- Stjórn viðkomandi Viðreisnarfélags skipar uppstillingarnefnd og skal gæta þess að nefndarmenn hafi sem víðtækust og fjölbreyttust tengsl.
- Hver framboðslisti skal skipaður jafnmörgum konum og körlum og skal skipting að jafnaði vera kona, karl, kona, karl eða öfugt (fléttulisti).
- Í efstu fjórum sætum hvers lista skal leitast við að hafa fólk með reynslu á mismunandi sviðum og á mismunandi aldri. Allir sem þessi sæti skipa skulu hafa þekkingu og hæfileika til þess að skipa sæti í sveitarstjórn að dómi nefndarmanna.
- Mikilvægt er að horfa til aldursdreifingar, menntunar og reynslu í því samhengi að listinn í heild endurspegli fjölbreytni samfélagsins. Gæði hópsins í heild skulu höfð að leiðarljósi og þess gætt að frambjóðendur hafi lífssýn í samræmi við stefnu Viðreisnar og að þeir myndi góða liðsheild.
- Framboðslistann skal skipa tvöföldum fjölda aðalmanna sem kjósa á í sveitarstjórn.[1]
- Fullbúnum framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann.
- Uppstillingarnefnd getur krafist ítarlegra upplýsinga um frambjóðendur og kallað þá til viðtals. Allar óskir sem berast til uppstillingarnefndar um að taka sæti á lista skal taka til skoðunar og þeim svarað. Ræða skal við alla sem gefa kost á sér í fjögur efstu sætin.
- Uppstillingarnefndir skulu haga störfum sínum þannig að vinnulag einkennist af gegnsæi, jafnræði og virðingu fyrir öllum áhugasömum um starfið.
- Nefndarmenn skulu ekki stilla eigin nöfnum á framboðslistann. Hafi viðkomandi hug á því að taka sæti þá segir hann/hún sig úr nefndinni.
- Uppstillingarnefnd skal bera tillögu sína að framboðslista undir félagsfund til samþykktar eða synjunar. Sé tillögu uppstillingarnefndar synjað ber að endurtaka uppstillingu.
- Staðfesting stjórnar Viðreisnar á framboðslista flokksins í heild þarf að liggja fyrir áður en hann er borinn fram í nafni flokksins.
Samþykkt af stjórn Viðreisnar hinn 16. febrúar 2018
[1] Skv. 26. grein laga um kosningar til sveitarstjórna (nr. 5/1998) þá „skulu vera að minnsta kosti jafnmörg nöfn frambjóðenda og kjósa á sem aðalmenn í sveitarstjórn í hvert skipti, en aldrei fleiri en tvöföld sú tala” á framboðslistanum en reynslan sýnir að flokkar bjóða að jafnaði fram lista með tvöföldum fjölda aðalmanna.