19 júl Belti og axlabönd þjóðar
Hástafir og yfirlýsingargleði einkenna viðtöl og samfélagsmiðla stjórnarandstöðunnar vegna komu Ursulu von der Leyen, framkvæmdastjóra ESB, til landsins og funda hennar við helstu ráðamenn landsins.
Stjórnarandstaðan heldur því fram að verið sé að lauma Íslandi inn í Evrópusambandið í kyrrþey og án nokkurs samráðs.
Slíkt verður ekki gert án þess að spyrja þjóðina, og það tvisvar!
Það eru nefnilega bæði belti og axlabönd í þessari vegferð, til þess að þjóðin fái örugglega að stýra ferðinni.
Fyrst verður þjóðin spurð í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort eigi að halda viðræðunum um samninginn og innihald hans áfram. Skuldbindingarlaust skref sem þjóðin mun þó ákveða hvort verði tekið.
Segi þjóðin já verður farið af stað í viðræður, aftur (þær voru hafnar hér um árið en ákveðin ríkisstjórn ákvað, upp á sitt eindæmi, að hætta þeim í miðjum klíðum). Úr viðræðunum fæst samningur sem þing og þjóð skoðar og ræðir.
Næsta skref yrði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla og þjóðin kysi um hvort hún vildi ganga í Evrópusambandið eða ekki.
Undirrituð er mjög hrifin af ESB. Sambandið styður og styrkir hluti eins og byggðafestu og brothættar byggðir. ESB er einnig langmikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar vörur og þjónustu. Ég bjó í Englandi þegar landið gekk endanlega úr sambandinu, samtöl í kringum þann gjörning og flestar þær fréttir sem ég hef séð hafa ýtt undir það álit mitt að aðild sé betri en ekki. Við fengjum líka að taka þátt í stefnumótun þess, sem við fylgjum að mestu leyti hvort eð er út af EES-samningnum. Svo má auðvitað ekki gleyma því að við fengjum traustari og trúverðugri gjaldmiðil.
Allt tal um að allir samningar séu eins og því einfaldlega hægt að taka upp skapalónið, skoða það og ákveða út frá því er rangt. Til dæmis voru gerðir sérsamningar á norrænum svæðum vegna búfénaðar, enda skilyrði önnur en annars staðar.
Kjarni málsins er sá að það er enginn að reyna að læða neinum óafvitandi inn í ESB þessa dagana, í gangi er eðlilegt alþjóðastarf og alþjóðasamtal. Slíkt ætti alltaf að eiga sér stað en sérstaklega núna, eins og ástandið er í heiminum. Sama ástand gæti þó einnig verið okkur í hag í samningsviðræðum þar sem aðrar þjóðir vilja einnig styrkja tengslin.
Ég mæli með því að við öndum í kviðinn, tölum saman, fræðumst og þegar að því kemur fer það ekki fram hjá okkur, við verðum spurð og við munum fá að segja okkar skoðun.
Þjóðin á að fá að ráða þessu, enda vinnur ríkisstjórnin með og fyrir þjóðina í þessu sem öðrum málum.