08 mar Er einn Ísfirðingur á við tvo Hafnfirðinga?
Ritnefnd Ungliðahreyfingar Viðreisnar veltir hér upp spurningunni: Er vægi þingmanna er bjóða sig fram á landsbyggðinni meira en vægi þingmanna sem bjóða sig fram í Kraganum og í Reykjavík?
Geta þingmenn landsbyggðar virkilega horft á sig sem jafningja annara þingmanna sem hafa allt upp í tvisvar sinnum fleiri atkvæði bak við sig. Þessar heimildir má finna í yfirlitsmynd Landskjörstjórnar frá seinustu Alþingiskosningum.
Einföld tölfræði segir okkur það að það eru allt að tvöfalt færri sem standa á bak við hvern þingmann landsbyggðar en þingmenn sem koma úr borginni. Ritnefnd Ungliðahreyfingar Viðreisnar vill að þingmenn landsbyggðarinnar svari þessari spurningu. Eruð þið tvöfalt verðmætari fyrir þjóðina en þingmenn sem koma af Höfuðborgarsvæðinu?
„Jafnræði þegnanna til að hafa pólitísk áhrif er meðal grundvallaratriða lýðræðisins og borgaralegra réttinda“ segir í skýrslu Stjórnlaganefndar sem meta átti kjördæmakerfi landsins í aðdraganda breytinga á stjórnskipunarlögum. Það er ekki bara ótækt heldur ólýðræðislegt að atkvæði kjósanda í Norðvesturkjördæmi hafi tvöfalt vægi á við kjósanda í Suðvesturkjördæmi. Er það vilji löggjafans að hagsmunir kjósenda á norðvesturhluta landsins séu tvöfalt mikilvægari en hagsmunir kjósenda suðvesturkjördæmis? Ef litið er til Norðurlandanna, sem við berum okkur oft saman við, þá má sjá að í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku er misvægi atkvæða ekkert. Í raun er þetta gamaldags kerfi, en í Danmörku var misvægi atkvæða við lýði fram á 5. áratug síðustu aldar, þegar því var loks breytt. Í Noregi er kerfið líkara okkar, en gengur þó ekki jafnlangt. Rökin sem notuð voru fyrir því kerfi eru frá miðbiki seinustu aldar, en þau voru að fólk sem væri búsett í Osló hefði greiðari aðgang að hinu pólitíska valdi í landinu þar sem þingið væri staðsett í borginni. Við lifum nú á öldum ljósvakans og má ganga að því vísu að allir landsmenn hafi aðgang að nettengingu. Þetta á því ekki við í nútímasamfélagi. Ísland gengur lengst allra Norðurlandanna í þessari mismunun. Tölur frá síðustu aldamótum benda til þess að ójafnvægið sé þrefalt meira hérlendis en í Noregi. Pólitískt ójafnrétti er því mest á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.
Við ítrekum mikilvægi þess að á Alþingi sitji fulltrúar allrar þjóðarinnar, og endurspegli hana sem best. Það er nokkuð ljóst að við náum ekki því markmiði ef að fólk á landsbyggðinni hefur meira um það að segja hverjir fara með völd í landinu heldur en fólk á höfuðborgarsvæðinu.
Þar að auki býður kerfið upp á það að frambjóðendur misnoti það til þess að eiga frekar möguleika á að komast inn á þing, en hafa kannski ekki eins mikinn áhuga á að vera fulltrúi þess kjördæmis sem þeir bjóða sig fram í þegar kemur að ákvarðanatöku á þingi. Þetta kerfi er því engum til hagsbóta, það er úrelt og ólýðræðislegt.
Til gamans má geta að margir þingmenn sem bjóða sig fram í landsbyggðinni eru ekki einu sinni með lögheimili í því kjördæmi sem þeir bjóða sig fram í. Meiningin er ekki að fækka kjördæmum heldur aðeins að breyta þessu úrelta kerfi sem stuðst er við í dag þar sem vægi atkvæða er ekki jafnt. Í 65. gr. Stjórnarskrárinnar er tekið fram að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Erum við jöfn fyrir lögum þegar lög um kosningar til Alþingis mismuna einstaklingum eftir búsetu. Mat Ritnefndar Ungliðahreyfingar Viðreisnar er að þessi mismunun standist ekki stjórnarskrá og er orðið löngu tímabært að ráðast í aðgerðir.
Hvetur Ritnefnd Ungliðahreyfingar Viðreisnar þingmenn Alþingis til þess að taka á þessu viðvarandi vandamáli.
Ritnefnd Ungliðahreyfingar Viðreisnar.