Blessað Evrópusambandið

Ef ég myndi segja þér að það væri möguleiki á því að lækka vextina á láninu þínu, matarkarfan þín væri ódýrari, þú gætir stundað viðskipti við stóra trausta erlenda banka, þú þyrftir ekki að borga tolla af því sem þú pantar þér á netinu, þú gætir notað sama gjaldmiðil hér heima og á Tenerife, myndir þú ekki hafa áhuga á að kanna þetta nánar? Með því að kjósa með áframhaldandi samningaviðræðum við Evrópusambandið fengjum við svör við öllu þessu.

Stundum virðist umræðan eins og hún er í dag byggja á flóknu skrifræði og endalausu tali um reglugerðir. Upplifunin verður að umræðan krefjist meistaragráðu í evrópurétti til að geta skilið hana, hvað þá tekið þátt í henni. Umræðan einkennist af stórum fullyrðingum í báðar áttir og erfitt getur verið að lesa sér til um hvað er rétt og hvað ekki. Hvað er þá til ráða?

Formaður Sjálfstæðisflokksins fullyrti til dæmis að við myndum missa 200 mílna lögsögu niður í 12 mílur og að við myndum missa forræði yfir orku og vatni. Þetta er auðvitað bara úr lausu lofti gripið og gaman væri að sjá hvaðan hún fær þessar staðreyndir. Eitt er þó nauðsynlegt að taka fram í þessu samhengi – Það er ekki hægt að fullyrða með vissu nákvæma kosti eða galla sértækra málefna við inngöngu í Evrópusambandið án þess að hafa aðildarsamning á borðinu. Til þess að hægt sé að glöggva sig á slíkum samningi þurfum við að kjósa með áframhaldandi samningaviðræðum í boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við getum þó verið þess fullviss að:

  • Vextir eru almennt lægri í evruríkjum.
  • Öryggi þjóðarinnar er betur tryggt innan ESB.
  • Tollar á vörum frá ESB-ríkjum myndu falla niður og því yrði til dæmis netverslun ódýrari og afgreiðsla hraðari með afnámi tollafgreiðslu.
  • Evran er stöðugri gjaldmiðill en íslenska krónan – það er einfaldlega staðreynd.

Með þetta í huga finnst mér það hálf furðulegt að vilja ekki í það minnsta skoða möguleikana. Því það er nú einu sinni tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslunar. Ef til þess kæmi að aðildarsamningurinn yrði þjóðinni óhagstæður myndi ég ekki undir neinum kringumstæðum hvetja til þess að hann yrði samþykktur. Þetta hafa til dæmis Norðmenn gert í tvígang. Þar lá samningur fyrir og í bæði skipti var honum hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu af norsku þjóðinni.

„Hvað með fullveldið?“ Kann einhver að spyrja. Fullveldi þjóðarinnar verður ekki framselt með inngöngu í Evrópusambandið. Með því að fullyrða að fullveldið verði framselt er á sama tíma verið að segja að þjóðir eins og Frakkland, Þýskaland og Spánn séu ekki fullvalda þjóðir. Í raun má segja að með aðild að Evrópusambandinu myndi Ísland styrkja fullveldi sitt með því að hafa loksins eitthvað um lög og reglugerðir, sem við þurfum nú þegar að taka upp í gegnum EES samninginn, að segja.

Við fengjum loksins sæti við borðið. Það að vera fullvalda ríki þýðir ekki að vera einangrað ríki. Fullvalda ríki hafa áhrif á öll þau lög og allar þær reglugerðir sem teknar eru upp. Þannig er staðan ekki á Íslandi í dag.

Áhugasamir geta skoðað vef Evrópuhreyfingarinnar, evropa.is, þar sem hægt er að lesa fróðleiksmola setta fram á einfaldan og skýran hátt.