22 nóv Það sem allir eru sammála um
Undanfarið ár kom það ítrekað fyrir, að eftir að tillögur höfðu verið samþykktar í ríkisstjórn þurfti að hefja samningaviðræður við einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokks um sömu mál. Ef til vill verða þeir leiðitamari undir leiðsögn formanns VG.
Í kosningabaráttunni settu þrír flokkar málefnin til hliðar og létu baráttuna snúast um foringja sína. Þessir sömu flokkar ræða nú stjórnarmyndun og samkvæmt fréttum gengur vel. Enda sagði formaður Framsóknarflokksins fyrir viku: „Með því að einbeita okkur að þessum verkefnum sem allir eru meira og minna sammála um að þurfi að fara í þá getum við vonandi náð að uppfylla þær væntingar sem landsmenn hafa til ríkisstjórnar.“ Þetta er ekki sérlega metnaðarfullt markmið, en vissulega leið til þess að komast í ríkisstjórn. Reyndar á enginn von á því að Framsóknarflokkurinn muni láta steyta á málefnum.
Öðru máli kann að gegna um hina flokkana tvo. Þeir hafa löngum haldið því fram að þeir væru höfuðandstæðingar í stjórnmálum. Samt er utanríkisstefna þessara þriggja flokka býsna lík. Allir eru á móti fullri aðild að Evrópusambandinu, upptöku nýs gjaldmiðils sem og frjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum. Ekki virðist neinn munur á stefnu flokkanna í landbúnaðarmálum og ólíklegt að ágreiningur verði um gjaldtöku í sjávarútvegi.
Andstaða við stjórnarmyndun innan VG byggist heldur ekki á málefnum heldur vantrausti og andúð á Sjálfstæðisflokknum og formanni hans. Þar gæti þó orðið málefnanúningur. Vinstri græn boða aukin útgjöld upp á 53 til 75 milljarða króna á ári á sama tíma og Sjálfstæðismenn vilja lækka skatta. Það verður líka áhugavert að sjá hvort VG vill draga til baka tillögur núverandi ríkisstjórnar um hækkuð kolefnisgjöld. Undanfarið ár kom það ítrekað fyrir, að eftir að tillögur höfðu verið samþykktar í ríkisstjórn þurfti að hefja samningaviðræður við einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokks um sömu mál. Ef til vill verða þeir leiðitamari undir leiðsögn formanns VG.
Einhvern tíma hefði það líka verið erfitt fyrir Sjálfstæðismenn vinna með þeim sem ákærðu Geir H. Haarde, fyrrverandi formann flokksins, í Landsdómsmálinu. En flokkurinn hefur þegar kyngt því að vinna undir forystu Sigurðar Inga og með Ásmundi Einari, þannig að hann mun eflaust eiga auðvelt með að veita Katrínu Jakobsdóttur, Steingrími J. Sigfússyni, Svandísi Svavarsdóttur og Lilju Rafneyju Magnúsdóttur uppreist æru.
Engum duldist á þinginu síðastliðinn vetur að foringjar Framsóknar og VG beindu gagnrýni sinni að ríkisstjórninni fyrst og fremst að Viðreisn og Bjartri framtíð en fóru mildum höndum um Sjálfstæðisflokkinn og formann hans. Eflaust hafa hugmyndir um það samstarf sem nú er unnið að verið komnar fram fyrir kosningar. Með því skerpast línur í pólitíkinni. Vinstri og hægri eru löngu orðin úrelt hugtök. Í framtíðinni munu stjórnmálin snúast um frjálslyndi og framfarir annars vegar og kyrrstöðu og afturhald hins vegar. Þessar viðræður snúast um hið síðarnefnda.