Viðreisn stendur fyrir frjálst og neytendavænt þjóðfélag. Mikilvægt er að fólki sé frjálst að búa og starfa þar sem það kýs. Hið opinbera á ekki að standa í vegi fyrir fólki heldur greiða því veginn. Neytendur skulu ávallt vera í forgrunni.
Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Auka má vöruúrval og stuðla að lækkuðu vöruverði með endurskoðun tolla og með aðild að Evrópusambandinu. Einu afskipti ríkisins af samkeppnismarkaði ættu að vera virkt samkeppniseftirlit og öflug neytendavernd að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar markaða og upplýsingum til neytenda. Samkeppnislög skulu taka til allra atvinnugreina. Ríkið á ekki að starfa á smásölumarkaði, þar með talið áfengismarkaði, eða að vörudreifingu. Bændur geti selt afurðir sínar beint til neytenda án hindrana af hálfu hins opinbera. Auka skal gegnsæi í fasteignaviðskiptum með ástandsskoðun fasteigna og seljendatryggingu.
Stofnanir ríkisins eiga að þjónusta almenning. Almenningur er neytandi þjónustu hins opinbera og kerfið á að starfa fyrir almenning en ekki í þágu stofnanna sjálfra. Gera skal þjónustu hins opinbera aðgengilega með auknum rafrænum lausnum og laga regluverk þannig að rafrænar lausnir séu viðurkenndar.
Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér
Tengja þarf loftslagsmálin þvert á fagráðuneyti svo þau endurspeglist í ákvörðunum í öllum málaflokkum. Áhersla verði lögð á að laga stjórnsýsluna að mikilvægi málaflokksins með því að meta loftslagsáhrif frumvarpa og samþætta og bæta samráð stjórnsýslu í loftslagsmálum með auknu samstarfi jafnt innanlands og erlendis. Þá þarf að auka framboð loftslagsvænni matvæla innan opinberra stofnana enda hið opinbera vel til þess fallið að vera neytendum fyrirmynd í umhverfisvænni neyslu.
Með rekjanlegu kolefnisspori vöru geta neytendur tekið upplýstari ákvarðanir um val á vöru m.t.t. loftslagsáhrifa hennar. Þar með verði hægt að draga úr neysludrifinni losun. Mengunarbótareglan er grunnstefið, þ.e. að þeir sem menga axli ábyrgð og greiði gjald í samræmi við umfang og eðli losunar sem þeir valda. Styrkja þarf ábyrgð framleiðenda með því að setja fleiri efnisflokka þar undir, svo að tryggja megi að greitt sé fyrir endanlegan frágang úrgangs og þar sé miðað við hringrásarhugsunina, með skynsemi og hagsýni að leiðarljósi.
Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðar og auðvelda bændum framleiðslu heilnæmra og fjölbreyttra landbúnaðarafurða, í sátt við umhverfið. Að endurskoðuninni þurfa allir að koma sem á einhvern hátt tengjast landbúnaði og annarri landnýtingu. Beit á mjög viðkvæmum gróðursvæðum verði stöðvuð sem fyrst og skynsamleg takmörk sett á lausagöngu búfjár. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengt. Kerfið styðji fjölbreytta og umhverfisvæna framleiðslu með áherslu á aukið frelsi, taki tillit til breyttra neysluvenja, stuðli að bættum hag bænda og neytanda og ýti undir nýliðun í röðum bænda.
Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér
Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað. Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.
Lestu efnahagsstefnu Viðreisnar hér
Við setjum hagsmuni neytenda í öndvegi.
Samvinna þjóða tryggir og ver mannréttindi, stuðlar að friði, er nauðsynleg til að taka á umhverfismálum, bætir vernd neytenda og tryggir betur réttindi launafólks.