24 ágú Ísland tækifæranna: ríkisborgararéttur
Flestir þeirra sem fá íslenskan ríkisborgararétt fá hann í gegnum Útlendingastofnun að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ef menn uppfylla ekki þessi skilyrði, geta þeir sent inn umsókn til Alþingis sem getur tekið (geðþótta)ákvörðum um að fallast á beiðninni eða ekki.
Það má segja ýmislegt um þessa venju en hún er ekki einstök. Mörg ríki hafa einhvers konar bakdyraleið í boði sem er þá ekki endilega fordæmisgefandi.
Ég skal leggja það beint á borðið að ég er ekki sammála þeim sem telja að taka eigi út þessa bakdyraleið. Lögin geta ekki gripið allt. En það er hægt að láta þau grípa meira, og sumt af þeim skilyrðum sem sett eru ýmist óþörf eða óþarflega ströng.
Í fyrsta lagi er gerð krafa um 7 ára dvöl. Það er að sjálfsögðu ekki ólíðandi langur tími en það yrði að mínu mati okkur algerlega að meinalausu að stytta þennan tíma niður í fimm ár.
Krafan um framfærslu er, að mínu mati óþörf, og ein algeng ástæða fyrir neitun. Þar sem öll dvalarleyfin gera sérstaka kröfu um framfærslu eru viðbótarskilyrði um þetta óþarfa skriffinnska. Hafi menn getað framfleytt sér á Íslandi í 7 ár er líklegt að þeir geti það áfram.
Þá er krafan um að mega ekki hafa fengið neinar félagslegar bætur frá sveitarfélagi seinustu þrjú ár of stíf. Fólk getur lent í tímabundnum vandræðum. Að sama skapi ætti að fella burt kröfu um gjaldþrot, árangurslaust fjárnám.
Þá eru gerðar kröfur um meðmæli frá tveimur valinkunnum Íslendingum. Það er vart hægt að sjá hvaða gagn þetta geri, annað en að láta fólk tikka við eitthvað box. Lítils væri saknað ef þetta félli burt (nema gleðin sem valinkunna fólkið fær við að skrifa slík meðmæli sem ég kannast við).
Þá ætti að að slaka á kröfum um að menn hafi ekki sætt sektum til að fá ríkisborgararétt. Hafi fólk greitt sekt að fullu á ekki að þurfa láta það taka út refsingu með öðrum hætti. Stór hluti af tíma Alþingis í þessum málum fer í að afgreiða umsóknir manna sem hafa brotið umferðarlög tvisvar. Þar sem reynslan sýnir að þingið er jafnan fyrirgefandi í þessum efnum ætti einfaldlega að fella þá framkvæmd í lög.
Samantekt um tillögur
- Stytta biðtímann úr 7 árum í 5
- Slaka á kröfum um framfærslu
- Falla frá kröfu um meðmælendur
- Einungis fangelsisrefsingar tefji umsókn – ekki sektir
Höfundur er þingmaður Viðreisnar. Greinin birtist á pawel.is hinn 23. ágúst 2017.