29 maí Beinir eða óbeinir skattar
Lítil umræða hefur verið undanfarin ár um það hvernig best er að skipta tekjuöflun hins opinbera á milli beinna og óbeinna skatta. Skipting þarna á milli hefur hins vegar mikil áhrif á þjóðarbúskapinn og er mikið hagsmunamál ekki síst fyrir aðila vinnumarkaðarins. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að beinir skattar einkum stigvaxandi tekjuskattur, er eitt helsta tæki hins opinbera til að minnka lífskjarabilið sem stafar af þeim launamun sem óhjákvæmilega fylgir markaðshagkerfi. Óbeinir skattar leggjast jafnt á ríka sem fátæka og hafa ekki neitt jöfnunarhlutverk.
Samkvæmt lauslega áætluðum tölum frá Hagstofu, var hlutdeild beinna skatta af skatttekjum, aðallega tekjuskatts og tryggingargjalda, um 39% árið 1998 (þar af tryggingargjöld tæp 7%) en 51% (tryggingargjöld 8%) árið 2017. Hlutdeild óbeinna skatta á vörur og þjónustu, einkum virðisaukaskatts og vörugjalda, var um 38% 1998 en komið niður í 29% 2017. Hlutdeild beinna skatta hefur því hækkað verulega á undanförnum árum sem vekur upp þá spurningu hvort þessi þróun á skiptingu á milli beinna og óbeinna skatta sé hagkvæm eða jákvæð fyrir almenning.
Hér á landi hafa tekjuskattar misst hlutverk sitt sem jöfnunartæki þar sem skatturinn leggst með þunga á allar almennar launatekjur og grípur í tekjur sem varla duga fyrir framfærslu. Til að tekjuskattur virki til jöfnunar þarf að lækka skattinn á almennar launatekjur þannig að lágmarkstekjur til lífsviðurværis t.d. 300.000 krónur á mánuði verði skattfrjálsar (svo sem með hækkun persónuafsláttar) en í staðinn láta hann bíta meira á tekjur yfir lágmarkinu.
Burt séð frá tekjujöfnunaráhrifum hafa skattar á tekjur og hagnað þekkta ókosti sem taka þarf tillit til við mótun skattastefnu. Í fyrsta lagi er hluti sjálfstæðra atvinnurekenda í þeirri aðstöðu að geta ráðið uppgefnum tekjuskattstofni. Í öðru lagi draga háir tekjuskattar úr sparnaði þeirra sem hafa mesta möguleika til að spara og fjárfesta. Í þriðja lagi vandast málið ef frítími er talinn mikils virði. Þá geta háir tekjuskattar dregið mjög úr vinnuframlagi og minnkað hagvöxt ef gert er ráð fyrir því að tekjur einstaklinga endurspegli framleiðni. Þrátt fyrir þessa ágalla er enn svigrúm til að jafna tekjur með meira álagi á hæstu tekjur hér á landi.
Tryggingargjald er dæmi um skatt sem telst beinn skattur en virðist óheppileg leið til tekjuöflunar. Hluti af þessu gjaldi fer í atvinnutryggingarsjóð og ábyrgðarsjóð launa en mest fer í rekstur almannatrygginga. Þetta gjald dregur úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf. Á meðan vaxtamöguleikar einkafyrirtækja eru hindraðir með háu tryggingagjaldi hefur hið opinbera lagt í miklar fjárfestingar svo sem í samgöngum og orkuöflun sem sumar hverjar eru ótímabærar eða hvíla á vafasömum forsendum um arðsemi.
Boginn er hátt spenntur í útgjöldum hins opinbera og því gæti virst lítið svigrúm til að breyta tekjuöflun og skerpa á tekjujöfnunarhlutverki beinna skatta jafnframt því að lækka hlutdeild þeirra. Fylla þarf stórt gat sem myndast við afnám tekjuskatts á lægstu tekjur. Markvissari óbeinir skattar og auðlindagjöld koma hér einkum til greina.
Hægt er að auka skilvirkni og einfalda innheimtu virðisaukaskatts með því að nota aðeins eitt þrep og breikka skattstofninn. Mikilvægt er að óbeinir skattar, einkum virðisaukaskattur, skekki ekki verðhlutföll á markaði. Slíkt getur leitt til sóunar og sent rangar upplýsingar um arðsemi fjárfestinga. Neyslustýring gegnum mismunandi skatthlutföll gengur gegn virkni markaðarins sem leiðarljóss um þarfir neytenda. Auðlindagjöld ættu að vera umtalsverður tekjustofn hins opinbera. Eðlilegt er að aðilar sem njóta sérréttinda til nýtingar náttúrauðlinda svo sem orkulinda eða fiskimiða greiði fyrir þann aðgang til eiganda auðlindanna.
Gatið sem myndast vegna afnáms tekjuskatts á lægstu tekjur þarf ekki eingöngu að fylla með annarri tekjuöflun. Umfang hins opinbera vex stjórnlaust þessi árin og kominn tími til að spyrna við fótum. Útgjöld sparast með hagræðingu gegnum einkarekstur svo sem í heilbrigðiskerfinu. Flókið tilfærslukerfi gegnum almannatryggingar er hægt að einfalda með því að virkja nútímavætt rafrænt kerfi Ríkisskattstjóra. Neikvæður tekjuskattur getur t.d. leyst af hólmi vaxtabætur og barnabætur. Stækkun stjórnsýslueininga á sveitarstjórnarstigi t.d. á höfuðborgarsvæðinu leiddi strax til mikils sparnaðar í skrifstofukostnaði auk hagræðis í skipulags- og samgöngumálum.
Í tengslum við komandi kjarasamninga gefst aðilum vinnumarkaðarins ásamt stjórnvöldum tækifæri til að móta nýja skattastefnu sem skerpir á hlutverki tekjuskatts sem tekjujöfnunartækis en miðar jafnframt að skilvirkari notkun óbeinna skatta og auðlindagjalda.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 26. maí 2018.