04 apr Framtíðin er framundan
Á síðustu misserum hefur átt sér stað tímabær og þörf vitundarvakning í samfélaginu um geðheilbrigðismál. Fyrir vikið erum við nú meðvitaðri um alvarleika geðrænna vandamála. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að auka skuli aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, meðal annars með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum. Það er fagnaðarefni að efla eigi sálfræðiþjónustu þar, en þörfin er ekki síður brýn í háskólum landsins.
Ungt fólk í áhættuhópi
Almenn sálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd í gegnum Sjúkratryggingar Íslands líkt og önnur heilbrigðisþjónusta. Ungt fólk eldri en 18 ára á ekki margra kosta völ þegar kemur að því að sækja sér þjónustu vegna andlegra veikinda, þar sem einstaklingar eldri en 18 ára eiga ekki rétt á sömu niðurgreiðslu og þeir sem yngri eru. Aldurshópurinn 18-25 ára er sá aldurshópur sem er í hvað mestri hættu þegar kemur að andlegum veikindum.
Samkvæmt evrópskri heilsufarsrannsókn frá árinu 2015 mældust fleiri ungar konur á þeim aldri með þunglyndiseinkenni á Íslandi en í nokkru öðru Evrópuríki, en hérlendis mælist um fimmti hver kvenmaður á þeim aldri með þunglyndiseinkenni samkvæmt evrópskri heilsufarsrannsókn frá árinu 2015. Þá er algengasta dánarorsök íslenskra karlmanna á aldrinum 18-25 ára sjálfsvíg, en árlega deyja um sex ungir menn á þeim aldri.Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að efla sálfræðiþjónustu í háskólum landsins, þar sem algengasti aldurshópur háskólanema er á bilinu 18 til 25 ára. Í ljósi þess að til stendur að stytta skólagöngu framhaldsskólanema mun einungis fjölga í þessum aldurshópi innan háskólans. Við Háskóla Íslands stunda allt í allt 12.428 einstaklingar nám. Við skólann starfar einn sálfræðingur í hálfu stöðugildi. Að því sögðu má nefna að viðmið samtaka bandarískra skólasálfræðinga (NASP) gera ráð fyrir að ekki fleiri en 1.000 nemendur standi að baki hverjum skólasálfræðingi. Sé hlutverk skólasálfræðings ekki einungis að greina og veita ráðgjöf, heldur einnig veita viðeigandi meðferð, þá er mælt með að 500-700 nemendur standi að baki hverjum skólasálfræðingi.
Fjárfesting til framtíðar
Svo virðist fjöldi fólks neiti sér um sálfræðiþjónustu af fjárhagsástæðum, en samkvæmt upplýsingum Hagstofu telja um 33% fólks sig ekki eiga efni á geðheilbrigðisþjónustu. Þetta á sérstaklega við um ungt og tekjulágt fólk. Að öllu óbreyttu þykir algengast að einstaklingur með kvíða og þunglyndi þurfi að gera ráð fyrir 10-15 meðferðartímum hjá sálfræðingi hið minnsta. Bein útgjöld vegna slíkrar meðferðar eru á bilinu 120.000-220.000 krónur. Til samanburðar er síðarnefnda upphæðin um 30% af þeirri upphæð sem LÍN lánar einstaklingi í leiguhúsnæði að hámarki í framfærslu hverja önn. Þess vegna er ljóst að það reynist ungu námsfólki ómögulegt að leita sér aðstoðar sálfræðings miðað við þær upphæðir sem það hefur á milli handanna hverju sinni.
Rekja má brotthvarf íslenskra háskólanema að miklu leyti rekja til slæmrar geðheilsu.Það felur í sér umtalsverðan samfélagslegan kostnað þegar ungt fólk hverfur frá námi, auk þess sem þeir verða af tækifærinu til að mennta sig eins og hugur þeirra stendur til. Viðunandi sálfræðiþjónusta nemenda sparar samfélaginu mikla fjármuni til lengri tíma litið. Sem stendur er fjármunum ekki forgangsraðað rétt til að bregðast við vandanum.
Fjöldi einstaklinga þarf að neita sér um þessa lífsnauðsynlega þjónustu. Það leiðir til umfangsmeiri vandamála og kostnaðarmeiri úrræða til að bregðast við þeim vandamálum. Lyfjakostnaður vegna andlegra vandamála er að miklu leyti niðurgreiddur, en mikill skortur hefur verið á öðrum úrræðum en lyfjameðferð við þunglyndi og kvíða. Í því skyni ber að nefna að 46.266 einstaklingar leystu út þunglyndislyf á Íslandi árið 2016, sem er um 22% aukning frá árinu 2012. Þá er stærsti hluti örorkubóta greiddur vegna geðrænna veikinda fólks.
Með aukinni áherslu á geðheilbrigðismál í heilbrigðiskerfinu tækist okkur að koma í veg fyrir mikinn samfélagslega kostnað. Auk þess sem tækist að bjarga mannslífum, en það eitt og sér ætti að vera nægileg ástæða til þess að grípa til aðgerða. Það er undir okkur komið að rétta þeim hjálparhönd sem þurfa á því að halda. Framtíðin er framundan, líf fólks er í húfi.
Höfundur er varaþingmaður Viðreisnar og situr í Stúdentaráði Háskóla Íslands.
Greinin birtist í Kjarnanum 4. apríl 2017