08 nóv Mér er orðið ljóst
Öllum er hollt að hugsa sig tvisvar um, einfaldlega vegna þess að það er gott að móta sér sína eigin skoðun á málum. Vega og meta staðreyndir og leyfa þeim að tala. Ef málin eru skuggaleg verða þau það líka á morgun eða hinn daginn.
Fyrir löngu tók ég þátt í samkvæmisleik sem var þannig að allir áttu að botna setningu sem byrjaði á orðunum: „Mér er orðið ljóst …“. Þarna urðu mörg spakmælin til, þó að þau hafi fæst varðveist.
Efnahagsástandið núna er svo gott að varla er hægt að hugsa sér að það batni; verðbólga lítil, atvinnuleysi lítið og kaupmáttur mikill. Ef allt væri eðlilegt hefði ríkisstjórn sem skilaði svona búi átt að fá góðan byr en ekki tapa tólf þingsætum. Frá fer þing sem var það frjálslyndasta á lýðveldistímanum og við tekur annað sem hefur á sér allt annað yfirbragð. Hvers vegna?
Atburðir haustsins hafa kennt mér tvennt:
1. Facebook er ekki góður ráðgjafi.
2. Engin ákvörðun er svo mikilvæg að hún batni ekki við að sofa á henni eina nótt.
Ótrúlega oft virðist þeim sem á kvöldin fara yfir samfélagsmiðlana að heimurinn sé hreinlega að hrynja. Einu sinni heyrði ég í félaga mínum sem sagði að „allt væri að verða vitlaust“ vegna yfirlýsingar ráðherra um eitthvert mál. Það var ekki enn komið hádegi, ég hafði ekki heyrt þessa yfirlýsingu og leitaði að henni á fréttamiðlunum. Setninguna fann ég inni í viðtali, en sá engin viðbrögð. Mínir Facebook-vinir virtust líka vera í jafnvægi. Þá varð mér ljóst að við erum hvert um sig í glerkúlu fólks sem er með svipuð viðhorf. „Allir“ sem ég tala við eða fylgist með á netinu eru ekki sömu „allir“ og þeir sem þetta lesa hafa umhverfis sig.
Öllum er hollt að hugsa sig tvisvar um, einfaldlega vegna þess að það er gott að móta sér sína eigin skoðun á málum. Vega og meta staðreyndir og leyfa þeim að tala. Ef málin eru skuggaleg verða þau það líka á morgun eða hinn daginn. Upplýst ákvörðun verður aldrei tekin nema allar upplýsingar liggi fyrir.
Í Viðreisn höfum við það að markmiði að stunda heiðarleg stjórnmál, lofa engu nema við getum staðið við það og helst skýrt það út í smáatriðum. Flestir kjósendur hafa engan áhuga á löngum útlistunum. Þeir vilja fá einföld skilaboð. Nú er mér ljóst að þar klikkuðum við líklega í Viðreisn. Tillaga okkar um kolefnisgjald upp á sjö krónur á bensínlítra kostaði okkur örugglega miklu fleiri atkvæði en VG tapaði á 334 milljarða skattahugmyndum. Kolefnisgjaldið var áþreifanlegt, allir keyra bíla og þeim fannst okkar tillaga atlaga að sér. Auðvitað vilja allir hreint loft, en það markmið er lengra í burtu en veskið. Þrjú hundruð milljarðar eru aftur á móti svo há fjárhæð að enginn skilur hana. Þar að auki áttu „hinir“ að borga.
Kjósendum líkar stundum fagurgali og vilja heyra loforð og yfirboð, þó að þeir viti innst inni að innistæðan er engin. Þeir vilja samt efndir og það strax. Vika er langur tími í pólitík og heilt kjörtímabil er heil eilífð.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember síðastliðinn