19 okt Konur vinna launalaust mánuð á ári
Launajafnrétti var sett á dagskrá stjórnmálanna í síðustu kosningabaráttu þegar Viðreisn lagði fram jafnlaunavottun sem sérstakt baráttumál. Jafnlaunavottun er tæki til þess að tryggja að konum og körlum séu greidd sömu laun fyrir sömu eða sambærileg störf. Það ætti auðvitað að teljast sjálfsagt en því miður hefur sú staða ekki enn náðst. Frumvarp Viðreisnar um jafnlaunavottun var eitt af yrstu þingmálum Viðreisnar og undirstrikaði að jafnrétti er leiðarstef í allri hugmyndafræði Viðreisnar. Alþingi samþykkti þann 1. júní frumvarpið og það er nú orðið að lögum.
Við viljum nú beina kastljósinu að kjörum kvennastétta. Konur hafa að meðaltali 13% lægri laun en karlar. Þessi launamunur hefur þau áhrif að konur vinna því launalaust einn mánuð á ári, fá greidd laun fyrir 11 mánuði á ári en karlar 12 mánuði. Helsta skýringin á þessum launamun er að íslenskur vinnumarkaður er kynbundinn. Fjölmennar kvennastéttir í umönnunar- og kennslustörfum, svo sem leikskólakennarar, grunnskólakennarar og starfsfólk í heilbrigðiskerfinu fá greidd lægri laun en fjölmennar karlastéttir. Þessar hefðbundnu kvennastéttir vinna engu að síður störf sem við erum öll sammála um að gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Og við finnum öll fyrir afleiðingum þess þegar illa gengur að fá fólk til að sinna þessum störfum.
Þjóðarsátt um kjör kvennastétta
Með pólitískum vilja Viðreisnar varð launajafnrétti að kosningamáli fyrir ári og með pólitískum vilja varð jafnlaunavottun svo að lögum í vor. Með pólitískum vilja er hægt að stuðla að breytingum hvað þetta varðar. Í umræðunni um velferðarsamfélagið og hlutverk þess verður að ræða hlut kvennastéttanna sem sinna mikilvægum störfum velferðarsamfélagsins. Sé vilji til að taka á þessum vanda þarf sameiginlega aðkomu hins opinbera sem launagreiðanda og allra stéttarfélaga, á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði. Meta þarf umfang þessa launamunar og hvernig honum verði eytt, án þess að það leiði til hefðbundinna víxlhækkana launa. Verkalýðshreyfingin verður þar að vera samstiga um að þessar sértæku hækkanir verði ekki grunnur að launakröfum annarra stétta. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka höndum saman um að fjármagna skuli þessar lagfæringar. Hlutverk stjórnmálanna verður að leiða þetta samtal. Þar skiptir máli að hið opinbera er launagreiðandi margra þessara stétta. Það er nefnilega ekki lögmál að staðan þurfi að vera svona. Þetta óréttlæti hefur jafnframt afleiðingar sem samfélagið allt finnur fyrir. Það er viðvarandi og vaxandi vandamál að manna störf í leikskólum, skólum og á heilbrigðisstofnunum. Forsenda þess að uppbygging þessara grunnstoða verði raunveruleg er að samhliða verði farið í átak í kjaramálum þessara hópa.
Höfundur situr á framboðslista Viðreisnar í komandi kosningum. Grein var fyrst birt á Kjarnanum 19. október 2017.