Verður kosið í Sjávarbyggð árið 2026?

Ég var á dögunum við opnun seiðaeldisstöðvar Háafells á Nauteyri. Nauteyri er í Strandabyggð, kvíar félagsins eru að mestu fyrir ströndum Súðavíkurhrepps. Höfuðstöðvarnar á Ísafirði. Móðurfélagið er í Hnífsdal. Slátrunin fer fram í Bolungarvík.

Annað dæmi: Á Vestfjörðum eru fjölmargir sambærilega stórir skólar reknir, sem hver og einn er að kljást við svipuð viðfangsefni. Samstarf hefur ekki verið nógu mikið, og sá Reykhólahreppur tilefni til að álykta sérstaklega um þetta á síðasta Fjórðungsþingi. Það verður nefnilega að segjast, og það er miður, að samstarf þvert á sveitarfélög er oft stirðara en samstarf innan sömu stjórnsýslueiningar.

Sveitarfélög taka áfram breytingum

Fyrr í haust lagði Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra fram drög að nýjum sveitarstjórnarlögum, með margvíslegum breytingatillögum. Meðal þeirra er ákvæði um að ráðherra skuli sameina sveitarfélög sem eru með færri en 250 íbúa. Á sama tíma er nýtt kerfi jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að taka gildi og áfram haldið í að auka kröfur á þjónustu sveitarfélaga. Fjögur af sjö sveitarfélögum á Vestfjörðum eru um eða undir 250 manna markinu, auk Strandabyggðar sem hefur mikinn áhuga á sameiningarviðræðum við önnur sveitarfélög. Ráðherra hefur sagt að hann vilji sjá kosið til nýrra sameinaðra sveitarfélaga 16. maí 2026.

Þingleg meðferð er framundan, en ég les stöðuna þannig að við séum á tímamótum hvort heldur sem er. Fjölmargir ráðherrar hafa lagt fram efnislega svipuð frumvörp og það úr flokkum sem nú eru í minnihluta á Alþingi. Sameining sveitarfélaga er hluti af samfélagsbreytingum sem ná 100 ár aftur í tímann.

Er Sjávarbyggð rökrétt næsta skref?

Ýmsar flækjur gera mánuðina framundan snúna. Tvö sveitarfélög, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur, eru í sameiningarviðræðum. Nágrannasveitarfélag Reykhólahrepps, Dalabyggð, er í sameiningarviðræðum sem ekki er útséð með fyrr en síðar á árinu, auk þess sem Reykhólahreppur rambar á barmi íbúafjöldamarksins eftir því hvaða opinbera stjórnvald er spurt.

Og Strandabyggð er fjölmennari en þau fjöldalágmarkið. Þar þyrfti því að kjósa um sameiningu að undangengnu formlegu ferli, og væntanlega þyrfti að gera það líka í Ísafjarðarbæ ef sú sviðsmynd yrði ofaná. Í Vesturbyggð er síðasta sameining enn eiginlega í fullum gangi og í Bolungarvík er enginn sameiningarhugur.

Nýtt sveitarfélag Árneshrepps, Ísafjarðarbæjar, Kaldrananeshrepps, Reykhólahrepps, Strandabyggðar, Súðavíkurhrepps og Reykhólahrepps—sem í mínu tali hefur fengið vinnuheitið Sjávarbyggð—yrði þriðja stærsta sveitarfélag landsins í ferkílómetrum talið. Sérstaðan felst hinsvegar í strandlengjunni, en þetta sveitarfélag hefði 25% allrar strandlengju Íslands og tæplega helming allra fjarða.

Ég hef talað fyrir því að sveitarfélögin á kjálkanum taki stjórnina á atburðarásinni og byrji strax að undirbúa sameiningarkosti. Sameining er hrikalega flókið ferli og tekur tíma. Mín skoðun er að tímanum sé best varið í að undirbúa sameiningar heldur en berjast gegn Alþingi og ráðherra í málinu. Sveitarstjórnarkosningarnar eru enda á næsta leiti.

Vestfirðir eru enn frábærir staður til að búa á. Með sameiningu getum við tryggt að það verði svo áfram—að fólk, fyrirtæki og framtíð fái að dafna við hafið sem hefur alltaf verið okkur lífæð.

Greinin birtist fyrst á bb.is 5. nóvember 2025