20 jan Til hamingju með afmælið!
Þrír menn eiga öðrum fremur heiðurinn af því að skipa Íslandi í fylkingu Evrópusambandsþjóða, með aukaaðild að sambandinu: Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra og Björn Bjarnason, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Samningurinn er mesta pólitíska afrek þeirra allra.
Þann 12. janúar árið 1993 var spenna á Alþingi. Greidd voru atkvæði um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). EES var í upphafi hugsað sem biðstofa fyrir fulla aðild að Evrópusambandinu, því með samningnum var Evrópulöggjöf samræmd á flestum sviðum.
Þrír menn eiga öðrum fremur heiðurinn af því að skipa Íslandi í fylkingu Evrópusambandsþjóða, með aukaaðild að sambandinu: Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra og Björn Bjarnason, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Samningurinn er mesta pólitíska afrek þeirra allra. Þar var við ramman reip að draga og andstæðingar fóru með fleipur eins og oft vill verða í slíkum umræðum.
Páll Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, var stóryrtur: „Við afsölum okkur frumburðarrétti okkar Íslendinga til landsins og auðlinda þess til lands og sjávar. Þessi samningur kemur til með að færa okkur ósjálfstæði, atvinnuleysi, fátækt og auðnuleysi.ׅ“
Eggert Haukdal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði samninginn jafngilda innlimun: Það liggur nú fyrir að við höfum látið undan þrýstingi EB sem krefst auðlinda okkar í stað tollfríðinda. Það blasir við að EB fái aðgang að landhelginni. Spyrja má: Til hvers var þá barist fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu ef EB á að móta fiskveiðistefnu Íslendinga hér eftir? Og til hvers var barist við Dani fyrir sjálfstæði og lýðveldi um aldaraðir?“
Ragnar Arnalds, þingmaður Alþýðubandalagsins, taldi sig geta séð fyrir óorðna tíma. „Séð út frá hagsmunum Íslendinga er Evrópska efnahagssvæðið tilraun sem mistókst.“
Allir vita að þetta reyndust hrein öfugmæli. EES-samningurinn færir Íslendingum mikla velsæld og sem og fjórfrelsið um frjálsa för fólks, fjármagns, vöru og þjónustu. Jafnframt tryggir hann að hér er sama löggjöf og annars staðar á svæðinu. Enn vantar okkur samt evruna, betri landbúnaðarstefna og sæti við ákvarðanaborðið.
Björn Bjarnason skýrði aðalatriðin: „Þátttakan í Evrópska efnahagssvæðinu kallar á ný vinnubrögð, meiri aga og virðingu fyrir almennum reglum. Geðþóttaákvarðanir stjórnvalda verða að víkja fyrir almennum skilyrðum sem öllum eru sett. Á svæðinu eiga stórir og smáir að sitja við sama borð. Komið er á fót sameiginlegum stofnunum til að tryggja það. Það hljómar því eins og argasta öfugmæli að heyra íslenska þingmenn hallmæla þessum stofnunum eða telja þátttöku í þeim brjóta í bága við íslenska stjórnskipun.“
Það þarf hugrekki til þess að vera þjóð meðal þjóða. Alþingi sýndi djörfung árið 1949 þegar Ísland gekk í NATO, árið 1970 þegar þjóðin gekk í EFTA og árið 1993 þegar samþykkt var aukaaðild að Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Sérhagsmunir viku fyrir almannaheill.
Takk Davíð, Jón Baldvin og Björn. Til hamingju með 25 ára afmælið!