30 nóv Klingjum kollum!
Sér væri, sagði hann, sönn ánægja að því – og hann væri viss um að allir aðrir sem hér væru viðstaddir tækju undir það – að verða þess var að löngu tímabili tortryggni og misskilnings væri nú lokið.
Um kvöldið heyrðist söngur og hlátrasköll úr íbúðarhúsinu. Og skyndilega vaknaði hjá dýrunum mikil forvitni þegar þau heyrðu í þessum blandaða kór. Hvað skyldi nú vera að gerast þarna inni þar sem dýr og menn mættust í fyrsta sinni sem jafningjar? Og þau tóku að læðast samtaka eins hljótt og unnt var inn í garð íbúðarhússins.
Þar sátu sex sjálfseignarbændur og sex helztu svínin umhverfis langa borðið, en Napóleon sat sjálfur í heiðurssætinu fyrir enda borðsins. Svínin virtust kunna ágætlega við sig í stólunum. Samkundan hafði skemmt sér við spil, en hafði nú hætt að spila um stund, sýnilega vegna þess að verið var að mæla fyrir minni einhvers. Stór kanna var borin um og ölkollurnar fylltar að nýju. Pálmi í Refaskógi hafði risið úr sæti sínu og stóð með kolluna í hendinni. Hann kvaðst ætla að biðja samkomuna að drekka skál eftir stutta stund.
Sér væri, sagði hann, sönn ánægja að því – og hann væri viss um að allir aðrir sem hér væru viðstaddir tækju undir það – að verða þess var að löngu tímabili tortryggni og misskilnings væri nú lokið. Sú hefði verið tíðin – auðvitað hefði hvorki hann né aðrir þeir sem hér væru viðstaddir verið sama sinnis – en sú hefði verið tíðin að mennskir nágrannar hefðu sýnt hinum heiðruðu eigendum Dýrabæjar – hann vildi ekki segja beinan fjandskap en – nokkra tortryggni. Leiðinlegir atburðir hefðu gerzt, og misskilningur hefði víða gert vart við sig. En nú væru slíkar skoðanir með öllu upprættar. Með svínum og mönnum væri ekki og þyrfti heldur aldrei að vera neinn hagsmunaárekstur. Barátta þeirra og erfiðleikar færu saman. Væru ekki atvinnuvandamálin alls staðar þau sömu? Hér kom það greinilega fram að Pálmi var að því kominn að varpa fram einhverri fyndni sem hann hafði undirbúið vandlega. Eins og þið verðið að berjast við ykkar lágdýr, sagði hann – eins verðum við að berjast við lágstéttir okkar! Þessi gamansemi vakti ómælda kátínu viðstaddra, og Pálmi samfagnaði svínunum enn einu sinni
Ræða Napóleons var að venju stutt og markviss. Hann kvaðst líka fagna því að þessir tímar misskilnings væru nú liðnir hjá. … Aftur var lostið upp húrrahrópum, jafnhjartanlegum og áður og drukkið var til botns úr kollunum en dýrin læddust burt hljóðlega. Skyndilega heyrðu þau háreisti.
Dýrin hröðuðu sér aftur að glugganum og gægðust inn um hann. Já, á því var enginn vafi að allt var að fara þarna í háarifrildi. Ástæðan virtist vera sú að Napóleon og Pálmi höfðu báðir samtímis spilað út spaðaási.
Dýrin fyrir utan gluggann horfðu frá svíni til manns og frá manni til svíns og aftur frá svíni til manns. En þau gátu með engu móti greint á milli hver var hvað.
Úr Dýrabæ eftir George Orwell, íslensk þýðing Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi.