06 nóv Það eru málefnin, gæskur (BJ)
Viðreisn setur velferð og velmegun almennings í öndvegi, en þar er undirstaðan öflugt atvinnulíf og virk samkeppni.
Um síðustu helgi kaus þjóðin sér nýtt Alþingi. Fram að því höfðu flokkarnir keppst við að bera stefnu sína á borð fyrir kjósendur. Eftir skammvinna hvíld þar sem allir meltu úrslitin hefur tekið við samkvæmisleikur, þar sem menn keppast við að máta flokka saman með það eitt í huga að mynda meirihluta.
Auðvitað skiptir það máli að þeir sem eiga að vinna saman geti treyst hver öðrum. Það er ekki þar með sagt að þingmenn eigi að vera sammála um allt, en allir verða að vera sjálfum sér samkvæmir. Ef ekki ríkir gagnkvæmt traust er borin von að samvinna verði farsæl.
Breytt verklag er stórmál
Ég er nýgræðingur í viðræðum milli stjórnmálaflokka, þó að ég hafi býsna lengi verið í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Þar er sjaldan meiri- og minnihluti, en það er ekki þar með sagt að menn séu sammála í öllu. Oft takast menn á, setja fram rök fyrir sínu máli og verða málsvarar gagnstæðs málstaðar til þess að átta sig betur á afleiðingum ákvarðana. Niðurstaðan er þó undantekningarlítið samhljóða, þegar menn hafa rætt sig til niðurstöðu. Ég hef mætt á stjórnarfund þar sem ég hef fyrir fund verið ákveðinn í því að ákveðin niðurstaða væri sú farsælasta, en farið af honum himinlifandi yfir gagnstæðri ákvörðun eftir snarpar og rökfastar umræður.
Í Viðreisn höfum við talað fyrir breyttum vinnubrögðum. Þess vegna teljum við að samhliða stjórnarmyndarviðræðum, hverjir sem að þeim koma og hvernig sem þær fara, eigi flokkarnir á Alþingi að komast að samkomulagi um ný og betri vinnubrögð.
Meirihluti Alþingis á ekki að valta yfir minnihlutann, en þingið verður að vera starfhæft og umræður eiga að vera markvissar, en ekki til þess að þæfa mál. Löggjöf þarf að vanda og undirbúa vel, en ekki henda frumvörpum inn á síðustu dögum þingsins. Einfalt og gegnsætt stjórnkerfi, sem og skilvirkar reglur sem þjóna hugsjónum lýðræðis.
Í þessum anda var bréf sem ég sendi foringjum annarra flokka síðastliðinn þriðjudag um skipan vinnuhóps um bætt verklag Alþingis.
Hvað um stefnuna?
Viðreisn talar sífellt fyrir því að málefnin eigi að ráða niðurstöðu í viðræðum flokka á milli meðan spurt er um hinar ýmsu flækjur í stjórnarmyndun og flokkum er af spekingum raðað saman af handahófi. Stefna flokkanna er oft gleymd þegar kosningar eru afstaðnar, en ég ætla að gerast svo djarfur að rifja upp stefnumál okkar, málin sem við mætum með til viðræðna við aðra flokka.
Ríkið á að búa til umgjörð stöðugleika sem dregur úr hættu á því að einhverjir aðilar geti ráðskast með þjóðina og eignir hennar. Hluti af þessari umgjörð er breytt stjórnarskrá sem tryggir að almenningur geti komið að málum, ef ákveðinn fjöldi kjósenda krefst þess.
Viðreisn setur velferð og velmegun almennings í öndvegi, en þar er undirstaðan öflugt atvinnulíf og virk samkeppni.
- Gengi íslensku krónunnar verði fest með svonefndu myntráði til þess að tryggja stöðugleika. Þessi aðferð krefst ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum og samvinnu aðila vinnumarkaðsins í þeim anda sem unnið hefur verið að í svonefndum Salek-viðræðum. Þess vegna kallar myntráð á víðtækt samráð. Með því bætum við hag Íslendinga með stöðugleika og lækkun vaxta til samræmis við nágrannalönd. Það er óþolandi að Íslendingar, fólk og fyrirtæki, þurfi að borga miklu hærri vexti en nágrannaþjóðir.
- Sátt náist um markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi með því að árlega fari ákveðinn hluti kvótans á markað. Fjárhæðum verði veitt í sjóði sem varið verði til uppbyggingar innviða í landshlutum.
- Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni. Bæði hagsmunir bænda og valfrelsi neytenda verði tryggð.
- Nýtum náttúruauðlindir á skynsamlegan og sjálfbæran hátt með það í huga að óskert náttúra er líka auðlind.
- Reisum nýjan Landspítala með áherslu á endurnýjun tækjabúnaðar. Meðferðarkjarni verði tekið í notkun eigi síðar en árið 2022.
- Enginn verði þvingaður af vinnumarkaði eingöngu vegna aldurs. Nýtum reynslu og þekkingu allra eins lengi og þeir hafa vilja og getu til þess að vinna.
- Ísland á að taka þátt í alþjóðlegu hjálparstarfi, þar með talið móttöku flóttamanna.
- Námsárangur nái að minnsta kosti meðaltali innan OECD. Nám á bæði grunn- og framhaldsskólastigi verði markvissara en nú er.
- Jafnrétti þegnanna er grundvallarhugsjón lýðræðisins. Atkvæðisréttur sé jafn alls staðar á landinu. Tryggjum jöfn laun kynjanna á vinnumarkaði með því að öll fyrirtæki með meira en 25 starfsmenn fari í jafnlaunavottun.
- Þjóðin greiði atkvæði um hvort ljúka skuli aðildarviðræðum við Evrópusambandið til þess að ná aðildarsamningi sem borinn verður undir þjóðina.
Þetta eru helstu stefnumál Viðreisnar, en sannarlega ekki tæmandi listi um verkefni Alþingis í bráð og lengd. Flokkar hafa mismunandi áherslur, en um margt geta þeir sameinast. Á þinginu hvílir skylda að mynda starfhæfa ríkisstjórn sem setur þjóðarhagsmuni í öndvegi en hafnar sérhygli.
Gleymum því ekki að þingmenn eru vörslumenn almannafjár. Ef endurnýja á traust á Alþingi þurfa þeir að sýna þjóðinni og hver öðrum tilhlýðilega virðingu. Nálgumst verkefnin af auðmýkt en ekki ofstopa. Það er þjóðinni farsælast.
Benedikt Jóhannesson