Jafnlaunavottun verður innleidd með lagabreytingum á jafnréttislögum og lögum um ársreikninga:

Frum­varp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla

Við 19. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar á eftir þriðju málsgrein núgildandi 19. gr., svohljóðandi:

Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu undirgangast árlega jafnlaunavottun samkvæmt reglugerð nr. 929/2014 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012, sbr. 6. mgr.
Fyrirtækjum sem eru jafnlaunavottunarskyld skv. 3. mgr. ber að framkvæma jafnlaunavottun samhliða gerð ársreiknings og birta niðurstöðu hennar með ársreikningi, sbr. X. kafli laga um ársreikninga nr. 3/2006.
Opinberum stofnunum og fyrirtækjum í eigu hins opinbera sem eru jafnlaunavottunarskyld skv. 3. mgr. en falla ekki undir lög um ársreikninga nr. 3/2006 ber að birta niðurstöður jafnlaunavottunar svo aðgengilegt sé almenningi.

Ákvæðið verður svohljóðandi eftir breytingu:

 19. gr. Launajafnrétti.
 Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
 Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.
 Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.

 Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu undirgangast jafnlaunavottun samkvæmt reglugerð nr. 929/2014 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012, sbr. 6. mgr.

 Fyrirtæki sem eru jafnlaunavottunarskyld skv. 3. mgr. ber að framkvæma jafnlaunavottun samhliða gerð ársreiknings og birta niðurstöðu hennar samhliða ársreikningi, sbr. X. kafli laga um ársreikninga nr. 3/2006.
 [Ráðherra er heimilt að setja reglugerð1) um nánari framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um innleiðingu staðals um launajafnrétti, svo sem varðandi hæfniskröfur til vottunarstofa og framkvæmd jafnlaunavottunar.]2)

Frum­varp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga

Í I. kafla laganna kemur nýtt ákvæði á eftir 10. gr.
11. gr. Jafnlaunavottun
Fyrirtæki og stofnanir sem eru jafnlaunavottunarskyld skv. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu senda ársreikningaskrá jafnlaunavottun samhliða ársreikningi hverju sinni.

Í VI. kafla um skýrslu stjórnar bætist inn ákvæði á eftir 66. gr.
67. gr. Jafnlaunavottun
Í skýrslu stjórnar skulu fyrirtæki og stofnanir sem eru jafnlaunavottunarskyld skv. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla greina frá niðurstöðu jafnlaunavottunar.

Við 3. mgr. 126. gr. núgilandi laga bætist inn eftirfarandi á eftir þriðja málslið:
Ársreikningaskrá er enn fremur heimilt að leggja sektir á félög eða stofnanir sem falla undir 11. gr. laganna en hafa vanrækt að senda ársreikningaskrá jafnlaunavottun.

Núgildandi 3. mgr. 126. gr. verður svohljóðandi eftir breytingu:

[Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á þau félög sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. og vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Við mat á því hvort félög falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. er ársreikningaskrá heimilt að nýta sér upplýsingar frá ríkisskattstjóra skv. 2. mgr. 117. gr. Þá er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á félög sem falla undir 1. gr. laganna og vanrækja að leggja fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar. Ásreikningaskrá er enn fremur heimilt að leggja sektir á félög eða stofnanir sem falla undir 11. gr. laganna en hafa vanrækt að senda ársreikningaskrá jafnlaunavottun. Heimild ársreikningaskrár til að leggja á sektir samkvæmt þessari málsgrein er óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Sektarfjárhæðin nemur allt að 500.000 kr. og rennur í ríkissjóð. Sektin er aðfararhæf. Sektarákvörðun ársreikningaskrár er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.

Núgildandi 126. gr. verður þá svohljóðandi:

126. gr. [Héraðssaksóknari]1) fer með frumrannsókn [sakamála]2) vegna brota á lögum þessum. Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli til [rannsóknar lögreglu]2) af sjálfsdáðum, svo og eftir ósk sökunautar ef hann vill ekki hlíta því að málið verði fengið yfirskattanefnd til úrlausnar.
Yfirskattanefnd úrskurðar sektir vegna brota á lögum þessum nema máli sé vísað til …2) rannsóknar og dómsmeðferðar skv. 1. mgr., [sbr. þó 3. mgr.]3) Skattrannsóknarstjóri ríkisins leggur mál fyrir yfirskattanefnd og kemur fram af hálfu hins opinbera fyrir nefndinni þegar hún úrskurðar sektir. Úrskurðir yfirskattanefndar eru fullnaðarúrskurðir. Vararefsing fylgir ekki sektarúrskurðum hennar.
[Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á þau félög sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. og vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Við mat á því hvort félög falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. er ársreikningaskrá heimilt að nýta sér upplýsingar frá ríkisskattstjóra skv. 2. mgr. 117. gr. Þá er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á félög sem falla undir 1. gr. laganna og vanrækja að leggja fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar. Ásreikningaskrá er enn fremur heimilt að leggja sektir á félög eða stofnanir sem falla undir 11. gr. laganna en hafa vanrækt að senda ársreikningaskrá jafnlaunavottun. Heimild ársreikningaskrár til að leggja á sektir samkvæmt þessari málsgrein er óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Sektarfjárhæðin nemur allt að 500.000 kr. og rennur í ríkissjóð. Sektin er aðfararhæf. Sektarákvörðun ársreikningaskrár er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.

[Skili félag ársreikningi innan 60 daga frá tilkynningu sektarfjárhæðar er ársreikningaskrá heimilt að lækka sektarfjárhæðina um 60%.]4)
[Ráðherra]5) skal setja reglugerð6) um nánari framkvæmd á sektarheimild ársreikningaskrár.]3)
Sektir fyrir brot á lögum þessum renna í ríkissjóð.
Sakir samkvæmt lögum þessum fyrnast á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins eða [héraðssaksóknara]1) eða hjá löglærðum fulltrúum þeirra, gegn manni sem sökunaut, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.