Samkeppni, sjálfbærni, jafnrétti og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri. Viðreisn treystir frjálsum markaði almennt til að skila bestum ábata fyrir fólkið í landinu. Stjórnvöld skulu búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði og draga úr efnahagssveiflum. Í því ljósi þarf að einfalda regluverk og minnka flækjustig í leyfisveitingum á vegum hins opinbera. Tryggja þarf góðar samgöngur, öfluga nettengingu og öruggt rafmagn um allt land. Það er forsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar og fjölgunar tækifæra á Íslandi. Samkeppnishæfur gjaldmiðill er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs.

 

Nýsköpun er forsenda framfara

Viðreisn vill koma á mælaborði nýsköpunar sem mælir árangur af nýsköpunarstarfi. Ekki einungis endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar heldur einnig afrakstur starfsemi nýsköpunarfyrirtækja á borð við fjölda starfa, fjárfestingar (erlendar og innlendar), veltu og tekjur. Við veitingu styrkja skal gæta jafnræðis og stuðla að samkeppni. Styðja á við sprotastarfsemi frá hugmynd til markaðsvöru, með áherslu á sjálfbærni. Samkeppnishæfur gjaldmiðill er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs, byggða, verðmætasköpunar, kaupmáttar og lífskjara. Sprotafyrirtæki treysta á fjármagn frá erlendum fjárfestum sem vilja ekki fjárfesta í krónuhagkerfi. Mikilvægt er að nýta krafta nýsköpunar til þess að finna lausnir til að draga úr loftslagsvanda og öðrum umhverfisvanda. Nota skal hagræna hvata til að umbuna þeim fyrirtækjum sem eru græn í sínum rekstri.

 

Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land

Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar í íslensku samfélagi. Nýsköpun í þágu sjálfbærni, fæðuöryggis og umhverfisverndar mun stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum. Stjórnvöld verða að tryggja jöfn skilyrði um allt land til vaxtamöguleika til atvinnusköpunar. Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og framleiðniaukningar í opinberum rekstri. Stuðla ætti að auknum sveigjanleika á vinnumarkaði með því að byggja frekar undir möguleika á fjarvinnu.

 

Fjölgum kjölfestugreinum útflutningstekna

Uppbygging alþjóðlegs þekkingariðnaðar og atvinnulífs er leiðin að aukinni hagsæld. Móta þarf atvinnu- og iðnaðarstefnu til lengri tíma þar sem skýrt kemur fram í hvaða atvinnu og grænum iðnaði sækja skal fram og hvernig verður stutt við þá sókn af hinu opinbera. Við getum ekki verið með öll eggin áfram í sömu körfu. Þær kjölfestugreinar sem við höfum treyst hvað mest á eiga það allar sammerkt að vera háðar ytri áhrifum og því áhætta fólgin í því að leggja allt okkar traust á þær. Þekking og hugvit eru vannýttar auðlindir sem þarf að virkja betur til framtíðar. Nýsköpun á ekki, og má ekki, eingöngu vera kreppuviðbragð sem er vanrækt þegar uppsveifla hefst á ný. Uppbygging þekkingar- og hugvitsgreina þarf að vera stöðugt viðfangsefni með það fyrir augum að búa til umhverfi þar sem þær geta blómstrað til frambúðar.

 

Öflugri og sjálfbærari landbúnaður

Viðreisn leggur áherslu á að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins til að að efla greinina og gera hana sjálfbærari. Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun með stuðningi við verkefni á borð við skógrækt, lífrænan landbúnað, landgræðslu, vöruþróun, endurheimt votlendis, smávirkjanir og ferðaþjónustu.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi, m.a. með uppbyggingu alþjóðlegra atvinnugreina

Viðskipta- og atvinnufrelsi þarf að ríkja á öllum mörkuðum fyrir vöru og þjónustu. Búa þarf atvinnurekstri stöðugt viðskiptaumhverfi, með stöðugan gjaldmiðil, til að tryggja samkeppnishæfni, verðmætasköpun og hagvöxt. Með því móti verður til nýsköpun og þróttmikið atvinnulíf sem skapar ný og fjölbreytt störf.  Einhæfni í atvinnulífi skapar hættu á sveiflum og gerir hagkerfið viðkvæmara fyrir áföllum. Margs konar tækifæri eru til nýsköpunar á Íslandi. Stuðla þarf að því að þau verði gripin. Stöðugleiki skiptir þar mestu máli, en einnig stuðningur við nýsköpun með styrkjum og hvötum til fjárfestinga í nýsköpun.

 

Markaðslausnir sem treysta hagsmuni almennings

Lög og reglur skulu stuðla að samkeppni, aukinni nýsköpun og öflugu atvinnulífi. Hið opinbera dragi sig út úr samkeppnisrekstri og gefi einkaaðilum kost á að starfa samhliða hinu opinbera, til að ná fram hagræðingu til að tryggja góða og aðgengilega þjónustu fyrir almenning með sem lægstum tilkostnaði.

Lestu efnahagsstefnu Viðreisnar hér

 

Sjálfbær nýting auðlinda

Stöðugleiki næst aðeins með samþættingu umhverfislegra, hagrænna og félagslegra þátta við allar ákvarðanir tengdar auðlindanýtingu. Hagkerfið þarf að hvíla í auknum mæli á stoðum sem rýra ekki gæði umhverfisins. Nútímalegt velsældar samfélag þarf að vera samkeppnishæft og kolefnishlutlaust þar sem neikvæð áhrif á umhverfið og rýrnun náttúrugæða verði síður forsenda hagvaxtar. Þetta verði m.a. gert með áherslu á nýsköpunarstyrki í loftslagstengdum verkefnum og að raforkuvinnsla stuðli að grænni atvinnuuppbyggingu.

 

Leggja þarf áherslu á að flokkaður úrgangur verði að nýjum vörum og styðja við græna nýsköpun í endurvinnslu. Samhliða því þarf efnahagslega hvata sem styðja við deilihagkerfið. Stefnt verði að því að vinna aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfið með árangursvísum til þess að tryggja framgang hugmyndafræðinnar. Stefnt verði að því að meta árangurinn og styðja fjárlagagerð með alþjóðlega viðurkenndum velsældarvísum sem taka mið af öllum stólpum sjálfbærrar þróunar. Áhersla verði lögð á gagnsæa miðlun upplýsinga samhliða auknu samráði við almenning í umhverfismálum.  Stórefla þarf fræðslu um hugmyndafræði hringrásarsamfélagsins, úrgangsforvarnir og bætta framleiðsluhætti. Koma þarf á kerfi, með efnahagslegum hvötum og merkingum, sem hvetur til framleiðslu á endingargóðum vörum, þar sem viðgerðir verði að hagkvæmum og raunhæfum valmöguleika.

 

Leggja þarf áherslu á stuðning við verðmætaskapandi og umhverfisvæna nýsköpun í ræktun sjávarafurða og tryggja að fiskeldi á landi og í sjó uppfylli strangar kröfur til dýravelferðar ásamt verndar umhverfis og lífríkis. Þannig verði dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum framleiðslunnar og hámarks útflutningsverðmæti hennar tryggt.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

 

Auka á aðkomu sveitarfélaga að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð ásamt því að veita stærri styrki til nýsköpunar, menningarstarfs og þróunar á landsbyggðinni.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér