07 apr Það þarf að manna sóknina
Kjarabarátta ljósmæðra er dapurleg birtingarmynd þeirrar stefnu sem hér hefur verið rekin um árabil; að menntun og störf kvenna skuli vega minna en menntun og störf karla. Það er að minnsta kosti illmögulegt að lesa annað úr þeirri staðreynd að þær stéttir sem bera minnst úr býtum í kjarasamningum við hið opinbera eru stéttir þar sem konur eru í yfirgnæfandi meirihluta.
Góðu fréttirnar eru hins vegar að þetta þarf ekki að vera svona. Það er ekki náttúrulögmál að menntun og störf kvenna sé ekki metin til jafns við menntun og störf karla, það er afleiðing af pólitískri stefnumótun, aðgerðum og aðgerðaleysi. Og þessu má breyta.
Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi ráðherra jafnréttismála, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Að tillögunni stóðu auk þingflokks Viðreisnar, þingflokkur Samfylkingar og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata. Tillagan kveður á um að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, um bætt launakjör kvennastétta til viðbótar við almennar hækkanir kjarasamninga.
Þingsályktunartillagan felur í sér að fram fari ítarleg greining á launakjörum fjölmennra kvennastétta, svo sem kennara og heilbrigðisstarfsfólks, í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá hinu opinbera. Slík greining þarf ekki að taka langan tíma. Ef marka má þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir, mun hún staðfesta að launakjör þessara stétta standist illa samanburð við sambærilegar karlastéttir hvað varðar ábyrgð og menntun.
Þetta mun kosta
Þessar kvennastéttir eiga það sameiginlegt að störfin eru fyrst og fremst hjá ríki og sveitarfélögum og það er því á ábyrgð hins opinbera að tryggja að launakjörin séu í samræmi við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði, hjá öðrum starfsstéttum með sambærilega menntun og ábyrgð. Það er ekkert launungarmál að ein ástæða þess að hið opinbera hefur hér lengi dregið fæturna í að lagfæra launakjör þessara stétta, er sú að þetta eru almennt fjölmennar starfsstéttir. Það mun hafa kostnað í för með sér að leiðrétta kjörin. Þann kostnað þarf að bera saman við það sem það mun kosta samfélagið að tefja málið enn frekar. Hvað það mun kosta okkur að halda áfram á sömu óheillabraut með tilheyrandi brotthvarfi menntaðs fólks úr heilbrigðis- og menntakerfum okkar.
Á hinum almenna vinnumarkaði er innbyggð sjálfvirk leiðrétting við svona aðstæður þar sem framboð og eftirspurn ræðst m.a. af starfskjörum. Þannig virka hlutirnir ekki á hinum opinbera markaði og því þarf annað að koma til. Það er lykilatriði að ná hér samstöðu allra helstu samtaka innan verkalýðshreyfingarinnar um átak af þessu tagi og samþykki fyrir því að sérstakar hækkanir á grundvelli þess yrðu ekki grunnur að launakröfum annarra starfsstétta. Þetta er ekki einfalt viðfangsefni, enda væri vandinn líklega löngu leystur ef svo væri. En einfalda leiðin, að halda áfram að gera ekkert, skilar okkur verstu niðurstöðunni fyrir íslenska þjóð.
Nú er lag
Nýútkomin fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára uppfyllir sannarlega ekki fordæmalitlar yfirlýsingar stjórnarflokkanna um stórsókn á öllum sviðum samfélagsins. Hér er hins vegar tækifæri til að standa við stóru orðin varðandi jafnréttismál og reyndar yrði svona þjóðarsátt líka merkur vitnisburður um sókn á sviði velferðarmála og menntamála. Það þarf nefnilega að manna sóknina.
Við sem að málinu stöndum viljum eðlilega fá stjórnarflokkana með okkur. Þjóðarsáttin þarf að byrja með samstöðu á sviði stjórnmálanna. Og það ætti ekki að þurfa sérstaka brýningu til. Þegar flett er í gegnum stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórna er ljóst að þeir stjórnmálaflokkar sem þar hafa komið að málum hafa haft hug á að því að leiðrétta þennan ójöfnuð.
Af því að ljósmæður og barátta þeirra fyrir leiðréttingu á kjörum sínum er í brennidepli núna, er viðeigandi að hverfa 10 ár aftur í tímann. Þá stóðu ljósmæður í alveg sömu baráttu um að fá menntun sína og störf metin að verðleikum í samræmi við aðrar stéttir með svipaða menntun. Í stjórnarsáttmála þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar stóð að endurmeta bæri sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.
Aðrir stjórnarsáttmálar hafa kveðið á um svipaða hluti, lýst yfir vilja til að útrýma kynbundnum launamun, lagt áherslu á jöfn kjör kynja á vinnumarkaði og svona mætti áfram telja. Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar lætur sér reyndar nægja í þessu samhengi að vísa í verk fyrri ríkisstjórnar sem lögfesti jafnlaunastaðal undir forystu Viðreisnar, en það er erfitt að trúa því að óreyndu að meðal stjórnarflokkanna sé ekki stuðningur við þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Í slíkri þjóðarsátt felst nefnilega hin sanna stórsókn í átt til aukinnar farsældar.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 7. apríl 2018.