20 okt Málefni ráða stjórnarþátttöku Viðreisnar
Fyrir nokkrum dögum settu Píratar fram þá hugmynd að fimm flokkar myndu leggja drög að stjórnarsáttmála fyrir kosningar. Hugmyndin er frumleg og virkar kannski vel fyrir þá flokka sem hafa unnið saman á Alþingi í nokkur ár.
Viðreisn hefur frá upphafi kosningabaráttunnar sett fram þá grundvallarstefnu að málefni eigi að ráða í stjórnarmyndun en ekki fyrirfram ákveðin afstaða, án tillits til niðurstaðna kosninga. Sem nýtt og frjálslynt stjórnmálaafl er mikilvægt að við eigum umræðu um okkar málefni. Þessa umræðu viljum við eiga við kjósendur.
Öllum má ljóst vera hvaða mál við setjum á oddinn: Lækkun vaxta og stöðugleika með föstu gengi í gegnum myntráð. Þannig lækka vextir í átt að því sem gerist í nágrannaþjóðum og verðtrygging verður óþörf. Markaðsleið í sjávarútvegi þar sem ákveðinn hluti veiðiheimilda verður settur á markað á hverju ári. Kerfisbreyting í landbúnaði þar sem valfrelsi neytenda verður aukið og bændur losaðir úr samningum sem hindra hagkvæman rekstur og ýta undir offramleiðslu. Þjóðin fái að greiða atkvæði um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Samningur sem kæmi út úr slíkum viðræðum yrði svo borinn undir þjóðina. Jafnrétti verði tryggt á öllum sviðum og kynbundnum launamun verði útrýmt með jafnlaunavottun. Fordómum í garð aldraðra verði útrýmt og enginn verði sendur heim af vinnumarkaði aðeins vegna aldurs.
Þessi mál þurfa kjósendur að þekkja og einnig þeir flokkar sem hyggja á samstarf við Viðreisn.
Það er augljóst að Viðreisn blæs ekki lífi í ríkisstjórn sem kjósendur hafa fellt. Það væri gagnstætt öllum okkar hugsjónum. Um það talaði ég með afdráttarlausum hætti í morgun. Það kann vel að vera að aðrir flokkar vilji reisa það merki, en við höfum ekki áhuga á því.
Viðreisn er nýtt frjálslynt afl í íslenskum stjórnmálum og við leggjum höfuðáherslu á að vera í beinu sambandi við fólkið í landinu og heyra sjónarmið þess um leið og við í fyrsta sinn kynnum kjósendum okkar lausnir. Aldrei er þetta samband mikilvægara en fyrir kosningar þegar stjórnmálamenn sækja umboð sitt milliliðalaust til fólksins. Þetta samband er kjarni lýðræðisins.
Að loknum kosningum hvílir sú skylda á stjórnmálunum að mynda landinu starfhæfa ríkisstjórn. Þá skyldu tekur Viðreisn mjög alvarlega. Lykilatriði er að fá umboð fólksins og finna sameiginlega snertifleti við aðra flokka, en þá ráða málefnin för. Viðreisn mun því galvösk mæta til stjórnarmyndunarviðræðna eftir kosningar með þann lista málefna sem hér er skráður og er reiðubúin til samstarfs við alla þá flokka sem vilja vinna að þessum málefnum.