Skipulags- og starfsreglur landshlutaráða Viðreisnar

Landshlutaráð

 

1. grein
Einstök félög Viðreisnar innan hvers kjördæmis, sem taka til minnst eins sveitarfélags, mynda með sér sameiginlegt ráð er nefnist landshlutaráð. Bæði Reykjavíkurkjördæmin skulu þó tilheyra einu landshlutaráði. Landshlutaráð Viðreisnar eru: Reykjavíkurráð, Suðurvesturráð, Norðvesturráð, Norðausturráð og Suðurráð.

 

2. grein
Landshlutaráð halda uppi félagsstarfi í kjördæminu, fjalla um málefni kjördæmisins og önnur verkefni, s.s. umsjón framboðslista fyrir alþingiskosningar. Stjórn landshlutaráðs á sæti í ráðgjafaráði Viðreisnar, sbr. grein 6.2. í samþykktum flokksins.

 

Skipan landshlutaráðs

 

3. grein
Landshlutaráð eru skipuð öllum félögum  Viðreisnar í viðkomandi kjördæmi.

 

Aðalfundur

 

4. grein
Aðalfundur landshlutaráðs skal haldinn ár hvert og eigi síðar en fyrir lok marsmánaðar. Fundinn skal boða í öllum aðildarfélögum og til allra félagsmanna með tölvupósti, með minnst tveggja vikna fyrirvara. Stjórnin boðar til aðalfundar, ákveður fundarstað og tíma og gildir hið sama um aðra fundi ráðsins. Framboð til stjórnar skal sendast með netpósti til stjórnar landshlutaráðsins með sannanlegum hætti a.m.k. 7 dögum fyrir aðalfund.  Hafi nægjanlegur fjöldi framboða ekki borist þegar tímafrestur rennur út er heimilt að taka við framboðum á aðalfundi.

 

5. grein
Á aðalfundi landshlutaráðs skal eftirtalið tekið fyrir:
1. Skýrsla stjórnar
2. Reikningar lagðir fram, staðfestir af skoðunarmönnum
3. Kosning formanns
4. Kosning fjögurra stjórnarmanna
5. Kosning tveggja varamanna
6. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
7. Önnur mál


Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í aðalfundi.

 

Stjórn landshlutaráðs og verkefni hennar

 

6. grein
Stjórn landshlutaráðs skal skipuð alls fimm fulltrúum. Skal formaður kosinn sérstaklega. Tryggja skal jöfn hlutföll kynjanna í skipan stjórnar.

 

7. grein
Stjórn landshlutaráðs skal annast framkvæmdastjórn ráðsins. Fara með fjármálalegan rekstur þess og annast sameiginlegar eignir flokksins í kjördæminu. Stjórnin skal halda að minnsta kosti einn stjórnarfund á ári. Sérstaklega skal boða fundi í aðdraganda Alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga.

 

Kosningar

 

8. grein

Landshlutaráð annast framboð Viðreisnar til Alþingis í sínum kjördæmum.  Stefnt skal að prófkjöri um val á efstu sætum framboðslista, nema landshlutaráð ákveði annað. Ef prófkjöri er ekki beitt skal fara að þeim reglum sem stjórn Viðreisnar setur um þá aðferð við val á lista. Um samþykki slíkra lista fer með sama hætti og við prófkjör. Þegar ákveða skal framboðsleið, skulu allir sem sæti eiga í viðeigandi landshlutaráði boðaðir með tryggum hætti til fundar, með minnst fimm daga fyrirvara. Með fundarboði skal fylgja dagskrá fundar.

 

Framkvæmd prófkjörs og uppstillingar er í höndum uppstillingarnefndar sem starfar samkvæmt verklagsreglum sem stjórn Viðreisnar setur. Þessar reglur skulu birtar áður en starf uppstillingarnefnda hefst. 

 

Auglýsa skal eftir frambjóðendum í uppstillingarnefndir með að minnsta kosti viku fyrirvara. Uppstillingarnefnd er heimilt að skipa sérstaka kjörstjórn fyrir prófkjör. Uppstillingarnefndum er einnig heimilt að gera óbindandi skoðanakannanir í kjördæminu til að undirbúa uppstillingu. 

 

Þegar raðað hefur verið í öll sæti skal uppstillingarnefnd bera tillögu sína að framboðslista undir landshlutaráð til samþykktar eða synjunar. Til þess að framboðslisti sé lögmætur þarf hann að vera samþykktur af meirihluta atkvæðisbærra fundarmanna. Sé tillögu uppstillingarnefndar synjað af landshlutaráði ber að endurtaka uppstillingu. Skylt er að hafa atkvæðagreiðslu leynilega, sé þess óskað. Staðfesting stjórnar Viðreisnar á framboðslista í heild þarf að liggja fyrir áður en hann er borinn fram í nafni flokksins. Undirfélög innan landshlutaráðs í hverju sveitarfélagi skulu annast framboð Viðreisnar til sveitarstjórnar.

 

9. grein
Í aðdraganda Alþingiskosninga skal stjórn landshlutaráðs skipa kosningastjórn sem annars framboð Viðreisnar í kjördæminu.

 

10. grein
Stjórn landshlutaráðs skipar fjármálaráð fyrir hverjar Alþingiskosningar, sem starfar samkvæmt reglum sem stjórn Viðreisnar setur. Meðferð fjármuna og reikningsskil skulu vera í samræmi við lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda sem og aðrar reglur um fjárreiður stjórnmálasamtaka og landslög. Fjármálaráð ber að skila reikningum til framkvæmdastjóra Viðreisnar og skulu taka mið af því að ársreikningur flokksins er samstæðureikningur.

 

11. grein
Nú óskar að minnsta kosti þriðjungur landshlutaráðsmanna eða 15 landshlutaráðsmenn, eftir því hvor hópurinn er minni, skriflega eftir því við stjórn ráðsins að fundur verði haldinn í ráðinu um tiltekið mál og skal stjórnin þá verða við þeirri ósk eigi síðar en 14 dögum eftir móttöku hennar.

 

12. grein
Skipulags- og starfsreglur þessar eru samþykktar í stjórn Viðreisnar dags. 14. febrúar 2024.