Börn frítt með fullorðnum

Strætó á almennt ekki að vera ókeypis. Ef halli er á rekstri Strætó á að hækka fargjöld, ekki skera niður þjónustu, eins og íslenskir stjórnmálamenn vilja allt of oft gera. Strætókort er hvort sem er miklu ódýrara en einkabíll og yrði það áfram þótt svo verðið myndi hækka umtalsvert.

Hins vegar getur verið allt í lagi hugmynd að fella niður gjald tímabundið sem hluta af einhvers konar markaðsátaki. Dæmi um það það var “frítt í strætó fyrir námsmenn” verkefnið frá því fyrir um áratug síðan.

Hér er önnur hugmynd: Í Kaupmannahöfn getur fullorðinn einstaklingur tekið allt að tvö börn yngri en tólf ára með sér í strætó án þess að greiða fyrir þau sérstaklega. Börn greiða hins vegar áfram (hálft) gjald ef þau ferðast ein.

Þetta er auðvitað búbót fyrir þá fullorðna sem eiga þegar strætókort en fyrst og fremst þýðir þetta minna vesen. Strætókortið verður örlítið meira eins og bíll. Rétt eins og bíllinn getur það nú ferjað börn án viðbótarfyrirhafnar fyrir eigandann.

Viðreisn vill skoða svona útfærslur í höfuðborginni. Auðvitað þetta ekki ókeypis en þetta er hins vegar ekki dýrt í samhengi hlutanna. Tekjur vegna barna á aldrinum 6-11 ára nema um 1,3% af heildarfargjaldatekjum Strætó. Þetta kostar því að hámarki um 25 milljónir króna.

Gera mætti tilraun með þetta til þriggja ára og fjármagna hana með örlítilli hækkun annarra fargjalda og hóflegu framlagi sveitarfélaganna sem standa að rekstrinum. Markmiðið er að auðvelda barnafólki að nota strætó og kynna börn fyrir almenningssamgöngum. Það er tilraunarinnar virði.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík. Grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. apríl 2018.