28 mar Eldri borgarar geta líka verið hinsegin
Ég gerði málefni hinsegin eldri borgara að umtalsefni á Alþingi í dag, í sérstakri umræðu um umbætur í aðbúnaði og málefnum eldri borgara.
Fyrr á þessu ári stofnuðu Samtökin 78 sérstakan samstarfshóp um málefni eldri borgara. Kveikjan að stofnun hópsins var síaukinn þungi í umræðunni um að það vanti stórlega upp á fagþekkingu á málefnum hinsegin aldraðs fólks. Benda má á að í nýútgefinni starfsáætlun um málefni eldri borgara er ekki minnst orði á hinsegin fólk.
Sú kynslóð hinsegin fólks sem tók upphafsskrefin í harðri og oft erfiðri baráttu fyrir réttindum þess hóps hér á landi, kynslóð sem á ekki síst heiðurinn af því að Ísland hefur um skeið verið í fararbroddi þjóða þegar kemur að réttindum samkynhneigðra, er nú komin á efri ár. Þessi hópur hefur staðið í eldlínunni og man tímana tvenna. Það er sárara en tárum taki ef rétt er að innan hans séu einstaklingar sem eiga erfitt með að fóta sig þegar komið er á öldrunarheimili þar sem þar skortir fagþekkingu og almennan skilning á málefnum þeirra. Það er óásættanlegt að til séu dæmi um að eldri borgarar fari hreinlega aftur inn í skápinn, svo notað sé þekkt orðalag, þar sem þeir mæta ekki skilningi á nýju heimili.
Þrátt fyrir að vera baráttufólk í eðli sínu, eru hinsegin eldri borgarar ekki endilega allir í stakk búnir að fara á gamals aldri – enn og aftur – að vera með vesen, berjast fyrir réttindum sínum, sómasamlegum aðstæðum og því að almennt sé kynhneigð þeirra mætt með virðingu og skilningi.
Ég hvet alla þá sem koma að málefnum eldri borgara til að leggja eyrun við þegar starfshópurinn um málefni hinsegin eldri borgara fer af stað með fræðslu sína. Ég hvet reyndar alla til að hlusta – og læra.
Greinin birtist fyrst á www.eyjan.is hinn 27. mars 2017.