Atvinnumál

Landsþing 11. mars 2018

Samkeppni, sjálfbærni, jafnrétti og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri. Virk og öflug samkeppni ásamt markaðslausnum á sem flestum sviðum skilar bestum árangri. Stjórnvöld skulu búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði og draga úr efnahagssveiflum. Sérstaklega þarf að huga að bættu umhverfi varðandi samgöngur, skatta, nettengingar og rafdreifikerfi. Fyrst og fremst þurfa þó fyrirtækin stöðugleika í efnahagslegri umgjörð og einföldun regluverks. Eyða skal kynbundnum launamun hvar sem hann er að finna og tryggja jafnrétti á öllum sviðum atvinnulífsins. Líta ber á góða ímynd landsins sem auðlind er þarf að varðveita og efla. Í þessu sambandi þarf að tryggja rétt þjóðarinnar á vörumerkinu Ísland, Iceland og tengdum vörumerkjum.

SAMKEPPNI OG STÖÐUGLEIKI SKAPAR KRAFT
Viðskipta- og atvinnufrelsi á að ríkja á öllum mörkuðum fyrir vöru og þjónustu. Ríkisafskipti eiga að vera í lágmarki.

Viðskipta- og atvinnufrelsi á að ríkja á öllum mörkuðum fyrir vöru og þjónustu. Búa þarf atvinnurekstri stöðugt og alþjóðlegt viðskiptaumhverfi, með stöðugan gjaldmiðil og samkeppnishæft vaxtastig. Með því móti verður til þróttmikið atvinnulíf sem skapar fjölbreytt störf og atvinnutækifærum fyrir menntað og framtakssamt fólk fjölgar. Opið, frjálst og stöðugt rekstrarumhverfi er líklegra til að laða erlend fyrirtæki að Íslandi og eykur líkurnar á að íslensk fyrirtæki vilji og geti haft höfuðstöðvar sínar hér á landi þó að þau verði umsvifamikil á erlendum vettvangi.

Ríkisafskipti af atvinnuvegum eiga að vera í lágmarki. Hið opinbera á fyrst og fremst að skapa hagstæðan ramma um atvinnulífið og aðeins koma að samkeppnisrekstri ef ríkir almannahagsmunir krefjast þess. Reglur og eftirlit ríkisvaldsins verði skilvirkara og alltaf metið hvort ávinningur verði meiri en tilkostnaður. Hófleg skattlagning og einfalt skattkerfi ýta undir atvinnurekstur og nýsköpun. Huga þarf sérstaklega að einyrkjum og smáfyrirtækjum með einfaldari skattlagningu og skattskilum. Rétt er að hækka lágmark fyrir virðisaukaskattskil í þrjár milljónir í stað tveggja.

SJÁLFBÆRT ATVINNULÍF
Öll atvinnustarfsemi sem nýtir sérstöðu landsins skal þróuð og byggð upp af virðingu fyrir auðlindum Íslands.

Efla ber atvinnurekstur sem nýtir auðlindir landsins á sjálfbæran hátt. Tryggja þarf jafnan aðgang landsmanna að auðlindum landsins á grundvelli markaðslausna. Menntakerfið þarf að geta sinnt þörfum atvinnulífsins á hverjum tíma. Fjárfestingu í vísindastarfi, rannsóknum og þróunarstarfi þarf að auka á sem flestum sviðum. Sókn nýsköpunarfyrirtækja í erlenda samkeppnissjóði þarf að örva markvisst. Heiðarleiki og samfélagsleg ábyrgð eru nauðsynlegir þættir í því að atvinnustarfsemi njóti virðingar og trausts í samfélaginu.

BREYTINGAR Á ATVINNUHÁTTUM – FJÓRÐA IÐNBYLTINGIN
Undirbúa skal innviði og menntakerfið fyrir breytingar í atvinnulífinu

Mikilla og hraðra breytinga er að vænta í atvinnuháttum í tengslum við örar framfarir í upplýsingatækni og gervigreind. Þessi framþróun erí daglegu tali nefnd fjórða iðnbyltingin.

Menntun þarf að taka mið af þessum breytingum sem og innviðir landsins og ytra umhverfi atvinnurekstrar. Reikna má með að mörg störf falli niður með þessum breytingum og til þess að vera viðbúin þeim þarf að efla nýsköpun og huga að endurmenntun handa þeim sem kunna að missa störf sín.

NÝSKÖPUN ER FORSENDA FRAMFARA
Nýsköpun, frumkvæði og efling frumkvöðlastarfsemi er eitt af leiðarstefjum Viðreisnar

Ýtt verði undir frumkvæði til stofnunar og reksturs frumkvöðlastarfsemi og leiðir til fjármögnunar straumlínulagaðar. Nýsköpun er í eðli sínu kostnaðarsöm og áhættusöm fyrir einkaaðila en nauðsynleg fyrir þjóðina í heild sinni. Því þarf að koma til samstarf frumkvöðla, fjárfesta og fulltrúa þjóðarinnar. Til viðbótar núverandi stuðningi við nýsköpun verði skoðað hvernig skattaívilnunum og fjárfestingarhvötum verði best fyrir komið. Hækka þarf og helst afnema núverandi þak á endurgreiðslu til fyrirtækja vegna útlagðs kostnaðar til rannsókna og þróunar og gæta þess um leið að það verði gert með þeim hætti að leiði til nýrrar og arðbærrar starfsemi á Íslandi.

Sérstaklega verði hugað að því að samhæfa frumkvöðla, fjárfesta og opinbera aðila í því verkefni að koma sprotafyrirtækjum í gegnum nýsköpunargjána svonefndu. Einnig verði settir upp viðskiptalegir hvatar til að halda fyrirtækjunum á Íslandi, allt með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Einstakir þættir:

INNVIÐIR FERÐAÞJÓNUSTU BYGGÐIR UPP
Nýta þarf tækifæri og hámarka arðsemi ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta byggist á því að nýta náttúruauðlindir landsins á sjálfbæran hátt.

Treysta þarf innviði til að mæta vaxandi ferðamannafjölda og horfa þar sérstaklega til nauðsynlegra verkefna í vegagerð og vegaviðhaldi, uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, fjarskiptaþjónustu (nettengingar með ljósleiðara) og löggæslu. Tryggja þarf öflugar flugsamgöngur innanlands t.d. með betri tengingu við Keflavíkurflugvöll.

Efla ber tekjulindir sveitarfélaga af ferðaþjónustu. Til að tryggja sjálfbærni ferðaþjónustu til lengri tíma og uppbyggingu innviða bverði til viðbótar við bílastæðagjald skoðaðar aðrar leiðir til innheimtu gjalda til aðgangsstýringar.

MARKAÐSLEIÐ Í SJÁVARÚTVEGI TRYGGI SÁTT UM GREININA
Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar.

Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári. Þannig fæst sanngjarnt markaðstengt afgjald fyrir aðgang að auðlindinni og umgjörðin um atvinnugreinina verður stöðug til frambúðar. Leiðin hvetur til hagræðingar og hámarks arðsemi þegar til lengri tíma er litið. Einnig opnast leið fyrir nýliðun. Afgjaldi fyrir nýtingarétt á auðlindinni verði að hluta til varið í þeim byggðum sem hafa orðið fyrir þungum búsifjum vegna tilfærslu kvóta.

LANDBÚNAÐUR
Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni og sömu almenn lög gildi um hann og annan atvinnurekstur.

Öflug og fjölbreytt matvælaframleiðsla er mikilvæg. Stuðningur við landbúnað þarf að stuðlaað aukinni hagræðingu, framleiðni, nýliðun og nýsköpun í greininni og beinast að þeim sem hafa atvinnu af landbúnaði. Þess verði gætt að markmið byggðastefnu séu skýr, að þau þjóni almannahagsmunum og að opinber framlög í þessu samhengi nái sem best settum markmiðum.

Bændur eiga að fá frelsi til þess að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir og stuðla að innri samkeppni í greininni. Einfalda þarf löggjöf og eftirlit með matvælum í því skyni að styðja við frumkvöðlastarf og nýsköpun í landbúnaði. Líta skal til nágrannalandana í þessu tilliti. Allri framleiðslu- og sölustýringu af hálfu ríkisvaldsins verði hætt.

Tollar og innflutningshöft á landbúnaðarvörur verði afnumin í skynsamlegum áföngum samtímis því að landbúnaðurinn stígur inn í samkeppnisumhverfi með breyttu stuðningskerfi.

Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun í landbúnaði með stuðningi við verkefni á borð við skógrækt, lífrænan landbúnað, landgræðslu, vöruþróun, lokun framræsluskurða, smávirkjanir og ferðaþjónustu. Þriggja fasa línur auka orkugæði og skapa möguleika á smávirkjunum sem væri nýr atvinnumöguleiki í sveitum.

STÖÐUGLEIKI FYRIR IÐNAÐINN
Vaxtarbroddar í iðnaði geta ekki þrifist án stöðugleika og menntaðs fólks sem finnur kröftum sínum viðnám hér á landi.

Til að iðnaður geti haldið áfram að vaxa og dafna og orðið einn af burðarásum fjórðu iðnbyltingarinnar á sviðum hátækni og hugverkagreina þarf að tryggja nokkrar grunnforsendur:

Stöðugan gjaldmiðil, aðgang að mörkuðum, menntað starfsfólk, aðgang að erlendum sérfræðingum og stuðning við nýsköpun og þróun ásamt þolinmóðu fjármagni.

RAFRÆN STJÓRNSÝSLA OG FJARSKIPTI
Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og framleiðniaukningar í opinberum rekstri.

Áfram skal leggja ríka áherslu á rafræna þjónustu opinberra aðila þannig að staðsetning skipti fyrirtæki og einstaklinga minna máli fyrir aðgengi að þjónustunni. Ráðist verði í stórfelldar fjárfestingar í rafrænni stjórnsýslu. Hún bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og framleiðniaukningar í opinberum rekstri. Gott fjarskiptakerfi (nettenging með ljósleiðara) verður að ná til landsins alls. Áfram skal styðja við þá ljósleiðarauppbyggingu sem hafin er.

HEILBRIGT REKSTRARUMHVERFI OG BÆTTAR SAMGÖNGUR
Fyrirtæki, stór og smá, í iðnaði, verslun og þjónustu eru mikilvæg fyrir samfélagið. Verk- og tæknimenntun þarf að mæta þörfum iðnaðarins og þess vegna verður að finna leiðir til þess að ungt fólk sæki sér þessa menntun. Sama gildir um fólk með sérhæfða menntun á sviði ferðaþjónustu.

Bæta þarf vegakerfi landsins þannig að það uppfylli kröfur umferðarþunga og burðargetu flutningatækja. Ráðast þarf í bráðaaðgerðir þar sem augljóst er að slysahætta er óviðunandi, t.d. á Suðurlandsvegi.

——

Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið stefna@vidreisn.is.
Viðkomandi málefnanefnd tekur efnið til skoðunar, en starf málefnanefnda er opið öllum flokksmönnum.
Auðbjörg Ólafsdóttir, er formaður málefnanefndar um atvinnumál.