Grunnstefna í sveitarstjórnum

Samþykkt á sveitarstjórnarþingi Viðreisnar þann 30. janúar 2020

 

Öflug sveitarfélög

Styrkja þarf sveitarstjórnarstigið með sameiningu og samvinnu sveitarfélaga. Öflug sveitarfélög eru betur í stakk búin til að takast á við lögbundin verkefni og færa þannig þjónustu og ákvarðanatöku nær íbúum. Auka þarf aðkomu sveitarfélaga að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð.

 

Fjármál og rekstur

Við viljum sjálfbæran rekstur sveitarfélaga. Við viljum hóflegar álögur á íbúa og fyrirtæki og tölum fyrir skattalækkunum þegar við á. Sveitarfélög eiga ekki að standa í samkeppnisrekstri. Við tölum fyrir opnu bókhaldi sveitarfélaga.

Fagleg stjórnun

Við viljum gagnsæi í stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Aðskilnaður milli stjórmálanna og faglegrar stjórnsýslu þarf að vera skýr. Stjórnsýslan þarf að vera einföld og að fullu stafræn. Við sækjum innblástur í alþjóðlegar fyrirmyndir og stefnur. Sveitarfélög taki mið af heimsmarkmiðum og Barnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við setjum fram mælanleg markmið til að tryggja yfirsýn og auðvelda faglega ákvarðanatöku.

Fræðslumál

Við styðjum fjölbreytt rekstrarform í menntakerfinu. Við viljum að börnum sé tryggð dagvistun frá 12 mánaða aldri. Nám- og kennsluhættir skulu vera fjölbreyttir og gera skal skapandi- og starfstengdu námi hærra undir höfði. Styðja skal sérstaklega við börn með ólíka færni og börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Velferð

Velferð allra íbúa er grunnur að góðu samfélagi. Við styðjum sjálfstæði og sjálfsvirðingu einstaklinga og styðjum þá til virkni. Gera þarf fólki kleift að búa á eigin heimili eins og hægt er. Í samstarfi við ríkið þarf að fjölga hjúkrunarrýmum. Öll sveitarfélög taki þátt í lausn húsnæðisvanda þeirra sem aðstoð þurfa. Við leggjum áherslu á forvarnir og barnvæn sveitarfélög. Fræðslu- og velferðaryfirvöld eiga að starfa saman með þarfir barna að leiðarljósi.

Umhverfi

Við styðjum vistvænar samgöngur og eflingu almenningssamgangna og tölum fyrir kolefnishlutleysi. Við styðjum við markmið Parísarsáttmálans í loftslagsmálum og hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Einfalda þarf ferla í skipulagsmálum til að flýta uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis. Við hönnun og skipulag skal unnið eftir hugmyndafræði algildrar hönnunar og tryggja að ný hverfi og mannvirki séu aðgengileg öllum.

Menning og íþróttir

Sveitarfélög styðji við heilsueflingu og lýðheilsu í sinni víðustu mynd. Við styðjum að börn geti valið sér frístund við sitt hæfi í gegnum frístundastyrki. Huga þarf sérstaklega að stöðu barna af erlendum uppruna. Við viljum öflugt og faglegt samstarf við íþróttahreyfinguna. Við styðjum við sjálfstæða listamenn og sjálfstæð menningarfélög. Við viljum öfluga samkeppnissjóði á sviði menningar og lista. Við vinnum saman með hagaðilum til að tryggja jafnrétti á sviði menningar og íþrótta.

Fjölbreytni og alþjóðasamstarf

Við vinnum að jafnrétti og gegn hvers kyns fordómum og ofbeldi. Við styðjum fjölbreytni mannlífs, vinnum að því að móta jákvæð viðhorf til fjölmenningar og til þess byggja brýr milli menningarheima. Þjónusta sveitarfélaga taki mið af fjölbreyttum bakgrunni íbúa. Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á ensku og fleiri tungumálum. Stutt er við móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna. Störf á vegum sveitarfélaga skulu standa öllum til boða og unnið gegn óeðlilegum hindrunum á vinnumarkaði. Við styðjum virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi sveitarfélaga og sveitarstjórnarfólks.

Gildi og samstarf

Við erum málefnaleg, hófstillt og traust. Við erum vakandi fyrir þörfum íbúa á hverjum stað. Við látum málefnastöðu ráða samstarfi og höfum almannahagsmuni ávallt að leiðarljósi.

Flokkar
Málefnin
Merkingar
Frjálslyndi, Jafnrétti, Sveitarfélög, umhverfi, Velferð