11 jan Munurinn á sköttum og gjöldum
Morgunblaðið fór fremst í flokki þeirra sem lögðu áherslu á nauðsyn veiðigjalda og hafði að lokum árangur sem erfiði. Nú er lítið deilt um kvótakerfið sjálft eða hvort greiða eigi gjöld fyrir veiðiréttinn, heldur aðeins hvernig skuli reikna þau gjöld. Vinstri stjórnin, næst á undan þeirri sem nú situr, lagði grunninn að þeim veiðigjöldum sem nú eru innheimt. Draumurinn var að reikna út svonefnda auðlindarentu, sem er fræðilegur mælikvarði á afrakstur af greininni.
Einfalt ætti að vera að skilja muninn á sköttum og gjöldum ríkis og sveitarfélaga. Samt er þessu tvennu ruglað saman æ ofan í æ, jafnvel af þeim sem ættu í ljósi langrar reynslu að vita muninn. Hér er ekki átt við útgjöld hins opinbera heldur gjöld sem fyrirtæki og einstaklingar greiða til hins opinbera.
Skattar eru greiðslur þar sem sá sem greiðir fær ekkert sérstakt fyrir. Tekjuskattar eru til dæmis lagðir á samkvæmt ákveðnum reglum. Allir þeir sem eru með sömu launatekjur ættu að greiða jafnmikinn tekjuskatt, óháð því hve mikillar þjónustu þeir njóta frá hinu opinbera.
Dæmi um gjöld eru veiðigjald sem útgerðin greiðir fyrir réttinn til þess að nýta hina takmörkuðu auðlind sem fiskistofnar við Ísland eru eða kolefnisgjald sem þeir eiga að greiða sem menga andrúmsloftið. Þegar greidd eru gjöld til hins opinbera er lögð áhersla á að þau séu í samræmi við þau hlunnindi sem þeir njóta sem greiða þau.
Veiðigjöld hafa verið umdeild af ýmsum ástæðum. Þegar kvótakerfinu var komið á fyrir meira en 30 árum var enginn friður um þá ráðstöfun. Einnig var deilt um það hvort leggja ætti á veiðigjöld fyrir aðgang að sjávarútvegsauðlindinni. Morgunblaðið fór fremst í flokki þeirra sem lögðu áherslu á nauðsyn veiðigjalda og hafði að lokum árangur sem erfiði. Nú er lítið deilt um kvótakerfið sjálft eða hvort greiða eigi gjöld fyrir veiðiréttinn, heldur aðeins hvernig skuli reikna þau gjöld.
Vinstri stjórnin, næst á undan þeirri sem nú situr, lagði grunninn að þeim veiðigjöldum sem nú eru innheimt. Draumurinn var að reikna út svonefnda auðlindarentu, sem er fræðilegur mælikvarði á afrakstur af greininni. Niðurstaðan er sú að nefnd reiknar út gjaldið miðað við tveggja ára gamlar tölur úr ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækja. Allir vita að útflutningsgrein sem byggir afkomu sína á íslensku krónunni býr við miklar sveiflur í afkomu. Rekstur sjávarútvegs almennt gekk ágætlega fyrir tveimur árum, en nú er afkoman víðast verri. Þess vegna reynist sumum útgerðum erfitt að greiða veiðigjaldið nú.
Gagnrýni á núverandi fyrirkomulag á sannarlega rétt á sér. Útgerðunum er mikilvægt að hætt verði að byggja á útreikningum embættismanna úr gömlum tölum samkvæmt forskrift stjórnmálamanna. Markaðurinn á að ákveða hvert afgjaldið eigi að vera, þannig að verð aðgöngumiðans að auðlindinni ákvarðist af framboði og eftirspurn. Þá þarf ekki að deila um hvort verðið er sanngjarnt eða ekki, markaðurinn ræður, en ekki stjórnlyndir forræðishyggjumenn.
Í leiðara Morgunblaðsins í gær er bent á þá ósanngirni að fleiri greinar nýti náttúruauðlindir án þess að greiða sambærileg gjöld. Þess er því að vænta að blaðið útvíkki baráttu sína fyrir auðlindagjöldum þannig að jafnræðis verði gætt.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. janúar 2018