að fylgja niðurstöðu sem þessari.
Helvítisgjáin
Í sömu könnun mælist ánægja með þjónustu við fatlað fólk 3.3 af 5 mögulegum. Ánægjan stendur í stað á milli ára. Enn eitt árið gengur ekkert né rekur að hífa upp ánægjuna. Á sama tíma og allir aðrir þjónustuþættir hækka á milli ára. Allir nema einn. Þjónusta við fatlað fólk. Þrátt fyrir endurtekna möntru meirihlutans ár eftir ár um að þjónusta við fatlað fólk sé mjög góð. Allt sé gert til þess að mæta þjónustuþörf fatlaðs fólks.
Hvernig má það vera? Er ekkert mark takandi á þessari annars glæsilegu niðurstöðu könnunarinnar?
Hér fer einfaldlega ekki saman hljóð og mynd.
Getur verið að mat meirihlutans á því hvað sé mjög góð þjónusta rými alls ekki við þá þjónustuþörf sem fatlað fólk á rétt á og hefur þörf fyrir?
Getur verið að hér sé um einhvers konar ofmat að ræða?
Þessum spurningum þarf að fá svör við.
Við í Viðreisn lögðum nýlega fram tillögu um að framkvæmd frumkvæðisskyldu sveitarfélagsins gagnvart fötluðu fólki yrði rýnd og tekin út. Tillaga sem kemur sér afar vel í ljósi þessarar niðurstöðu. Kveðið er á um þá skyldu sveitarfélaga í lögum um langvarandi stuðningsþjónustu við fatlað fólk að tryggja upplýsingagjöf sveitarfélagsins til fatlaðra einstaklinga um þá þjónustu og réttindi sem viðkomandi á lögum samkvæmt ásamt því að aðstoða fólk við að sækja um þá þjónustu.
Staðan er einfaldlega ekki boðleg í sveitarfélagi þar sem hægt er að gera eins vel og niðurstöður könnunar sýnir í öllum öðrum þjónustuþáttum. Að einn af mikilvægu þáttum grunnþjónustu sveitarfélagsins sem kveðið er á um í lögum að sé beinlínis skylda sveitarfélagsins að sinna að þar sé ekki gert betur.
Garðabær hefur alla burði til þess að gera betur. Hér þarf einfaldlega kjark og vilja til. Sveitarfélagið stendur vel fjárhagslega og er því til háborinnar skammar að hér takist ekki betur til.
Við í Viðreisn höfum ítrekað bent á þessa skökku stöðu.
Skekkjuna þurfum við að finna og laga.
Í Garðabær viljum við að allir íbúar séu ánægðir. Fatlaðir jafnt sem ófatlaðir.