16 okt Framtíðarsýn fyrir Austurland
Á Austurlandi búa nú um tíu þúsund manns. Það yrði íbúum til mikilla heilla að svæðið væri allt eitt sveitarfélag, þar sem allir þessir þættir væru samþættir. Þetta getur gerst löngu fyrir 2050.
Allt of oft snúast stjórnmálin um dægurmál. Stjórnmálamenn hugsa í árum eða í mesta lagi einu kjörtímabili, en horfa ekki til langrar framtíðar. Þegar þeir leita lausna í atvinnumálum hugsa þeir oft sem svo: Hvað annað gæti fólkið sem nú býr í fjórðungnum unnið við? í stað þess að velta fyrir sér: Hvar hefur ungt fólk áhuga á því að vera í framtíðinni?
Land tækifæranna
Afi minn og amma fluttu bæði austur á land vegna þess að þar var atvinnu að fá. Amma fór fyrst til Seyðisfjarðar, en fór svo yfir á Norðfjörð þegar hún hafði misst sína litlu aleigu í eldsvoða. Afi freistaði gæfunnar á Eskifirði, en flutti sig svo yfir til Norðfjarðar í fyllingu tímans. Þar bar fundum þeirra saman í Konráðsbúð, en á þeim tíma var mikla vinnu að fá á Norðfirði, þar voru tækifæri fyrir ungt fólk og duglegt fólk.
Enn í dag býr Austurland yfir miklum tækifærum, en hvernig getum við nýtt þau sem best? Hvernig Austurland sjáum við fyrir okkur um miðja 21. öldina? Það er kostur að hugsa til langs tíma. Þá erum við ekki bundin af skammtímahugsun heldur getum við leikið okkur með það hvernig við viljum að hlutirnir verði.
Hvernig verður Austurland árið 2050?
Ég er sannfærður um að þrennt skiptir mestu um það hvar fólk vill búa, auk þess sem auðvitað þurfa líka að vera atvinnutækifæri á svæðinu:
- Að grunnþjónusta sé góð
- Góðar og öruggar samgöngur
- Að fjarskipti séu í góðu lagi
Skoðum ofangreind atriði hvert fyrir sig.
Til þess að grunnþjónusta verði í lagi verða sveitarfélög að vera nægilega sterk til þess að standa undir skólahaldi, leikskólum, þjónustu við aldraða og fatlaða og önnur verkefni sem sveitarfélögum eru falin. Læknisþjónusta þarf líka að vera örugg og auðsótt. Á Austurlandi búa nú um tíu þúsund manns. Það yrði íbúum til mikilla heilla að svæðið væri allt eitt sveitarfélag, þar sem allir þessir þættir væru samþættir. Þetta getur gerst löngu fyrir 2050.
Árið 2050 verða allir firðir frá Seyðisfirði og suður úr tengdir með göngum og jafnframt göng upp á Hérað. Þá verður meginhluti svæðisins orðinn eitt atvinnusvæði í raun. En samgöngur er fleira en vegir. Flugið ætti að vera ferðamáti nútímans og ég hef verið því hlynntur að litið verði á það sem almenningssamgöngur, sem eðlilegt sé að ríki og sveitarfélög komi að til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins. Ódýrara flug fyrir íbúana bætir ekki bara lífsgæði heldur líka nýtingu flugvéla, heldur byggir líka undir aukna þjónustu og þannig verður það til eflingar ferðaþjónustunnar.
Fjarskipti þurfa að mæta nútíma kröfum. Börn læra núorðið á IPad skömmu eftir að þau læra að ganga. Auk þess eru hnökralaus tölvusamskipti öryggisatriði fyrir íbúa og ferðamenn. Allur fjórðungurinn þarf að vera í síma- og tölvusambandi og þar má hvergi vera dauður blettur.
Hvernig byggjum við Austurland upp?
Viðreisn hefur beitt sér fyrir sátt í sjávarútvegi sem meðal annars felur í sér að auðlindagjald renni ekki í ríkishítina heldur farið til uppbyggingar innviða í landsfjórðungunum. Þá ákveða íbúarnir sjálfir forgangsröðun á verkefnum og geta nýtt sínar sértekjur til þess að flýta uppbyggingu á þeim sviðum sem þeir sjálfir telja nauðsynleg. Fá svæði eru eins nátengd útflutningi og Austurland. Þess vegna yrði stöðugur gjaldmiðill með sömu vexti og nágrannalöndin lyftistöng fyrir svæðið.
Tækifærin liggja í ferðaþjónustu, þar sem við sjáum fyrir okkur beint flug frá útlöndum, í umskipunarhöfnum eins og menn sjá fyrir sér í Finnafirði og fiskeldi þar sem hugað verður að umhverfissjónarmiðum jafnhliða atvinnuuppbyggingu. En líklegast er að þegar Austurland uppfyllir skilyrðin þrjú sem ég nefndi hér á undan að það verði segull á margs konar atvinnustarfsemi sem okkur getur ekki einu sinni dreymt um núna, vegna þess að ungt fólk með hugmyndir og hugvit sér að Austurland er land tækifæranna.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og þingmaður Norðausturkjördæmis.