25 ágú Áhættumatið þarf að uppfæra
Hún var ekki í öfundsverðri stöðu, nefndin sem ætlað var að koma á sáttum til framtíðar í fiskeldismálum. Málið hefur skapað afar hatramma og svart-hvíta umræðu síðustu misseri, og hagsmunirnir að því er virðist algerlega andstæðir. Nefndin sem skilaði af sér í vikunni náði þó, eftir seinkanir og mörg upphlaup, að skila af sér niðurstöðum.
Lausnin var að láta vísindalegt mat Hafrannsóknastofnunar vera hryggjarstykkið í tillögunum um hvaða svæði þættu henta best til eldis. Vísindalega áhættumatið er svo kallað lifandi plagg sem skal uppfæra að minnsta kosti á þriggja ára fresti.
Það væri mikill mislestur að vanmeta vigtina sem felst í þessum tíðindum.
Stóru fréttirnar
Stóru fréttirnar eru þær að áhættulaust er talið að stórauka fiskeldi hér á landi, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. Það svæði, sem hefur verið í hvað mestum kröggum síðustu áratugi, er komið fyrir vind að þessu leyti. Uppbygging er framundan.
Tillögur um auðlindagjald sem renni að miklu leyti til heimabyggða eru fram komnar og líklegar til að verða ofaná. Efling rannsókna er undirstrikuð og fjármögnuð. Fjölmargar aðrar stefnumótandi tillögur eru í skýrslunni sem eru til þess fallnar að styrkja bæði fiskeldi og stangveiði, með þeim jákvæðu áhrifum sem fylgja hvorutveggja.
En mikið vantar uppá
Hafrannsóknastofnun var ekki heldur í öfundsverðri stöðu. Henni var falið að gera áhættumat á afar flókinni líffræði þar sem tugir þátta spila saman. Við undirbúninginn kom fram að ekkert fyrirliggjandi líkan hentaði og því þurfti að gera það frá grunni, á skömmum tíma, byggt á gögnum sem eru óviss og í sumum tilvikum ekki til yfir höfuð.
Hversu miklar líkur eru á slysasleppingum, hversu stór er lax þegar hann sleppur, hversu miklar líkur eru á að hann rati upp í ár, hversu líklegt er að hann nái að lifa af, hversu líklegt er að hann nái að fjölga sér? Þetta er ekki vitað.
Það var því ekki skrýtið að áhættumatið sem kom í sumar hafi verið ófullkomið. Ekki var tekið tillit til þeirra sleppinga gönguseiða sem stundaðar eru í öllum þeim þremur ám sem taldar eru í hættu; Langadalsá, Laugardalsá, Hvannadalsá. Erfðabreytileikinn í þessum þremur ám hefur ekki verið skoðaður sérstaklega. Ekki eru metin áhrif af þeim mótvægisaðgerðum sem í boði eru, svo sem notkun stærri seiða í eldi, vöktun áa og fleira. Ekki var metið hversu mikið eldið mætti vera í Ísafjarðardjúpi án þess að hafa merkjanlega áhættu í för með sér.
Auk þess er engu máli slegið í skýrslunni á það hvaða áhrif óvissuþættirnir hafa á niðurstöður áhættumatsins. Með orðum tölfræðinnar hefur engin næmisgreining verið birt.
Hafrannsóknastofnun hafði ekki það hlutverk að skoða hagræn áhrif—og þó sáttanefndin hafi kallað til Byggðastofnun til að meta byggðaáhrif fiskeldis, fór nefndin þá leið að túlka lög þannig að algerlega óháð hagrænum áhrifum væri réttur villtra stofna framar fiskeldi. Heimamenn hafa nú beðið hagfræðing um að gera nýtt hagfræðilegt mat, sem unnið er að þessar vikurnar.
Stofnunin hefur á síðustu áratugum sannað að henni er treystandi til að sinna vísindalegum úttektum á helsta atvinnuvegi þjóðarinnar og hefur skapað þannig ómetanleg verðmæti. Engin ástæða er til að hún standi ekki undir því trausti í þessu máli einnig, en þá og því aðeins að henni verði gefið ráðrúm til sinna rannsókna.
Áhættumatið þarf að uppfæra fljótt
Krafan er því einföld: að áhættumatið verði uppfært eins fljótt og auðið er, og löngu áður en árin þrjú eru úti. Þegar hagrænu áhrifin liggja fyrir geta ráðherra og stjórnvöld önnur litið til þeirra einnig.
Hafandi skoðað áhættumatið og helstu hagrænu þætti er augljóst að uppfært áhættumat og formlegt mat á hagrænum áhrifum muni hvort tveggja verða til þess að Djúpið opni fyrir laxeldi strax á næstu árum.
Höfundur er aðstoðarmaður fjármálaráðherra og leiddi framboðslista Viðreisnar í NV-kjördæmi í alþingiskosningunum 2016. Greinin birtist á bb.is hinn 25. ágúst 2017.