12 jún Að þora, geta og vilja
„Segjum sem svo að ráðherra nýti sér ekki það svigrúm sem hún hefur í lögum til að hreyfa við tillögum hæfisnefndar, segjum sem svo að hæfisnefnd og ráðherra vinni saman að því að koma til okkar 15 nöfnum sem fari fjarri því að uppfylla kröfur jafnréttislaga, mun háttvirtur þingmaður slást í lið með mér og fleirum og vinna að því að laga það þannig að hér verði millidómsstig, sama hvað kann að klikka á leiðinni frá ráðuneytinu til okkar, sem uppfylli lágmarkskröfur jafnréttislaga, að þingið tryggi það og taki í handbremsuna ef þörf krefur?“
Framangreinda spurningu fékk ég frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni VG, í umræðum á Alþingi í febrúar síðastliðinn þegar verið var að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla (nefnd um hæfni dómaraefna, aðsetur Landsréttar).
Ég rifjaði þetta upp eftir fréttir RÚV í gærkvöldi af því að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefði gert dómsmálaráðherra það ljóst að upphaflegi listi matsnefndar með 15 dómaraefnum uppfyllti að mati þingflokks Viðreisnar ekki skilyrði um jafna kynjaskiptingu að teknu tilliti til hæfis umsækjenda.
„Ráðherra hefur heilmikið svigrúm“
Í þessari frétt vöktu ummæli Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, undrun mína. En áður en ég kem að þeim, langar mig að setja hér fram fleiri áhugaverð ummæli úr ranni stjórnarandstöðunnar frá því að dómaramálin voru rædd á þingi í febrúar. Hér koma nokkur dæmi:
Andrés Ingi Jónsson, VG: „Undir lok ræðu minnar áðan þá sagðist ég vona að ráðherrann kæmi með lista 15 umsækjenda þar sem hlutfall kynjanna væri sem jafnast. Ráðherrann hefur svigrúm, samkvæmt því frumvarpi sem við erum hér að afgreiða, til að víkja frá röðun hæfnisnefndar að því gefnu að hann taki inn aðra umsækjendur sem uppfylla hæfnisskilyrði sem sama nefnd hefur farið yfir. Ráðherra hefur heilmikið svigrúm til að laga listann sem hann fær frá þessari stjórnsýslunefnd.“
Andrés Ingi Jónsson, VG: „Þess vegna þykir mér gott að heyra háttvirtan þingmann segja að henni þyki skýrt að jafnréttislög gildi þegar hæfnisröðun er lokið. En ég vil ganga lengra og bendi á að í frumvarpinu, sem hér liggur fyrir, er skýr heimild ráðherra til að bregða algjörlega frá hæfnisröðuninni og kalla til hæfa umsækjendur, svo lengi sem þeir hafi verið metnir hæfir samkvæmt 21. gr. Laganna.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírötum: „Mig langar að ítreka spurninguna … Ef svo fer að valnefndin og ráðherra bregðast í þessu samhengi, mun háttvirtur þingmaður standa með okkur hér í ræðustól og mótmæla fyrirkomulagi sem ekki virðir jafnt hlutfall karla og kvenna við skipun í þennan nýja dómstól?“
Andrés Ingi Jónsson, VG: „Það er hins vegar þannig að ráðherra fær í hendurnar hæfnismat á öllum umsækjendum frá hæfnisnefndinni og ráðherra hefur svigrúm til að bregðast við ef hallar á annað kynið í þeim lista sem er metinn hæfastur, af því að þessi hæfnisskilyrði eru ekki algild; þetta er engin stærðfræðileg nákvæmni.“
Vildu sértækar aðgerðir
Mér fannst Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, full hófsöm í fréttinni á RÚV þar sem hún sagði: „Við höfum auðvitað talað fyrir því að það yrði litið til jafnréttislaga, að það yrði litið til kynjasjónarmiða við þessa skipan.” Ég segi það bæði vegna þess sem er rakið hér að framan, en ekki síður vegna þess að í minnihlutaáliti allsherjar- og menntamálanefndar um fyrrnefnt frumvarp, sem undir skrifa fulltrúar VG og Pírata, er gengið mun lengra en jafnréttislög. Þar er brýning um sértækar aðgerðir eins og kynjakvóta til að fjölga konum hratt í dómskerfinu. Sérstaklega er tekið fram að skemmst sé að minnast að nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum hafi á síðasta ári beint þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að mikilvægt væri að fjölga konum í lögreglu og í Hæstarétti til að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW).
Þegar Jón Steindór Valdimarsson, félagi minn í Viðreisn, spurði þingmann VG, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, hvort hennar flokkur hefði samþykkt lista dómnefndar þar sem gerð var tillaga um 10 karlmenn en 5 konur án athugasemda við kynjahlutföll, svaraði Rósa Björk „Ef sá listi nafna væri þá nægilega vel rökstuddur eins og fram kemur hjá dómnefndinni, þá efast ég ekki um að hann væri okkur meira þóknanlegur heldur en geðþótta ákvarðanir dómsmálaráðherra hafa borið vitni um.“
Frá árinu 1920 hafa 4 konur verið skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands. Við höfðum við stofnun Landsréttar tækifæri til að hafa þetta í lagi frá upphafi. Það skiptir þjóðfélagið okkar máli.
Það er ekkert launungamál að mér finnst dómnefndin hafa verið full karllæg í mati sínu á hæfni dómara. Það lýsti sér ekki síst í því hve lítið vægi dómarareynsla, og tengd verk, hlaut í heildarmatinu. Sú nálgun kom illa niður á kvenumsækjendum.
Það er löngu tímabært að við hættum að taka því sem sjálfgefnu að huglægt karllægt mat sé notað til að „rökstyðja“ konur frá valdastöðum.
Greinin birtist fyrst á Eyjunni 8. júní 2017.