Eldhúsdagsræða 2023 – Sigmar Guðmundsson

En við getum breytt þessu. Við Íslendingar búum í húsi og þakið míglekur. Það lekur allan daginn. Eina ráðið sem íslenskir stjórnmálaflokkar hafa haft eru skammtímalausnir. Það er alltaf verið að skottast út í Húsasmiðju til að kaupa fötu til að setja undir lekann. Við eigum óheyrilegt magn af fötum. Það dettur engum í hug að laga þakið.

 

Eldhúsdagsræða Sigmars Guðmundssonar, 7. júní 2023 

Frú forseti. Góðir landsmenn. Vextir og verðbólga, vextir og verðbólga og vextir og verðbólga. Þetta glymur í eyrunum á okkur daginn út og inn. Það er engin þjóð sem þarf að vita meira um vexti og verðbólgu á norðurhjara veraldar heldur en Íslendingar. Við þurfum að kunna skil á þessu öllu. Við þurfum að vera sérfræðingar í fyrirbærunum. Við þurfum að kunna skil á verðtryggingu, verðbótum, verðtryggðum og óverðtryggðum lánum með föstum og breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum eða jöfnum greiðslum, sem er auðvitað ekki sami hluturinn. Við þurfum að vita allt um viðbótarlán. Við þurfum að þekkja uppgreiðslulán. Við þurftum einu sinni að vera sérfræðingar í myntkörfulánum og þurftum að vita allt um gengi gjaldmiðla. Við þurfum líka að vera sérfræðingar í neysluvísitölu. Við þurfum að kunna skil á húsnæðisliðnum í vísitölunni og helst hvað eigi að vera inni í þeirri vísitölu og hvað ekki. Við þurfum að vera sérfræðingar í þessu öllu til að lifa af í krónuhagkerfinu.

Horfðu á ræðuna hér:

 

Þetta er veruleiki okkar. Það er innbyggð skekkja í hagkerfinu okkar sem gerir það að verkum að reikningurinn — feitur, stór, verðtryggður, með uppgreiðslugjaldi — er alltaf sendur til landsmanna. Alltaf. Þetta gerist aftur og aftur. Það er alltaf verið að halda því að okkur að það sé hægt að halda stöðugleika hér með íslenskri krónu. Samt hefur engri ríkisstjórn tekist það. Hvers vegna ekki? Það er vegna þess að það er skekkja, skekkja sem við viljum einhverra hluta vegna ekki leiðrétta. Og umfram allt þurfa heimilin í landinu að eiga róandi töflur þegar líður að vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans og við þurfum helst að kunna æðruleysisbænina til að geta farið með úti í búð og þegar við tökum bensín á bílinn.

Nýjasta fjármálaafurðin var svo kynnt til sögunnar á dögunum. Það eru óverðtryggð lán þar sem vextir eru að hluta til settir aftast á lánstímann. Þá erum við komin með enn eina fjármálaafurðina, einhvers konar verðtryggð/óverðtryggð lán eða óverðtryggð/verðtryggð lán. Velkomin til Íslands. Þetta er krónuhagkerfið.

Þið, kæru landsmenn, borgið reikninginn. Þið gerið það alltaf. Innbyggð skekkja sem kostar heimilin, fyrirtækin, ríkið og sveitarfélögin óheyrilega fjármuni á ári hverju. Ríkið borgar í aukavaxtagjöld vegna þessa 60 milljarða á ári. Þetta er vaxtamunurinn á milli krónu og evru, 60 milljarðar á ári, ekki 60 milljónir, 60 milljarðar.

Ætlar einhver að halda því fram að það sé ekki stórt velferðarmál að losa okkur undan þessum klafa? Ætlar einhver að halda því fram? Auðvitað er það þannig. Þessu verðum við að komast undan. Ég talaði á dögunum við einstæða móður sem á þrjú börn. Hún keypti sér íbúð í fyrra, hún fær vaxtahækkanirnar í hausinn, hún borgar 100.000 kr. meira á mánuði núna heldur en þegar hún keypti íbúðina. Hún á þrjú börn, börnin okkar, gullin okkar, eins og var sagt hérna áðan. Við erum ekki bara að ræna þessa konu og aðra landsmenn fjárhagslegu öryggi, við erum líka að ræna börnin samvistum við foreldra sína vegna þess að þessu er mætt með því að vinna meira, vinna meira eins og Íslendingar hafa alltaf gert til að þola vaxtaokrið og verðbólgubrjálæðið sem hér geisar. Svona er þetta bara.

En við getum breytt þessu. Við Íslendingar búum í húsi og þakið míglekur. Það lekur allan daginn. Eina ráðið sem íslenskir stjórnmálaflokkar hafa haft eru skammtímalausnir. Það er alltaf verið að skottast út í Húsasmiðju til að kaupa fötu til að setja undir lekann. Við eigum óheyrilegt magn af fötum. Það dettur engum í hug að laga þakið. Það dettur engum í hug að til lengri tíma geti það verið leið að laga þakið, laga kerfisvandann, koma í veg fyrir vandamálið. Þetta er Viðreisn að tala um alla daga en aðrir flokkar hafa aldrei komið með neinar lausnir á þessu, bara einhverjum skammtímavanda. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír og núna Samfylkingin, allur gamli fjórflokkurinn, eru sammála því að það eigi ekki að fara upp á þak og laga. Ekki strax. Sumir eru bara hreinlega á móti. Þeir vilja senda reikninginn til ykkar. En öðrum finnst þetta svo mikið vesen. Þetta er svo erfitt og flókið. Það er ekki hægt að klára þetta á kjörtímabilinu. Hugsið ykkur ef íslensk ungmenni hugsuðu svona og hefðu þetta sem leiðarstefið í sínu lífi. Myndi einhver fara í langskólanám með þessa hugsun? Færi einhver í læknisfræði, verkfræði eða lögfræði? Það er svo mikið vesen, það er svo mikið flókið. Við getum ekki klárað það á kjörtímabilinu.

Þetta er hugsun sem við verðum að komast út úr, landsmönnum til heilla. Flóknara er það ekki. Þetta snýst nefnilega um stöðugleika. Verstir eru þeir, og þeir eru margir, sem halda því fram að hér sé enginn óstöðugleiki. Við Íslendingar erum svo gæfusamir að hér búum við við sveigjanleika, krónuhagkerfið er svo sveigjanlegt. Þið finnið, góðir landsmenn, fyrir þessum sveigjanleika á hverjum einasta degi þegar þið farið út í búð. Þið finnið fyrir sveigjanleikanum í hvert einasta skipti sem þið greiðið af húsnæðisláninu ykkar.

Og hér var talað um börnin í Úkraínu af stjórnarþingmanni. Eitt síðasta verk þessarar ríkisstjórnar er að vilja ekki selja úkraínskar kjúklingabringur á Íslandi tollfrjálst af því að það kostar of mikið. Þegar hæstv. ráðherrar, hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra, eru að taka í höndina á Selenskí og faðma hann fyrir framan myndavélarnar, ætli það hafi fylgt samtalinu að við séum svo sannarlega til í að styðja við frelsið, styðja við lýðræðið, styðja við Úkraínu en bara ekki ef það kostar okkur pening?

Þetta er hugsunarhátturinn. Þetta er nákvæmlega sama sérhagsmunagæslan og vill ekki koma okkur út úr krónuhagkerfinu af því að mönnum líður svo vel í fákeppnisumhverfi. Þetta er skagfirska sveiflan sem ríkisstjórnin dansar eftir á hverjum einasta degi. Allt þetta verðum við að stöðva. Við verðum að þora og hafa kjark til þess að hugsa í lengri tímabilum en kjörtímabilum. Þessu verðum við að breyta og við getum breytt þessu.