Samþykktir

Samþykktir Viðreisnar

– Starf, starfshættir og stefnumótun

Samþykktar á landsþingi Viðreisnar 11. febrúar 2023

 

1 Heiti og markmið

1.1. Heiti stjórnmálasamtakanna (flokksins) er Viðreisn. Samtökin starfa á landinu öllu en heimili og varnarþing er að Ármúla 42, Reykjavík.

 

1.2. Markmið Viðreisnar er að berjast fyrir réttlátu samfélagi, jafnrétti, stöðugu efnahagslífi, viðskiptafrelsi og þátttöku Íslands í vestrænni samvinnu, með frjálslyndi að leiðarljósi.

 

1.3. Tilgangi sínum nær Viðreisn með því að bjóða fram til Alþingis og sveitastjórna í öllum kjördæmum og hafa þannig áhrif á gerð samfélagsins.

 

1.4. Viðreisn gætir fyllsta jafnréttis kynjanna og jafnræðis innan sem utan flokksstarfs.

 

1.5. Viðreisn skal setja sér almenn viðmið um leiðir, gildi og leikreglur í flokksstarfi.

 

2 Félagar

2.1. Félagar geta allir orðið sem styðja grunnstefnu flokksins, sbr. grein 1.2., og eru ekki félagar í öðrum stjórnmálaflokkum á Íslandi. Fullgildir félagar Viðreisnar þurfa að hafa náð 16 ára aldri.

 

2.2. Inntökubeiðnir og úrsagnir skulu tilkynntar skriflega eða með rafrænum hætti af viðkomandi til skrifstofu Viðreisnar.

 

2.3. Aðeins fullgildir félagar eiga atkvæðisrétt um málefni flokksins.

 

2.4. Allir sem taka sæti á framboðslista fyrir Viðreisn eða veljast til trúnaðarstarfa verða að eiga fullgilda aðild að flokknum og hafa náð lögræðisaldri. Taki félagi sæti á framboðslista annars framboðs eða gangi opinberlega til liðs við annan stjórnmálaflokk/-samtök telst það jafnframt vera úrsögn úr Viðreisn.

 

2.5 Félagar í Viðreisn gæta ávallt virðingar og jafnræðis í orðum og athöfnum í flokksstörfum, í samræmi við orðfæri Viðreisnar.

 

3 Skipulag

3.1. Félagar eiga beina og milliliðalausa félagsaðild að Viðreisn.

 

3.2. Viðreisn starfrækir málefnaráð, sem hefur það hlutverk að leiða stefnumótun og afmörkun einstakra mála og málaflokka á landsvísu, og landshlutaráð, sem halda utan um félagsstarf flokksins, hvert í sínu kjördæmi. Tilgangur málefnaráðs er að halda utan um og efla grasrótarstarf, vinna úr tillögum félaga og móta áyktanir þess efnis fyrir landsþing. Málefnaráð skal gæta hlutleysis við mat á mismunandi skoðunum og leita leiða við að samhæfa álit félaga.

 

3.3. Ályktanir skulu unnar af málefnaráði fyrir landsþing eftir aðkomu grasrótar og allra félaga að málefnastarfi og skulu þær liggja til grundvallar ákvörðunum um stefnu Viðreisnar á einstökum sviðum. Öllu félagsfólki er frjálst að leggja fram eigin ályktanir eða breytingartillögur á ályktunum fyrir Landsþing óháð starfi málefnaráðs.

 

3.4. Málefnaráð er skipað sex fulltrúum og tveim varamönnum, kjörnum á landsþingi og varaformanni flokksins, sem skal vera formaður málefnaráðs. Málefnaráð hefur yfirumsjón með málefnavinnu flokksins. Málefnaráð kýs sér varaformann og ritara. Markmið málefnaráðs er að virkja grasrót flokksins, efla innra starf og hvetja til áframhaldandi stefnumótunarvinnu og ályktanagerða. Til þess skal málefnaráð setja sér starfsreglur. Þá vinnur málefnaráð starfsáætlun í samráði við grasrót.

 

3.5. Þátttaka í starfi sem málefnaráð skipuleggur er opið öllum félögum í Viðreisn. Málefnaráð ákveður tímasetningu og dagskrá funda og kynnir með áberandi hætti fyrir félögum.

 

3.6. Stjórn Viðreisnar skal eiga að minnsta kosti tvo fundi á ári með málefnaráði, að jafnaði í janúar og ágúst. Sérstaklega skal boða slíka fundi í aðdraganda alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga. Boða skal til slíkra funda með minnst viku fyrirvara að jafnaði.

 

3.7. Landshlutaráð skulu vera fimm: Reykjavíkurráð, Suðvesturráð, Norðvesturráð, Norðausturráð og Suðurráð. Þau taka hvert til eins kjördæmis nema Reykjavíkurráðið, sem nær til beggja Reykjavíkurkjördæma. Landshlutaráð eru skipuð öllum félögum í viðkomandi kjördæmi.

 

3.8. Landshlutaráð halda uppi félagsstarfi og fjalla um málefni síns landshluta og önnur verkefni, s.s. umsjón framboðslista, sbr. grein 7.1. Stjórn landshlutaráðs boðar fundi ráðsins minnst árlega. Sérstaklega skal boða fundi í aðdraganda alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga.

 

3.9. Hvert landshlutaráð kýs sér stjórn sem skipuð er fjórum fulltrúum auk formanns. Stjórn Viðreisnar setur landshlutaráðunum og undirfélögum þeirra, skipulags- og starfsreglur.

 

3.10. Heimilt er, með samþykki stjórnar, að stofna og starfrækja félög innan landshlutaráða og skal þá hvert félag taka minnst til eins sveitarfélags. Slíkum félögum er heimilt að stofna hverfafélög.

 

3.11. Félagar í Viðreisn eru skráðir í það aðildarfélag Viðreisnar sem lögheimili þeirra segir til um. Félagar sem eiga heimilisfesti utan lögheimilis tilkynna skrifstofu Viðreisnar hvaða aðildarfélagi þeir kjósa að tilheyra.

 

3.12. Heimilt er með samþykki stjórnar að stofna sérfélög sem starfa á landsvísu. Hlutverk slíkra sérfélaga er að skapa umræðuvettvang um tiltekin áhugasvið og viðfangsefni. Aðeins eitt sérfélag hverrar tegundar getur starfað á landsvísu.

 

3.13. Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar á landsvísu, skal sinna málefnastarfi ungs fólks og vera málsvari þeirra í innra starfi flokksins. Um Uppreisn gilda að öðru leyti ákvæði greinar 3.15.

 

3.14. Öldungaráð Viðreisnar skal sinna málefnastarfi eldra fólks og vera málsvari þeirra í innra starfi flokksins. Um Öldungaráðið gilda að öðru leyti ákvæði greinar 3.15.

 

3.15. Sérfélög skulu setja sér starfsreglur, halda árlega aðalfund og hafa að minnsta kosti þrjá stjórnarmenn. Þau skulu árlega senda skrifstofu Viðreisnar upplýsingar um stjórn og stutt yfirlit um starfsemi sína. Sérfélög ráða fjárhag sínum og málefnum sjálf, í samræmi við starfshætti og stefnu Viðreisnar.

 

3.16. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur skrifstofu Viðreisnar og annast félagatal í samræmi við reglur sem stjórn setur. Hann sér til þess að samþykktum Viðreisnar sé fylgt. Skrifstofan veitir félagsmönnum og frambjóðendum almennan stuðning og ráðgjöf. Framkvæmdastjóri skal sjá til þess að skrifstofa Viðreisnar setji sér mannauðs- og jafnréttisstefnu.

 

3.17. Stjórn Viðreisnar skipar þrjá í Laganefnd eftir hvert landsþing, formann og tvo nefndarmenn. Þeir sem setu eiga í Laganefnd geta ekki sinnt öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Laganefnd leysir úr ágreiningi sem kann að koma upp um túlkun samþykkta á vegum flokksins og veitir ráðgjöf um önnur lögfræðileg álitamál.

 

3.18. Stjórn Viðreisnar skipar tveggja manna trúnaðarráð, ekki samkynja, eftir hvert landsþing. Trúnaðarráð tekur við kvörtunum og ábendingum vegna bresta í samskiptum innan flokksins, s.s. mismunun, áreitni eða einelti, og kemur málum í farveg úrlausnar. Trúnaðarráð er óháð í sínum störfum og getur leitað aðstoðar utanaðkomandi sérfræðinga. Trúnaðarráð setur starfsreglur fyrir trúnaðarráðið.

 

4 Landsþing

4.1. Landsþing hefur æðsta vald í öllum málefnum Viðreisnar.

 

4.2. Landsþing skal halda annað hvert ár. Stjórn undirbýr landsþing, ákveður stað, tíma og dagskrá þingsins.

 

4.3. Stjórn skal boða til landsþings með tölvupósti til skráðra félaga og á vefsvæði flokksins með að minnsta kosti þriggja vikna fyrirvara.

 

4.4. Á landsþingi skulu eftirfarandi mál ætíð tekin fyrir:

 

4.4.1. Skýrsla formanns Viðreisnar.

4.4.2. Drög að ályktunum.

4.4.3. Skýrsla framkvæmdastjóra um rekstur flokksins.

4.4.4. Kosning formanns.

4.4.5. Kosning varaformanns.

4.4.6. Kosning ritara

4.4.7. Kosning fjögurra meðstjórnenda og tveggja varamanna.

4.4.8. Kosning sex fulltrúa í málefnaráð auk tveggja varamanna.

4.4.9. Kosning endurskoðanda.

4.4.10. Breytingar á samþykktum Viðreisnar.

4.4.11. Afgreiðsla stjórnmálaályktunar.

 

4.5. Framkvæmd kosninga annast þriggja manna kjörstjórn sem skipuð er af stjórn eigi síðar en viku fyrir landsþing. Fundargögn, þ.á m. drög málefnanefnda að ályktunum, skulu liggja fyrir minnst viku fyrir landsþing. Allir sem eiga aðild að Viðreisn geta lagt fram tillögur að ályktunum fyrir landsþingið.

 

4.6. Einfaldur meirihluti ræður öllum málum nema breytingum á samþykktum og falli atkvæði jafnt nær mál ekki fram. Um breytingar á samþykktum fer samkvæmt 11. kafla.

 

4.7. Kjörgengir á landsþingi eru fullgildir félagar. Þeir hafa þar tillögu- og atkvæðisrétt hafi þeir verið skráðir í flokkinn minnst viku fyrir landsþing og skráð sig til setu á landsþingi með fullnægjandi hætti. Stjórn er heimilt að innheimta þóknun fyrir fundar- og kjörgögn á landsþingi.

 

4.8. Framboðsfrestur til formanns Viðreisnar, varaformanns , ritara, stjórnar Viðreisnar, stjórnar málefnanefnda og fulltrúa í málefnaráð er þar til klukkustund áður en kosning hefst á landsþingi.

 

4.9. Kosning til formanns, varaformanns, ritara, stjórnar og annarra embætta skal vera skrifleg og leynileg. Kjörstjórn ber ábyrgð á því að útbúa kjörgögn. Kjörstjórn ber ábyrgð á talningu atkvæða fyrir luktum dyrum.

 

4.10. Formaður Viðreisnar skal kosinn með að minnsta kosti helmingi greiddra atkvæða. Nái enginn frambjóðandi meirihluta atkvæða skal kosið aftur á milli tveggja efstu.

 

4.11. Falli atkvæði jöfn í kosningum til stjórnar og annarra embætta skal líta til kynjahlutfalla við ákvörðun um hver hljóti kjör. Falli atkvæði jöfn milli frambjóðenda af sama kyni skal hlutkesti ráða því hver hlýtur kjör.

 

4.12. Stjórn Viðreisnar getur boðað til aukalandsþings þegar nauðsyn krefur. Heimilt er að hafa öll sömu mál á dagskrá og á hefðbundnu landsþingi, en ekki skylt. Boða skal aukalandsþing með minnst tveggja vikna fyrirvara.

 

4.13. Þau ár sem landsþing er ekki haldið skal halda stöðuþing. Á dagskrá þess skal vera: Skýrsla formanns, afgreiðsla stjórnmálaályktunar og önnur mál sem stjórn setur á dagskrá. Á stöðuþingi skal jafnframt kosið til embætta, hafi þau losnað frá síðasta landsþingi.

 

5 Stjórn og framkvæmdastjórn

5.1. Stjórn Viðreisnar skal skipuð formanni, varaformanni, fulltrúa úr stjórn Uppreisnar, fulltrúa úr stjórn málefnaráðs og fimm meðstjórnendum sem kjörnir eru á landsþingi. Tveir varamenn skulu einnig kosnir. Meðstjórnendur skulu ekki vera alþingismenn. Formaður og varaformaður skulu ekki vera af sama kyni. Meðstjórnendur skulu ekki vera fleiri en þrír af sama kyni og varamenn skulu ekki vera af sama kyni. Fulltrúi úr stjórn málefnaráðs skal ekki vera af sama kyni og meirihluti meðstjórnenda.

 

5.2. Stjórn fer með yfirstjórn flokksins í samræmi við samþykktir þessar og aðrar reglur flokksins. Hún ber ábyrgð á öllu innra starfi flokksins, hefur eftirlits- og úrskurðarvald um ákvarðanir á vegum hans, hefur umráð yfir eignum og gætir þess að settum reglum sé fylgt. Varaformaður sinnir sérstaklega uppbyggingu málefnastarfs. Ritari sinnir sérstaklega undirfélögum Viðreisnar og stækkun flokksins.

 

5.3. Stjórn hefur úrskurðarvald milli landsþinga um allt málefnastarf flokksins og ber að tryggja að öll starfsemi flokksins sé í samræmi við samþykktir hans, stefnuskrá og ályktanir landsþinga.

 

5.4. Stjórn semur skýrslu stjórnar um starf flokksins og leggur fyrir landsþing til umræðu. Hún fjallar árlega um reikninga flokksins, sem framkvæmdastjóri skal bera undir hana til samþykktar.

 

5.5. Formaður boðar fundi í stjórn eins oft og þurfa þykir. Formaður boðar til funda ef einstakir stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri óska þess. Fundarboðun skal vera með tölvupósti og að jafnaði með a.m.k. viku fyrirvara nema aðstæður kalli á skemmri frest. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnarinnar. Formaður þingflokks Viðreisnar hefur seturétt á stjórnarfundum.

 

5.6. Stjórn ræður framkvæmdastjóra og veitir honum prókúru. Framkvæmdastjóri ræður starfsfólk á skrifstofu Viðreisnar. Ráðið sé í störf innan flokksins með auglýsingu.

 

5.7. Stjórn kýs sérstaka þriggja manna framkvæmdastjórn til að annast daglegan rekstur flokksins og fjárreiður með framkvæmdastjóra. Stjórn skal vera upplýst um ráðstafanir framkvæmdastjórnar komi fram ósk um það.

 

5.8. Fundir stjórnar eru löglegir þegar meirihluti stjórnar er mættur.

 

6 Ráðgjafaráð

6.1. Ráðgjafarráði er ætlað að vera stjórn flokksins til ráðgjafar um málefni sem formaður sbr. ákvæði 6.5., eða fulltrúar ráðsins sbr. ákvæði 6.6. óska eftir að verði tekin til umfjöllunar í ráðinu.

 

6.2. Í ráðgjafaráði eiga sæti stjórn Viðreisnar, varamenn stjórnar, þingflokkur, varaþingmenn, sveitastjórnarmenn og varamenn þeirra í sveitastjórnum,  málefnaráð, stjórn Uppreisnar, stjórn öldungaráðs, stjórnir landshlutaráða, formenn félaga, laganefnd, framkvæmdastjóri flokksins og framkvæmdastjóri þingsflokks. Aðrir starfsmenn flokksins hafa seturétt á ráðgjafaráðsfundum. Allir flokksfélagar sem gegnt hafa embætti formanns og varaformanns flokksins halda sæti sínu í ráðgjafaráði.

 

6.3. Formaður Viðreisnar er jafnframt formaður ráðgjafaráðs. Hann boðar til fundar að jafnaði með viku fyrirvara.

 

6.4. Tillögur sem leggja skal fyrir ráðgjafaráð skal skila til stjórnar Viðreisnar fimm dögum fyrir fund, verði því við komið.

 

6.5. Ráðgjafaráðsfundi skal halda þegar formaður ákveður eða þegar ósk kemur fram samkvæmt ákvæði 6.6.

 

6.6. Óski fimm eða fleiri fulltrúar í ráðgjafaráði eftir fundi skal hann boðaður svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan þriggja vikna frá því að skrifleg beiðni þar um er send formanni ráðgjafaráðs.

 

7 Framboð

7.1. Landshlutaráð annast framboðslista Viðreisnar til Alþingis.

 

7.2. Ákvörðun um hvaða aðferð er beitt við skipan framboðslista er í höndum landshlutaráðs. Stefnt skal að prófkjöri um val á efstu sætum framboðslista, nema landshlutaráð ákveði annað. Framkvæmd prófkjörsins er í höndum uppstillingarnefndar sem starfar samkvæmt verklagsreglum sem stjórn Viðreisnar setur. Þessar reglur skulu birtar áður en starf uppstillingarnefnda hefst.

 

7.3. Jafnt kynjahlutfall sé í efstu sætum, þó með því fráviki frá fléttulista að tveir einstaklingar af sama kyni geta verið hvor á eftir öðrum í fjórum efstu sætum.

 

7.4. Auglýst verði eftir frambjóðendum í uppstillingarnefndir með að minnsta kosti viku fyrirvara. Í fundarboði vegna kosningar uppstillingarnefndar komi fundarefni skýrt fram í fyrirsögn.

 

7.5. Formaður uppstillingarnefndar er talsmaður nefndarinnar. Nefndarmenn í uppstillingarnefndum skulu skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu.

 

7.6. Uppstillingarnefndarmenn geta ekki skipað eitt af átta efstu sætum á neinum framboðslistum.

 

7.7. Uppstillingarnefnd skal bera tillögu sína að framboðslista undir landshlutaráð til samþykktar eða synjunar. Sé tillögu uppstillingarnefndar synjað af landshlutaráði ber að endurtaka uppstillingu.

 

7.8. Ef prófkjöri er ekki beitt skv. grein 7.2 skal fara að þeim reglum sem stjórn Viðreisnar setur um þá aðferð við val á lista. Um samþykki slíkra lista fer með sama hætti og skv. grein 7.7.

 

7.9. Sérfélög innan landshlutaráðs í hverju sveitarfélagi skulu annast framboð Viðreisnar til sveitarstjórnar. Sambærilegur háttur skal hafður við val á frambjóðendum til sveitarstjórna og til Alþingis, sbr. greinar 7.2 til 7.8.

 

7.10. Staðfesting stjórnar Viðreisnar á framboðslista í heild þarf að liggja fyrir áður en hann er borinn fram í nafni flokksins.

 

8 Þingflokkur

8.1. Þingmenn Viðreisnar mynda þingflokkinn. Þingflokkurinn kýs sér stjórn, skipuleggur störf sín og mótar afstöðu til mála á Alþingi á grundvelli stefnu flokksins og samþykkta landsþings.

 

8.2. Formaður, varaformaður, fulltrúi ungliðahreyfingar úr stjórn, framkvæmdastjóri þingflokks auk framkvæmdastjóra Viðreisnar eiga seturétt á þingflokksfundum.

 

8.3. Meiriháttar ákvarðanir um samstarf við aðra flokka, myndun eða slit ríkisstjórnar tekur þingflokkurinn í samráði við ráðgjafaráð Viðreisnar.

 

9 Sveitastjórnarráð

9.1. Sveitarstjórnarráð er samstarfsvettvangur fulltrúa Viðreisnar í sveitastjórnum og er Viðreisn til ráðuneytis um sveitarstjórnarmál. Sveitarstjórnarráð fjallar um sameiginlega stefnumótun í málefnum sveitarfélaga í samræmi við stefnu Viðreisnar.

 

9.2. Sveitarstjórnarráð er skipað öllum aðal- og varafulltrúum í sveitarstjórnum auk þeirra sem eiga sæti í nefndum sveitastjórna sem eru flokksbundnir í Viðreisn, framkvæmdastjóri flokksins, og starfsmaður Sveitarstjórnarráðs.

 

9.3. Sveitarstjórnarráð kýs sér formann og fjögurra manna stjórn á 2ja ára fresti, mótar starfsreglur og skipuleggur störf sín.

 

10 Fjárreiður

10.1. Reikningsár Viðreisnar er almanaksárið. Ár hvert skal framkvæmdastjóri í samráði við framkvæmdastjórn leggja fram á fundi stjórnar ársreikninga fyrir liðið starfsár og fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár til afgreiðslu. Stjórn staðfestir reikninga með áritun sinni.

 

10.2. Stjórnin skipar fjármálaráð að loknum hverjum Alþingiskosningum og setur því starfsreglur. Hlutverk þess er að afla flokknum fjár og koma upp stuðningsmannakerfi. Ráðið gerir stjórninni grein fyrir störfum sínum árlega.

 

10.3. Tekjur Viðreisnar eru styrkir og framlög frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum, en þó aðeins ef þeim fylgja ekki sérstakar kvaðir um ráðstöfun eða nýtingu. Til viðbótar koma opinber framlög til stjórnmálasamtaka.

 

10.4. Öllum hagnaði af starfsemi skal varið til að sinna markmiði og tilgangi samtakanna, sbr. greinar 1.2. og 1.3.

 

10.5. Meðferð fjármuna og reikningsskil skulu vera í samræmi við lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda sem og aðrar reglur um fjárreiður stjórnmálasamtaka og landslög.

 

11 Túlkun samþykkta og breytingar á þeim

11.1. Samþykktum þessum má aðeins breyta á landsþingi og telst breyting samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða.

 

11.2. Tillögur til breytinga skulu sendar stjórn minnst mánuði fyrir boðað landsþing. Að öðru leyti fer um kynningu og birtingu með sama hætti og um önnur mál, sbr. grein 4.5.

 

12 Önnur ákvæði

12.1. Ákvörðun um að leggja Viðreisn niður skal tekin af tveimur landsþingum í röð og samþykkt af 2/3 hluta fundarmanna á báðum. Eignum skal ráðstafað til almannaheillasamtaka samkvæmt samþykkt seinni fundar.

 

12.2. Almenn fundarsköp gilda á fundum Viðreisnar.