Strákar eru líka fólk

Reglulega blossar upp umræðan um stöðu drengja í hinu og þessu samhengi. Þessi staða þeirra er yfirleitt ekki góð. Strákar kallast drengir í þessari umræðu. Og stelpur kallast stúlkur. Ekki þarf að hafa jafnmiklar áhyggjur af þeim og þær virðast yfirleitt standa sig betur. Oft snýst þessi umræða um einhverja tiltekna hegðun sem fólk hefur áhyggjur af. Og árangur í námi. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni og alvarleg þróun. Og þá fer umræðan og orðanotkunin oft að taka á sig sérstakan blæ. Fólk hættir að vera fólk og verður einstaklingar og jafnvel „einstaklingar í samfélaginu.“ Sem áhugamaður um orð og orðanotkun þá velti ég því oft fyrir mér hvort við gerum þetta ósjálfrátt til að aftengja okkur tilfinningalega frá viðfangsefninu, vera fagleg frekar en persónuleg.

Ég held að það sé alveg kominn tími til að sumt fólk fari aðeins að líta í eigin barm. Reglulega heyri ég fólk tala stráka niður, alhæfa og dæma. Af þessari umræðu og hvernig fólk talar mætti oft ætla að ungir strákar í dag væru meira og minna vonlausir gapuxar. Enginn segir það beinum orðum en maður gæti auðveldlega haldið að þeir væru soldið heimskir. Ég horfði til dæmis á Kastljósþátt á dögunum þar sem verið var að ræða áhyggjur af hrakandi lesskilningi drengja. Þar var til viðtals kona ein, prófessor í menntavísindum sem hefur verið að skoða þessi mál. Hún sagði meðal annars:

„Við verðum líka að hugsa út í hvað þýðir það að vera læs? Það er stundum talað eins og að helmingur drengja útskrifist ólæs. Það þýðir það ekki að þeir geti ekki lesið texta, en þeir geta ekki unnið með flókinn texta. En þetta er ekki þannig að þeir geti ekki kveðið að eins og hét í sveitinni í gamla daga. Þeir geta það. En þeir geta ekki lesið flókinn texta og það er auðvitað áhyggjuefni.“

Ég gríp þetta dæmi bara því það er nýlegast. Ég gæti nefnt fjölda annarra svipaðra ummæla sem falla á opinberum vettvangi. Þetta er orðin nokkuð samfelld síbylja. Hún byrjar á því að taka aðeins upp hanskann fyrir stráka og ítrekar að ólíkt því sem við gætum oft haldið þá séu þeir tæknilega séð ekki ólæsir en þeir séu vissulega fábjánar því þeir geti hvorki skilið eða unnið með það sem sé flókið. Þegar ég horfði á þetta þá velti ég því fyrir mér hvað yrði sagt ef ég myndi tala svona um stelpur.

Það hefur líka vakið athygli mína að það fólk sem virðist hafa mestar áhyggjur af þessum „drengjum“ öllum eru oftar en ekki konur. Og þær botna barasta ekkert í þessu. En spara ekki þungu orðin, þótt þau séu auðvitað vandlega valin. Þér eruð fífl þýðir alveg það sama og þú ert fífl. Getur hugsast að það sé í raun ekkert að þessum „drengjum“ heldur séu þær að úttala sig um reynsluheim og menningu sem þær hafa bæði takmarkaða innsýn í og hugsanlega alls konar fordóma fyrir? Óeðlileg hegðun er oft eðlilegt viðbragð við óeðlilegum aðstæðum.

Mér er málið skylt. Ég var bara rétt rúmlega þriggja ára þegar ég var kominn til skoðunar og meðferðar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans við Dalbraut. Ástæðan voru hegðunarvandamál og þroskaraskanir. Eftir um það bil tveggja ára ferli af viðtölum, heilalínuritum og alls konar prófum fannst ekkert marktækt að mér. Foreldrum mínum var sagt, og það hef ég skjalfest, að ég væri ágætlega greindur en misþroska og myndi líklega ekki ná miklum árangri í lífinu vegna þess. Þessi niðurstaða var svo sem ekkert fjarri lagi, ég er frekar óvenjulega samansettur maður og hef fetað ótroðnar slóðir í gegnum lífið, en ég hef samt náð miklum árangri.

Skólaganga mín var brösótt og mér gekk illa í flestu. Ég varð snemma fluglæs en gekk illa að læra að skrifa. Ég var bæði skrif- og tölublindur. En ég var kraftmikill og kjaftaglaður. Ég átti erfitt með að sitja kyrr og var sífellt að trufla kennara með frammíköllum og masi. Gömlu einkunnaspjöldin mín eru nokkuð samhljóma: Er oft hávær og fyrirferðarmikill. Framför hæg.

Þegar mamma spurði umsjónarkennarann minn hvort ég gæti ekki fengið einhvern meiri stuðning þá svaraði hún því til að það væri til lítils því hið raunverulega vandamál fælist í því að ég væri bara einfaldlega tregur, eins og hún orðaði það.

Það voru því ekki gerðar sérstaklega miklar væntingar til mín. Ég skynjaði það sem barn en ég skildi það ekki fyrr en ég var orðinn fullorðinn.

Ég á þrjá stráka og sex barnabörn sem eru strákar. Sem opinber persóna á Íslandi og frægur leikari og grínisti þá hef ég verið í miklum samskiptum við ungt fólk og ekki síst stráka. Það er reynsla mín að krakkar í dag séu almennt töluvert hæfari manneskjur en þegar ég var unglingur. Strákar í dag finnst mér miklu upplýstari og þroskaðri en strákar voru í mínum ungdómi. Það á ekki síst við um tilfinningalegan þroska. Strákar í dag búa yfir skynsemi, sem kemur mér sífellt á óvart. Ég ætla ekki að alhæfa en ég held að 14 ára strákar í dag séu almennt álíka að vitsmunum og andlegum þroska og 19 ára strákar voru 1986.

Hvað þýðir það eiginlega að geta ekki lesið sér til gagns? Er það eitthvað nýtt orð yfir lesblindu? Einu sinni var gagn nátengt við gaman. Hvað varð um gagn og gaman? Af hverju má ekki lengur vera gaman? Umsjónarkennarinn minn í barnaskóla sagði mér ítrekað að ég myndi ekki ná neinum árangri í lífinu með fíflagangi. Það var bara einfaldlega ekki rétt.

Ég vil taka það fram að ég er jafnréttissinni. Ég trúi á jöfn réttindi allra manneskja. Ég fæddist inn í mjög karlægt samfélag þar sem hallaði mjög á konur. Ég hef reynt að vera virkur þátttakandi í jafnréttisbaráttu allt mitt líf. Ég á tvær dætur og hef barist fyrir því að þær geti búið í samfélagi sem mismunar þeim ekki og þær hafi sömu tækifæri til að ná árangri og jafnaldrar þeirra af karlkyni. Ég hef barist gegn staðalímyndum, fordómum og kvenfyrirlitningu og reynt að vera karl sem stendur í verki með réttindum kvenna. En ég hafna þeirri hugmyndafræði að það sé enginn raunverulegur líffræðilegur munur á heilastarfsemi og taugakerfi karla og kvenna heldur sé einungis um að ræða ólíka einstaklinga. Það er bara einfaldlega ekki rétt og þessi kenning hefur verið rækilega afsönnuð með taugavísindarannsóknum. Ég hef reynt að benda á þetta í bókum mínum: Indjáninn, Sjóræninginn og Útlaginn. Margar mæður hafa haft samband við mig í gegnum árin og þakkað mér fyrir og segjast skilja syni sína betur eftir að þær lásu bækur mínar.

Ég er mjög stoltur af því að hafa verið hluti af því að Ísland telst nú eitt af þeim ríkjum heims þar sem jafnrétti telst hvað best. Mér finnst Ísland í dag töluvert skemmtilegra og heilbrigðara en það var. Mér finnst ég ekki hafa misst neitt. Margir myndu víst telja mig til forréttindablindra hvítra miðaldra karla. Ég tek það ekki nærri mér. En mér hafa vissulega oft fundist femínistar og hópar þeirra fara offari. Einu sinni var mikið til umræðu mannræfill einn sem sendi konum dónaleg skilaboð. Ég sá nokkur skjáskot af þessum skilaboðum á samfélagsmiðlum. Ég kynnti mér manninn og komst að því að hann var mjög greinilega fatlaður og með þroskahömlun. Ég vakti athygli á þessu en fékk þá yfir mig skæting og fúkyrði. Við hljótum líka einn daginn að þurfa að gera upp við slaufunartímabilið. Fullkomnu jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og enn hallar á konur á hinum ýmsu sviðum. En lausnin er ekki að láta halla á karla á móti. Að tala um karlpunga er það sama og að tala um kellingatussur. Best er að sleppa hvoru tveggja. Getur verið að við séum búin að byggja upp samfélag sem er misþroska? Við hefðum aldrei náð þessum árangri í jafnréttismálum nema vegna þess að við karlar höfum flestir tekið virkan þátt í vinnunni. Við höfum líka staðið með réttindabaráttu samkynhneigðra. Í upphafi var eitruð karlmennska orð yfir skaðlegar birtingarmyndir karlamenningar. En nú finnst mér sumt fólk farið að gefa í skyn að öll karlmennska sé eitruð. Karlmennska er ekki eitruð í sjálfu sér. Mig langar að hvetja fólk til að hætta að tala stráka niður en virða þá frekar og treysta. Það er nógu sorglega hlægilegt að vera manneskja.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 25. janúar 2026