20 okt Róttæk nálgun í heilbrigðismálum?
Þau eru mörg ráðin sem nýliðar í pólitík fá þessa dagana.
„Tala eins og stjórnmálamaður, ekki sem sérfræðingur.“
„Ekki reyna að útskýra flókin mál, það missa allir áhugann. Notaðu stikkorð.“
„Heilbrigðismál verða ekki kosningamál. Allir lofa öllu fögru, taktu bara þátt og málið er dautt.“
Þetta er bara brot af því sem borið hefur inn á borð hjá mér undanfarið. Ráðin eru oftast gefin af góðum hug, sum þó í kaldhæðni eða hálfkæringi. Mörg eru fullkomlega gild.
Ég er sammála því að heilbrigðismálin séu mikilvægasti málaflokkurinn á Íslandi í dag.
Hjá Viðreisn höfum við mótað skýra stefnu í heilbrigðismálum sem byggir á þeim kjarna í öllum okkar málflutningi að almannahagsmunir skuli ganga framar sérhagsmunum. Samhliða tillögum um sókn í heilbrigðismálum liggja róttækar, umbótasinnaðar tillögur í efnahagsmálum sem skapa forsendurnar fyrir því að við getum staðið við metnaðarfullar tillögur okkar í heilbrigðismálum.
Normið hefur allt of lengi verið varðstaða um óbreytt ástand sem hyglir ákveðnum sérhagsmunum á kostnað lífskjara almennings. Og auðvitað er það reyndar allt að því kómískt að hugmyndir sem lúta að kerfisbreytingum í þágu almannahagsmuna fái merkimiðann „róttækar hugmyndir“. En svona er Ísland í dag.
Hver eru verkefnin?
Við stöndum á ákveðnum tímamótum varðandi heilbrigðiskerfið okkar. Það þarf meira fjármagn svo að þjóðarsjúkrahúsið okkar geti staðið undir nafni. Heilsugæslan hefur verið í fjársvelti lengi. Íslendingar hafa ekki aðgengi að nýjustu lyfjum. Það þarf átak í uppbyggingu í öldrunarmálum, mannekla er meðal fagstétta í heilbrigðisþjónustu og svona mætti því miður lengi telja.
Það þarf að breyta greiðsluþátttöku almennings með það að leiðarljósi að fólk veigri sér ekki við að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Það er óverjandi að það að greinast með illvígan sjúkdóm kollvarpi fjárhag heimilisins. Ólíðandi að í velferðarríkinu Íslandi finnist fólk sem hefur einfaldlega ekki efni á að veikjast.
Við þurfum líka að fjárfesta í heilsueflingu og forvörnum. Það er staðreynd að lífsstílstengdir sjúkdómar eru algengasta orsök heilsuleysis í okkar heimshluta og því hlýtur heilsuefling og forvarnir, ekki síst í geðverndarmálum, að vera forgangsmál í heilbrigðisþjónustunni. Ekki bara vegna hins augljósa ávinnings í formi betri lífsgæða, heldur vegna þess að hér eigum við raunverulega möguleika á að ná tökum á þeim mikla kostnaði sem er fram undan í heilbrigðiskerfinu ef við mótum ekki stefnu til framtíðar.
Efnahagsmál og heilbrigðismál eiga samleið
Heilbrigðisþjónusta Íslendinga á að vera greidd úr almannatryggingakerfinu okkar. Það er mikilvægt að ná samstöðu um forgangsröðun í ríkisfjármálum í þágu fjárfestingar í heilbrigðismálum. Viðreisn hafnar því að aukinn kostnaður sé fjármagnaður með því að hækka skatta á almenning eða með því að skerða aðra þjónustu á borð við menntamál eða samgöngumál.
Vaxtagjöld ríkissjóðs eru nú um 70 milljarðar króna á ári. Viðreisn er með skýra stefnu um lækkun vaxtarstigs hér á landi með því að festa gengi krónunnar við erlendan gjaldmiðil með myntráðsleiðinni. Slík breyting, samhliða auknum aga í hagstjórn, mun lækka vaxtamun við nágrannalönd okkar til muna með umtalsverðum sparnaði fyrir ríkissjóð, sem og heimili og fyrirtæki.
Þá vill Viðreisn að greitt verði markaðsgjald fyrir sérréttindi til nýtingar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar hvort sem um er að ræða auðlindir sem nýttar eru í sjávarútvegi, orkugeiranum eða ferðaþjónustu. Slíkt auðlindagjald viljum við nýta til innviðauppbyggingar þar sem þess er þörf og til samneyslu þjóðarinnar, m.a. í heilbrigðismálum.
„Heilbrigðismál verða ekki kosningamál,“ segja einhverjir. „Allir lofa öllu fögru og enginn flokkur nær að skapa sér sérstöðu.“ Þetta er ekki rétt.
Viðreisn hefur skýra framtíðarsýn, ekki eingöngu varðandi markmið okkar í heilbrigðismálum, heldur einnig hvernig við munum ná þeim fram. Svarið við spurningunni: Hvað má heilbrigðið kosta er ekki mælt í milljörðum króna. Það er mælt í vilja til breytinga. Hverju eru stjórnmálamenn tilbúnir að breyta í þágu almannahagsmuna? Í svari við þessari spurningu liggur sérstaða Viðreisnar.
Höfundur skipar 1. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.