Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu, er lykillinn að grænni framtíð.

 

Sjálfbær nýting auðlinda

Stöðugleiki næst aðeins með samþættingu umhverfislegra, hagrænna og félagslegra þátta við allar ákvarðanir tengdar auðlindanýtingu. Hagkerfið þarf að hvíla í auknum mæli á stoðum sem rýra ekki gæði umhverfisins. Nútímalegt velsældar samfélag þarf að vera samkeppnishæft og kolefnishlutlaust þar sem neikvæð áhrif á umhverfið og rýrnun náttúrugæða verði síður forsenda hagvaxtar. Þetta verði m.a. gert með áherslu á nýsköpunarstyrki í loftslagstengdum verkefnum og að raforkuvinnsla stuðli að grænni atvinnuuppbyggingu.

 

Viðreisn telur að vernd og nýting náttúruauðlinda geti og verði að fara saman og mun leggja áherslu á að tryggja það til framtíðar. Stefna Viðreisnar er að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt. Nýtingin á að byggjast á heildstæðu mati á þjóðhagslegum ávinningi og afleiðingum og skerði ekki kosti komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Allar auðlindir lofts, lagar og sjávar, óháð eignarhaldi, verði nýttar á ábyrgan hátt og skili jákvæðum áhrifum til samfélagsins. Aðgangur að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar verði tímabundinn og upphæð gjalds fyrir nýtingu verði ákvörðuð af markaðnum þegar því verður við komið.

 

Nauðsynlegt er að öll framleiðsla og þjónusta verði kolefnishlutlaus og rýri ekki náttúrugæði til langframa. Mikilvægt er að taka ferli rammaáætlunar til gagngerrar endurskoðunar svo hún virki sem skyldi og eyða þarf óvissu um reglur og lög sem gilda um uppbyggingu vindorku. Áfram ættu orkukostir að vera flokkaðir með tilliti til áhrifa á náttúru; menningu og minjar; og samfélag og efnahag. Orkufyrirtæki skulu nýta sem best þá raforku sem framleiða má á núverandi virkjanasvæðum raforku áður en leyfi verða veitt til virkjana sem hafa umtalsverð umhverfisáhrif á nýjum svæðum.

 

Vernda og efla þarf fiskistofna við Íslandsstrendur og auka eftirlit og eftirfylgni með sjálfbærum fiskveiðum þar sem brottkast er ekki stundað og skemmdir á vistkerfum hafsins lágmarkaðar. Móta þarf heildarstefnu um málefni hafsins með umhverfis- og loftslagsmál að leiðarljósi. Leggja þarf áherslu á stuðning við verðmætaskapandi og umhverfisvæna nýsköpun í ræktun sjávarafurða og tryggja að fiskeldi á landi og í sjó uppfylli strangar kröfur til dýravelferðar ásamt verndar umhverfis og lífríkis. Þannig verði dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum framleiðslunnar og hámarks útflutningsverðmæti hennar tryggt.

Komum á skilvirku og sjálfbæru hringrásarhagkerfi

Auðlindir eru takmarkaðar og Viðreisn telur það frumskyldu stjórnvalda að tryggja sjálfbærni við nýtingu þeirra. Urðun úrgangs á ekki að eiga sér stað á 21. öld heldur á allur efniviður að vera hluti af stöðugri hringrás, þar sem vörum og efni er haldið í notkun með endurnýtingu, endurvinnslu, viðgerðum og endursölu. Draga þarf markvisst úr myndun úrgangs jafnframt því að líta á hann sem verðmætt hráefni fyrir nýja vöru. Bann við urðun lífræns úrgangs skapar tækifæri til nýsköpunar og grænna starfa þar sem stjórnvöld styðja framleiðsluferla sem halda efni og orku inn í hringrásarhagkerfinu t.a.m. með bættum skilakerfum og úrvinnslugjöldum. Til þess að draga úr úrgangsmyndun verði stefnt að því að draga úr matarsóun um 60% árið 2030 miðað við 2021 með aukinni fræðslu og skilvirkari söfnun úrgangs. Það er hlutverk stjórnvalda að bæta eftirfylgni með endurvinnslu við innleiðingu á árangursríku flokkunarkerfi sem er samræmt yfir allt landið.

Vernd og endurheimt vistkerfa

Móta þarf heildstæða stefnu, í samráði við sérfræðinga, um sjálfbæra landnýtingu sem byggir á vernd vistkerfa- og jarðminja, tekur tillit til bættrar vatnsverndar, og rýrir ekki náttúrugæði landsins.

Náttúruvernd í öndvegi

Náttúra Íslands, með sína líffræðilegu og jarðfræðilegu fjölbreytni, er ein okkar dýrmætasta auðlind. Okkur ber því skylda til að vernda villta íslenskra náttúru og fjölbreytni landslagsins fyrir komandi kynslóðir. Besta leiðin til að halda utan um vernd og nýtingu villtrar náttúru er markviss auðlindastjórnun. Því þarf að halda áfram að friðlýsa svæði í samræmi við gildandi framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og efla og stækka þjóðgarða landsins. Sérstaklega þarf að vernda miðhálendið í þágu almannahagsmuna. Tryggja þarf fjármuni til rekstrar, verndar og landvörslu friðaðra svæða þannig að ágangur rýri ekki gildi svæðanna og að kynslóðir framtíðar fái notið heillandi fegurðar og heilnæmrar útivistar. Möguleg gjaldtaka verður að vera í góðri sátt við almenning og sveitarfélög. Jafnframt verði leitast við að styrkja byggð í nágrenni þjóðgarða og skapa atvinnu og aðstæður, í náinni samvinnu við sveitarfélög, fyrir fjölbreyttar rannsóknir. Nauðsynlegt er að koma umsjón með náttúruvernd, þjóðgörðum og friðlýstum svæðum undir eina stofnun til að samþætta ákvarðanatöku, auka skilvirkni og bæta nýtingu fjármagns.

 

Leggja þarf áherslu á alþjóðasamstarf um náttúruvernd t.d. með samningum á borð við Samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika, norrænt samstarf og evrópsk samstarfsverkefni. Sérstaklega þarf að leggja áherslu á vernd lífríkis og líffræðilegan fjölbreytileika á norðurslóðum. Efla þarf möguleika ungs fólks á að taka þátt í stefnumótun og ákvörðunum tengdum náttúruvernd og samþættingu verndar og sjálfbærrar auðlindanýtingar.

 

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Tryggjum eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum

Viðreisn styður  að gerðar verði verulegar endurbætur á stjórnarskránni  í sátt þings og þjóðar.  Litið verði til tillagna stjórnlagaráðs og annarra hugmynda sem komið hafa fram síðan.  Lögð verði áhersla á að ná fram raunhæfum breytingum sem tryggja eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindunum til framtíðar, með markaðsverði fyrir tímabundin afnot.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Sátt um sjávarútveginn

Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við viljum að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir. Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og seldur sem nýtingarsamningar til ákveðins tíma. Með samningum til 20-30 ára sé pólitískri óvissu eytt og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni staðfest. Með þessu fyrirkomulagi fæst sanngjarnt markaðsverð sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn innan greinarinnar, og umgjörð sjávarútvegs verður skýr, gagnsæ og stöðug til frambúðar. Það er vont fyrir útgerðina að búa við stöðuga pólitíska óvissu. Grundvallarhlutverk fiskveiðistjórnunarkerfis er að koma í veg fyrir ofveiði og tryggja þannig að nýting auðlindarinnar sé sjálfbær. Því hlutverki sinnir kvótakerfið vel. Innheimta veiðigjalda er hins vegar of flókin og ógagnsæ. Viðreisn leggur áherslu á dreifða eignaraðild í sjávarútvegi og auka gagnsæi með kröfum um skráningu á skipulögðum hlutabréfamarkaði fyrir fyrirtæki af ákveðinni stærð. Tryggja að vilji löggjafans um hámarkskvótaeign ráðandi aðila í sjávarútvegi sé virkur.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

 

Efnahagslegt jafnvægi

Sköpun verðmæta með hugviti og skynsamlegri nýtingu auðlinda til framtíðar eru nauðsynleg forsenda efnahagslegs stöðugleika, samkeppnishæfni og lífskjara sem skulu vera að minnsta kosti jafngóð og í nágrannalöndum Íslands. Efnahagslegu jafnvægi verður aðeins náð með stöðugum gjaldmiðli.

Náttúruauðlindir eru sameign þjóðarinnar og þær ber að nýta á sjálfbæran og skynsamlegan hátt. Greiða skal markaðsverð fyrir aðgang að þeim

Lestu grunnstefnu Viðreisnar hér